Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Fréttir / stofan

Bústaðurinn fyrir og eftir - stofan

Bústaðurinn fyrir og eftir - stofan

Við Tóta eyddum helginni í sumarbústaðnum okkar með yndislegum hópi vinkvenna þar sem þema helgarinnar var: hlátur, át, drykkja og slökun.. ekki amalegt það!

Þær voru allar að koma í fyrsta skipti og urðu svona líka heillaðar af bústaðnum okkar sem minnti mig á það að ég var aldrei búin að klára að birta allar bústaðarbreytingarnar. Þetta var því vænlegt spark og ég þarf endilega að halda áfram að sýna ykkur auðvitað! Hér má sjá stofuna okkar, bæði fyrir og eftir myndir :)

Hornglugginn hér til hægri er svona aðalatriðið í stofunni fyrir utan kamínuna sem verður að algjörlega ómissandi hlut um leið og maður fer að umgangast svona draum! Sófasettið hentaði okkur ekki alveg þar sem okkur fannst það aðeins of lítið og ekki alveg í stílnum sem við vorum að reyna að ná. Það var þó hægara sagt en gert að finna rétta stærð af sófasetti og við enduðum á því að gera okkar sett sjálf, kem betur að því hér á eftir.

Helsta breytingin í stofunni fyrir utan málningarvinnuna var að taka niður gardínurnar og kappana. Okkur þótti þær heldur þungar fyrir rýmið en erum fyrri eigendum endalaust þakklát fyrir geggjaðar screen rúllugardínur sem leyndust þarna undir. Ekki alveg hvítar, ekki alveg beige heldur blanda með svolítilli áferð, geggjaðar!

Hér er horft inní eldhúsið, út ganginn og á mótvegginn í stofunni. Sjáiði stóra flotta furuskápinn, hann fylgdi einnig bústaðnum sem við vorum svo hamingjusöm með! Hann neflinlega tekur alveg endalaust magn í geymslu og svo er hann ekkert nema fegurðin. Þessi fékk málningarumferð og endaði svo í borðstofunni.

Hér má svo sjá inní stofuna úr eldhúsinu. Gluggarnir fallegu eru nú opnari og njóta sín með öllu útsýninu og hringmottan sem þið sjáið hérna á gólfinu færðist upp á svefnloft.

Svona er stofan í dag!

Við það að mála loftin hvít breyttist nú heldur betur rýmið og það stækkaði um helming. Málningin fallega: "Þoka" frá Slippfélaginu er á veggjunum eins og allsstaðar og nýtur sín líka sérstaklega vel þar sem gluggalistar, hornlistar og hurðalistar eru orðnir hvítir. Það er gaman að segja frá því að Þoku liturinn breytist svolítið í mismunandi birtuskilyrðum, stundum er hann grár, stundum blágrár og stundum svolítið útí grænan tón!

Hér er verið að mála loftin, við notuðum Sperregrunn, tvær umferðir og Tóta er enn að jafna sig í öxlinni, já það tekur svolítið á að mála svona upp :) Það getur blætt svolítið í gegnum grunninn en það borgar sig að leyfa málningunni að þorna vel áður en farið er aftur yfir með annarri umferð af grunni eða vatnsmálningu. 

Hér var nýbúið að hreinsa kisturnar frá, fyrri eigendur eru neflinlega miklir blómaunnendur og komu fyrir svolítilli gluggakistu sem var iðulega stútfull af blómapottum. Nú þar sem við erum ekki með svo græna fingur og þykir garðurinn nógu mikil áskorun, leyfðum við kistunum að fjúka og gluggakarmarnir ramma gluggana svona líka dásamlega inn.

Svolítið gaman að segja frá þessu geggjaða veggteppi!

Við fundum þetta á sölusíðu Skreytum Hús að mig minnir og ég sá það algjörlega fyrir mér fyrir ofan borðstofuborðið. Myndin reyndist þó vera of löng svo hún passaði því miður einfaldlega ekki á vegginn. Við vorum þó mjög skotin í litunum í myndinni svo það voru góð ráð dýr. Ég hafði samband við konuna sem að seldi okkur myndina og spurði hvort hún vildi fá hana aftur eða hvort henni væri sama um að við tækjum hana í sundur.. æi okkur fannst svona réttara að láta hana vita þar sem hún fylgdist spennt með verkefninu á Instagram.

