Tapasveisla og partýleikir
(Ég er að vinna í að búa til álíka mikinn brasara úr syni mínum!)
Ég ákvað að halda starfsmannagleði fyrir stelpurnar mínar um síðustu helgi og þar sem ég er bæði leikjaóð og sísvöng þá varð það úr að þetta varð sannkölluð matar og leikjaveisla!
Í lok kvöldsins fengu stelpurnar svo með sér fallegan gjafakassa sem ég setti saman. Dásamlega góða olíu og balsamic edik frá OIifa, ægilega gott pasta frá Rummo, Pretzel snakk frá Snyders (fæst td í Krónunni) og ofsalega fallegt viskastykki frá ByLola.
Bara svona ekta ég: ekkert nema bras og vesen!
Sumar hafa unnið hjá mér í ca 10 ár svo þær hafa kynnst mörgum leikjum í gegnum tíðina og á ég orðið ágætis safn af þeim eða þá allavega hugmyndir að leikjum sem ég get gripið í ef þarf. Móðir mín er einnig fjársjóðskista hugmynda sem ég róta reglulega í, en í þetta skiptið leitaði ég enn annað. Ég á nefnilega vinkonu sem er ekki síðri en mútta og hefur séð um veisluhald og leikjabras hjá sínum vinnustað og vinahópum þónokkrum sinnum og deildi hún með mér hugmyndum til að nýta. (Elsku Auður, ástarþakkir fyrir inspóið!)
Í framhaldi fjölda fyrirspurna hef ég því ákveðið að setja hér inn upplýsingar um þetta kvöld, þeas veitingarnar sem og koma með hugmyndir að leikjunum sem hver og einn getur svo útbúið fyrir sig og sína.
Veitingar
Ég hef haft einstakt dálæti á svona miðjarðarhafs matarveislum frá námsárum mínum í Barcelona þar sem ég kynntist Tapas matarhefðinni.
Fyrir þá sem ekki vita er Tapas í raun samansafn smárétta sem geta bæði verið kaldir og heitir, stundum bornir fram sem forréttir eða geta orðið að heilum máltíðum. Þetta hefur svo þróast í gegnum árin og geta smáréttirnir verið jafnt fáir og einfaldir eða margir og flóknir eða sambland af þessu öllu.
Mér hefur alltaf fundist þetta mjög skemmtileg leið til að halda matarboð hvort sem það sé fyrir fáa eða fleiri þar sem setið er og spjallað, borðað og drukkið í rólegheitunum og máltíðin getur tekið marga klukkutíma.
Með þessu móti er einnig hægt að undirbúa réttina fyrirfram og svo þegar loksins er sest að borðum þarf ekkert að vesenast meir og „kokkurinn“ tekur þátt frá byrjun boðs til enda án þess að þurfa að skjótast reglulega frá til að huga að forrétt/aðalrétt/eftirrétt, hita sósu eða passa uppá eitt eða annað.
Eins finna flestir sér alltaf eitthvað við sitt hæfi hvernig sem matarvenjur viðkomandi eru; ketó, grænmetisætur eða hvað sem er!
Ég er búin að gera þetta ansi oft svo ég á mér orðið nokkra uppáhalds rétti og vel svo reglulega úr þeim (eða græja þá alla) fyrir hvert boð. Hér koma hugmyndir að nokkrum réttum en einnig bendi ég á Pinterest og Google til að finna sniðugar tapasrétta hugmyndir, þær eru vissulega óteljandi!
Döðlur og Beikon
Ég man eftir þessum rétti frá því ég var lítil stelpa en þetta var reglulega grillað á pinna og haft sem forréttur á undan veislugrillinu. Þetta var yfirleitt verkefni okkar krakkanna að vefja döðlurnar með beikoni og raða á grillpinna.
Það var svo ekki fyrr en í Barcelona að ég sá þetta selt þar tilbúið og pakkað, þvílíkur lúxus! Þá fyrst áttaði ég mig á því að þetta er ekki alíslenskt eins og ég var búin að ákveða með sjálfri mér.
Annað heiti á þessum rétti er Devils on horseback og hann getur komið í nokkrum útgáfum ss möndlufyllt eða með gráðaosti eða geitaosti. Einfalda og klassíska útgáfan sem hentar flestum bara best eru döðlur vafðar með beikoni grillaðar á grilli eða bakaðar í ofni þar til mjúkt að innan og crispy að utan.
