Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Fréttir / áramótapistill

Áramótapistill: Við kveðjum 2015 með stolti og tökum spennt á móti 2016!

Áramótapistill: Við kveðjum 2015 með stolti og tökum spennt á móti 2016!

Gleðileg jólin kæru vinir og farsælt komandi ár!

Ég datt í heljarinnar frí um leið og fallega bloggið um Kristínu Vald var birt og slökkti á tölvunni í svolítinn tíma! Jólin í ár voru yndisleg! Svolítið öðruvísi en síðustu ár en yndisleg samt sem áður. Við borðuðum jólamatinn hjá systur Tótu og fórum svo til Maríu sys og co. í enn fleiri pakka og ég meinaða, enn meiri mat!

Á Jóladag héldum við systur, makar og börn í bústaðinn okkar fína þar sem við eyddum tveimur dásamlegum nóttum. Spiluðum, skáluðum, átum, glöddumst, slökuðum, löbbuðum svolítið en nutum aðallega!

Þá héldum við Tóta norður til Þórshafnar en hér höfum við verið í dekri síðustu daga, matarboð hjá Línu, ég kláraði Sogið eftir Yrsu, mögnuð bók alveg og í dag höldum við uppá síðasta starfsdaginn hennar Hillu tengdamömmu eftir 48 ára starf hjá Sparisjóðnum og nú undir það síðasta hjá Landsbankanum á Þórshöfn!

Ég set þetta nú aðallega inn þar sem ég veit hún dræpi mig ef hún vissi að ég væri að gaspra um þetta.. en í alvöru, annar eins ferill og fyrirtækjahollusta er sjaldséð nú til dags! Ég fer nú á fullt að finna rómantískar bíómyndir og senda henni í tíma og ótíma, tengdapabbi er þó viss um að þetta muni hafa í för með sér heitan mat í hádeginu á degi hverjum! Við skulum sjá gamli.. segi ég og sötra heita áramótasúkkulaðið mitt (það er sko orðin hefð fyrir því að ég fái sérgert heitt súkkulaði með rjóma, meira dekrið!)

Elsku Hilla mín, mundu nú bara að njóta! Fara í gönguferðirnar þínar, heimsóknirnar, sinna handavinnunni og lesa, slaka á og hafa það dásamlegt með gamla sínum! Svo ertu ávallt velkomin í stelpuferð suður, við erum með gestaherbergi auðvitað og skulum passa að eiga ávallt kalt hvítvín fyrir trúnóið ;)

Já, það er fleiru að fagna, fallega systir mín, besta vinkona og samstarfsfélagi María Krista á afmæli í dag!

Hún vill ekki að ég hrósi henni meira en hún er án efa einn sá allra mesti dugnaðarforkur fyrr og síðar, glæsileg móðir, eiginkona, dýravinur, hönnuður og listakona og ég get ekki beðið eftir að upplifa meira með þér elsku besta!

Ég vildi auðvitað óska að ég gæti eytt afmælisdeginum með þér elsku sys en við fögnum í ferðinni okkar til Köben í lok jan. Við systur erum nefnilega búnar að bóka okkur ferð til Kaupmannahafnar þar sem við ætlum að heimsækja Mekkín litlu frænku og kynnast högum hennar og Arnars þar sem og kannski fyllast innblæstri að nýjum vörum. Vinnan er aldrei langt undan en svo heppilega vill til að við algjörlega elskum það sem að við störfum við!

Það lýsir sér líklega best í því hvað hefur gengið á hjá okkur síðasta ár og víkur nú að "svolitlum" áramótapistli. Þetta er auðvitað ekkert nema sjálfshól og mont yfir árinu en við eigum eiginlega ekki orð yfir það sem okkur tókst að gera á einu ári. Þar erum við þó að sjálfsögðu ekki ein og gerum okkur fulla grein fyrir því að án aðstoðar tryggra starfsmanna, vina, fjölskyldumeðlima, annarra velviljara og kúnnanna okkar að sjálfsögðu hefði þetta aldrei gerst! 

Við segjum því eitt stórt TAKK á meðan við rúllum yfir árið:

Eftir opnunina á litlu versluninni okkar í september 2014 á Akureyri var ákveðið að í febrúar 2015 yrði Volcano Design versluninni breytt í Systra & Maka conceptið. Volcano Design merkið er þó auðvitað sprellifandi alveg eins og Krista Design, við einfaldlega bjuggum til þennan líka fína "hatt" yfir fyrirtækin með þessu nafni, netverslun og nýju búðarútliti.