Henni var alveg sama hvað við gerðum við myndina þar sem hún hafði því miður ekki pláss fyrir hana sjálf svo við byrjuðum á því að taka hana af rammanum. 

Þá bjó ég til nokkur snið að púðaverum þar sem við nýttum myndina og já (afþví margir spurðu) það var svo sannarlega stressandi að klippa bara í útsauminn!

Það borgaði sig þó að lokum og við enduðum með að gera 8 stóra púða með svörtu velour efni í köntum og baki. Einnig poppuðum við þá upp með gulum púðum frá IKEA. Við erum alsæl með þessa breytingu á veggteppinu sem nýtur sín nú einstaklega vel sem bak í sófanum okkar!

Hér var aðeins verið að ímynda sér hvernig sófinn og borðið myndi passa á gólfinu.. maður nýtir það sem hendi er næst sko! ;)

Hér má sjá samsetningu sófans, við sumsé keyptum okkur stakt rúm í IKEA en við fundum tvö svona á slikk í útsöluhorninu í einni IKEA ferðinni. Keyptum bæði og nýttum annað hér í stofunni og hitt á svefnloftinu.

Skelltum á það yfirdýnu úr Rúmfatalagernum fyrir aukna mýkt.

Þá heftuðum við áklæðið á, það fengum við í Vogue og við saumuðum hornin og listana á hér á saumastofu Volcano, slungnar skvísurnar okkar sko!

Röðuðum svo að lokum öllum fínu púðunum og voila! 

Litli kollurinn er einnig úr IKEA, svona geymslukubbur bara, hann er örlítið lægri en svolítið stífari en dýnan svo við leyfðum þessu að vera með mismunandi hæð því þegar maður sest á "rúmið" verður það jafnt kubbnum. Hann er líka sniðugur því þarna er nú aukarúm og í kubbnum eru auka rúmföt! Hver rúmmetri er nýttur vel!

Hér má svo sjá sófaborðið í vinnslu. Hann Máni sonur Maríu og Barkar sauð það saman en hann er svolítið undrabarn með suðutækið. Þess má geta að hann sauð öll járnhúsgögnin okkar og við létum svo sprauta þau fyrir okkur.

Börkur sneið svo spýturnar á toppinn sem og undirhilluna sem við bæsuðum svo með sama bæsi og fór á sperrurnar í loftinu og allan annan við (elshúshillur, borðstofuborð, ofl). Bæsið heitir Lady Sjosand 9043 og fæst í Húsasmiðjunni.

Þetta krúttaða bleika svín fundum við í Góða Hirðinum á nokkrar krónur og það fékk tvær umferðir af svartri málningu og varð nú mun "dýrara" í útliti! 

Hér má sjá langa bekkinn í smíðun, Máni meistaraverk að brillera aftur!

Takið eftir því hvað hornið er nú mun léttara en það var áður og fallega kamínan fær að njóta sín til fullnustu!

Að lokum snýst þetta um að raða og stílisera, það getur tekið svolítinn tíma og gott auga að sjálfsögðu, en sýnið þolinmæði og það hefst iðulega að lokum.

Mér finnst alltaf gott að vera svolítið opin fyrir furðulegum hlutum, því þó svo að hluturinn virki "út úr kú" eða beinlínis ljótur í einu umhverfi getur hann tekið stakkarskiptum í öðru. Margt af því sem við notuðum til að stílisera fengum við á slikk í Góða, eitthvað kemur úr dánarbúi, sumt leituðum við uppi á sölusíðum á Facebook og svo bækur. Bækur eru alltaf frábær leið til að leika sér við mismunandi hæðir og fá þannig dýpt í uppröðunina.

Hér fær fallega svíni að njóta sín. Takið einnig eftir því að við notum sömu tóna og liti í hlutina til að búa til góða heildarmynd. td. fatan fyrir eldiviðinn, gyllta klukkan (virkar ekki, skiptir engu!), og gyllingin á bókunum.

Svarti liturinn varð gegnumgangandi um bústaðinn allan og gefur það góða endurtekningu sem myndar ró. 

Falleg birta og lýsing er lykillinn að notalegum rýmum, kertaljós, dimmanlegir lampar eða lampar með mildum perum skipta miklu máli.

Það er ekkert að því að eyða kvöldstund hér í góðra vina hópi sem sannaði sig um síðustu helgi! 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

Lesa meira