Verslunin er, eins og þið vitið, staðsett á sama stað og Volcano Design hefur verið öll síðustu ár, hún fékk einfaldlega mikla yfirhalningu sem janúar fór að mestu leiti í.

25. jan fórum við ferningarnir saman út að borða og fögnuðum breytingunum! Þetta var svona hvíldin fyrir geðveikina sem var rétt að hefjast..

5. febrúar. Við systur hófum daginn á dekurferð í Sóley spa þar sem við slökuðum svolítið á og græjuðum okkur fyrir kvöldið..

5. febrúar kl 18:00 opnuðum við svo dyrnar að Systrum & Mökum í Reykjavík þar sem við fögnuðum með góðum vinum, kunningjum, fjölskyldu og kúnnum!

Febrúar varð rómantískur og borðið okkar þemað í Valentínusi og konudeginum. Það hófst því strax sú hefð að skreyta hringborðið svolítið í þema verslunarinnar þann mánuðinn!

 

Í mars héldum við fyrsta klúbbakvöldið sem var svona líka vel heppnað en við héldum þónokkur kvöld það sem eftir lifði árs.

Fréttatíminn skrifaði einnig svolitla kynningu um okkur í mars sem okkur þótti ofsalega skemmtilegt!

Þann 18. apríl hélt hópurinn norður til Akureyrar en við héldum svolitla árshátíð þar með starfsmönnum norðursins. Við slógum auðvitað tvær flugur í einu höggi og skelltum í svolitla vorgleði um leið með grilli, andlitsmálningu og tilboðum í búðinni okkar þar. Einnig gáfum við þeim sem versluðu fræ í kaupauka, ferlega krúttað og vorlegt!

Gluggarnir okkar í Reykjavík fengu einnig vorlega yfirhalningu í apríl.

8. mai vorum við systur beðnar að halda svolitla kynningu fyrir tryggum meðlimum kvenfélags Hallgrímskirkju. Þangað fórum við með heilan helling af vörum og settum upp sýningarborð og mátuðum fyrir þær fatnað um leið og við sögðum söguna af okkur og litla ævintýrinu okkar. Þetta þótti þeim ægilega gaman og við kynntumst mörgum hressum snillingum þetta vorkvöld. Margar þeirra eru tryggir kúnnar okkar í dag!

18 mai skelltum við í myndatöku af sumarlínunni. Þetta var gert í samstarfi við góða vinkonu, Julie Rowland og vinkonu hennar. Ferlega skemmtilegur dagur, svolítið kaldur, en mesta fórnarlambið var þó módelið okkar Jóa Gils, það er þó ekki að spyrja að fagmannleikanum enda stóð hún sig með prýði!

 Í maí var netverslunin uppfærð en við reynum stöðugt að bæta inn nýjum vörum, bloggum og frekari upplýsingum. Netverslunin er alveg eins og hinar verslanirnar okkar, í stöðugri þróun!

Þann 20 mai hóf María að prufa sig áfram með sykurlausu sulturnar og chutneyin sín...

Í júní hófum við svo samstarf við hana Eirný hjá Búrinu um að framleiða fyrir okkur Chutney og sultur.

Ég var beðin um nokkrar sumarlegar uppskriftir fyrir vikuna og það var auðvitað tilvalið að sýna hvað hægt væri að para gott með þessari nýju vöru hjá Systrum&Mökum.

Þann 6. júní héldum við sumarhátíð á Laugaveginum. Við vorum með þetta hefðbundna, veitingar, tilboð og andlitsmálningu fyrir börnin. Ég er farin að mála börnin miklu frekar fyrir mig en þau þar sem ég hef alveg sérstaklega gaman að því!

Þann 27. júní fórum við systur í svolítið samstarf við Stjörnupopp í Hafnarfirði. Við framleiddum þónokkuð af sykurlausu döðlupoppi sem við settum svo í sölu í versluninni okkar. Þetta var hugsað sem svona svolítið sumarstuð og var poppið í sölu allt sumarið! 

Þá fengum við fréttir af miklum dugnaði frá Akureyri við að halda gluggunum hreinum... ;)

6. júlí fór vel af stað með heljarinnar ferðamannastraumi og þá sérstaklega í Reykjavík. Íslendingarnir létu sig þó ekki vanta og hér má sjá tvö krútt að njóta notalega kaffihornsins okkar!

Við Tóta fengum ofsalega skemmtilega heimsókn á pallinn okkar sem að við blogguðum um og varð þetta eitt mest lesna bloggið okkar þegar hingað var komið. Smá sigur þar ;) Bloggið má lesa hér: 

 

Þann 28. júlí kynntum við útileguteppin til sögunnar en þau seldust öll upp í sumar. Það er aldrei að vita nema að þau komi aftur sterk inn þegar hlýna fer svolítið í veðri :)

Við systur og makar skelltum okkur í svolítið ferðalag og fórum meðal annars til Þórshafnar. Dolly fór með okkur en þónokkrir fylgdust með ferðum hennar með hashtagginu: #dollyaroundiceland

Eins fórum við í hvalaskoðun frá Akureyri með Ambassador og eins og þið sjáið var bara ofsalega hlýtt sumarveður svona seinnipart júlí!!

Í ágúst enduðum við svo ferðalagið okkar á svolítilli sumargleði á Akureyri þar sem Sigga Kling kom meðal annars og dressaði sig upp! Snilld hún Sigga!

María tók þátt í litabókaræðinu og kynnti nýju litabókarkortin sín, alveg ofsalega skemmtileg hugmynd en kortin hafa orðið ótrúlega vinsæl!

í byrjun september kynnti María svo rúnanistin en það sama má segja um vinsælir þeirra. Ég held meira að segja að þessi fallegu men hafi orðið að einni vinsælustu jólagjöf ársins!

 

Við ákváðum svo þennan örlagaríka mánuð að versla okkur eitt stykki sumarbústað! Það voru margir sem fylgdust með þessu ævintýri og enn er ég ekki búin að klára öll bloggin um bústaðinn okkar fína.

Við áttum sumsé eins árs afmæli frá því fyrirtækið var stofnað og það "meikaði einhvernveginn sence" að fjárfesta. Það er víst það sem að fjármálaspekingarnir segja, fjárfesta í steypu! Iðnaðarhúsnæði var draumurinn en við höfðum enganveginn efni á því svo að sumarbústaður varð að duga. Það fannst okkur þó ekki leiðinlegt og hófum breytingar á þessum yndislega demanti "med det samme". Við hugsuðum þetta auðvitað sem svolitla auka búbót einnig en bústaðurinn er nú kominn í útleigu í gegnum Airbnb og gengur bara flott, milli þess sem við reynum að gefa okkur tíma í honum!

Á meðan makarnir máluðu veggi og unnu alla grunnvinnuna í bústaðnum með tryggri aðstoð vina okkar, stóðum við systur vaktina og leystum af sumarfrí starfsmanna.

Hér fengum við sænskan kúnna í heimsókn sem sýndi okkur tattoo sem hún hafði fengið sér, en fyrirmyndin var uglumen eftir Kristu Design. Alveg ferlega skemmtileg tilviljun að vera í versluninni akkurat þegar hún kom!

Þetta var líka svo hrikalega fyndið atriði að ég varð að hafa þetta með!

"Það kom fjallmyndarlegur erlendur ferðamaður inn í búðina rétt í þessu (við systur stöndum sko vaktina meðan makarnir vinna í bústaðnum), nema hvað að á leiðinni út gengur hann framhjá Maríu og segir :" beautiful store!" ...María, svefnlausa svarar brött: "thank you.... BABY!!!" Hahahah ég sprakk og er enn hlæjandi! Svona getur óstjórnleg þjónustulundin hlaupið með mann ;)"

Það sem eftir lifði dags spilaði ég þetta lag:

Ég fer enn að hlæja!!!! hahahah :D

 

2. október var ég beðin að halda svolítinn fyrirlestur fyrir Kjarna um netverslanir. Þetta var ferlega mikið fjall fyrir mig sem ég miklaði óstjórnlega fyrir mér. Það gekk þó ofsalega vel og ég meira að segja fékk það í óspurðum fréttum að vinkona vinkonu hefði setið fyrirlesturinn og hrifist svona ægilega! Ég elska fólk sem hrósar! (takk fyrir þetta vinkona vinkonu, þetta hrós gerði mikið fyrir mig!!!) :D

Sigurvegari ársins um mest lesna bloggið hlaut bloggið um hana Öldu, æskuvinkonu Maríu! Alveg snilldar saga þar sem hún mætti til okkar í myndatöku og sagði okkur frá ótrúlegum dugnaði og heilsufarsbreytingu.

Hér má sjá þetta flotta blogg frá þessum dugnaðarforki og magnaðar fyrir og eftir myndir.

 

Bleikum október fylgdu hin ýmsu tilboð, drykkir og veitingar og tókum við að sjálfsögðu þátt eftir fremsta megni!

Maríu tókst svo að draga litlu systur sína með á Hressleikana 2015 þar sem heljarinnar hópur fólks kemur saman og hreyfir sig til góðs. Við styrktum þetta flotta málefni með gjöfum og greiddum að sjálfsögðu eins og allir fyrir þáttöku en ágóðinn fór allur til magnaðrar fjölskyldu sem átti þetta svo sannarlega skilið!

Ég er algjör hreyfingarhaugur og er alls ekki nógu dugleg í leikfimi ólíkt Maríy sys (ætli það verði ekki að vera eitt af áramótaheitum ársins eins og fyrri ár...hreyfa sig meira) Milli þess sem ég svitnaði baðkörum, náði ekki andanum fyrir áreynslu og með ekkasog sökum gráturs (það gráta allir, ekki að marka mig, ég er sígrátandi), þá þakkaði ég Maríu strengina næstu daga og kaloríubrennsluna... við fórum svo á ball um kvöldið og margfölduðum kaloríubrennsluna í kaloríuinntöku í fljótandi formi!

Snilldar dagur sem verður svo sannarlega endurtekinn, það er að segja ef María þorir aftur! ;)

Þann 14 nóvember héldu systur og makar aftur til Þórshafnar og tókst okkur þá að ná takmarki Barkar: að koma 2 sinnum til Þórshafnar á einu ári! Mig grunar að hann stefni á að toppa þessa tölu á næsta ári.

Við tókum sumsé þátt í jólamarkaðinum í íþróttahúsinu á Þórshöfn sem var algjör snilldarhugmynd! Við seldum vel, María kynntist öllum bæjarbúum og er með eitthvað fáranlega gott minni en hún þekkir nánast alla með nafni og tengir fjölskyldur á milli, ég hef komið hingað mun oftar og á ekki roð í hana!

Við fórum á sveitaball og dönsuðum með öðrum sveitungum og hlóðum svo sannarlega batterýin á Hótel tengdó sem að dekraði við allan hópinn eins og henni einni er lagið!

 

Við komum að sjálfsögðu við á Akureyri á leiðinni norður og jóluðum búðina okkar þar... þetta snýst allt um að "múltý-taska" sjáiði! ;)

Í nóvemberblaði Man kom umfjöllun um sæta bústaðinn okkar, stoltið leynir sér ekki...

Og þann 23 nóvember tókum við að breyta plássi á Strandgötunni í Hafnarfirði í litla "popup verslun" sem fékk að standa út desember. 

 

Inn á milli allra verkefnanna reyndum við einnig að sinna vinunum og fjölskyldunni eftir fremsta megni og María var dugleg að sjá um villikettina sína. Við héldum nokkur matarboð, María og Börkur fóru í heimsókn til Mekkínar og við áttum í það heila alveg ótrúlega magnað ár!

Desember mætti í miklu stuði og tók nú við heljarinnar vinnutörn sem entist allan mánuðinn!

Þetta var svo sannarlega púsl með lager í verslanirnar, starfsmenn og tíma en við nutum öll hverrar mínútu og þökkum ykkur allan skilninginn þessar síðustu vikur ársins! 

Árið var eins og þið getið séð ansi viðburðaríkt en þannig vinnum við best! Við hlökkum til næsta árs og vonum að við getum sinnt því eins vel og þessu!

Elsku María enn og aftur til hamingju með daginn þinn! Kæru vinir, við óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þökkum kærlega fyrir það liðna!

Knús og kossar á línuna!

Katla, María, Tóta og Börkur

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila :)

Verið góð við hvort annað kæru vinir!

Sköpum okkar eigin hamingju, kveðja Katla.

- Systur & Makar –

Hægt er að fylgjast með okkur á Instagram, Facebook, Pinterest og Twitter

Skráið ykkur endilega einnig á póstlistann okkar hér fyrir ofan til hægri

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

Lesa meira