Búrkotta
Þessi er hálfgert partýtrikk og slær alltaf, ALLTAF í gegn, og alltaf, ALLTAF er ég jafn mikill töffari! ;)
„Hér býð ég uppá heimagerðan ost!“
„ha? Ost?.. BJÓSTU TIL OST??!“
„Já Hemmi minn, og svona líka mikinn unað! Gjöriðykkursvovel!“
Ég lærði þessa snilldar uppskrift hjá góðvinkonu minni Eirný eða ostaeirný eins og margir kalla hana. Hún er ein sú fróðasta í ostabransanum á Íslandi og þó víðar væri leitað. Ég fór til hennar á námskeið fyrir nokkrum árum síðan og hef svolleiðis stundað ostagerðina síðan.. eða þið vitið!
Þetta er mun einfaldara en þið haldið svo prufið endilega sjálf og þið getið sjálf slegið auðveldlega í gegn með því að bjóða uppá eigin heimagerðan ost!
Byrjið á að taka grisjutusku með bláa saumnum og klippið af annan endann, þannig myndið þið hálfgerðan grisjupoka. Hann setjið þið í pott með vatni og sjóðið. Strengið svo tuskuna yfir sigti og þar bíður hún sótthreinsuð og fín.
Á meðan hitið þið 2L af nýmjólk og 1pela af rjóma á miðlungshita í rólegheitunum AÐ suðu eða 90°C. Hér þarf að passa að mjólkin sjóði ekki né að hún brenni við botninn svo fylgist vel með og passið upp á gullvökvann.
Þegar mjólkin hefur náð réttum hita setjið þið 90ml af hvítvínsediki, rennið sleifinni 3 sinnum þvert í gegnum mjólkina (ekki hræra), setjið lokið á pottinn og takið af hellunni.
Hér fær ostefnið svolítinn tíma til að vinna og þegar þið hafið séð að ostefnið hefur skilið sig frá mysunni skulið þið sigta ostinn frá í gegnum grisjuna í rólegheitum þar til sem mesta mysan hefur lekið frá. (Passið þó að osturinn verði ekki of þurr).
Þá eruð þið hér komin með frábæran grunn og getið bragðbætt hann að vild.
Ég nota oft sömu uppskriftina sem mér finnst passa mjög vel einfaldlega ofan á sneiðar af góðu súrdeigsbrauði:
Parmaskinka, sítrónubörkur, fersk basilika eða ferskt kórýander og lakkríssalt. Smakkið til.
Hægt er að bragðbæta með hverju sem er, önnur tillaga er smátt skornar olivur og sólþurrkaðir tómatar.
Caprese salat
..(eða svona unnið útfrá þessari hugmynd) er eitt af mínum uppáhalds en það þarf þó að vera gert með almennilegum osti! Hið klassíska caprese salat er einfaldlega tómatur, mozzarella og basilika. Osturinn og tómatarnir skornir í sneiðar og þessu er svo raðað sitt á hvað með ferskum basiliku laufum á milli, svo sullar maður góðri ólivuolíu yfir, salti og pipar og balsamic ediki ef vill.
Þessu er líka hægt að raða upp á pinna eða búa til snittu. Ég geri stundum aðeins meira úr þessu og hef þetta á rucola beði sem þó er frekar bragðmikið salat en mér finnst það passa vel við.
Það sem mér finnst skemma þennan dásamlega rétt og tel hreinlega móðgun við vel þroskaðan tómat og dásamlega bragðmikla basiliku er þegar verið er að nota kúamjólkur mozzarella.. fyrir mér er það algjört morð. Hér er það snobbhænan á ferðinni en ég vil ekki nota neitt nema alvöru Mozzarella di Buffala og hananú!
Nú er oft mun einfaldara að fá hann út í búð heldur en áður var og tek ég hann algjörlega framyfir íslenska gúmmýostinn sem mér finnst bara alls ekki nógu góður í þennan rétt. Ég tek það fram að íslenski mozzarella osturinn hentar ágætlega til síns brúks eins og á pizzur mögulega en ekki sem ferskur og óeldaður að mínu mati. Ég hef stundum reynt að sætta mig við þann íslenska og hef marg prófað það en sé eftir því í hvert skiptið svo núna, þar sem mozarella di buffala fannst ekki, ákvað ég að búa til heimagerðan Búrkotta, einfaldlega bragðbættan með svolitlu salti. (bara Búrkotta grunnurinn hér að ofan með smá salti).
Þetta kom glettilega vel út og verður klárlega gert aftur! Mér fannst þetta ekki síðra en himneski Mozzarella di Buffala osturinn og þessi aðferð er ódýrari fyrir meira magn af osti.
Með þessu bar ég fram grillaða papriku svo hið eiginlega „Caprese salat“ er þetta svo sannarlega ekki lengur heldur fjaðurskreytt og pallíettuklædd vesenista útgáfa af sama grunni.- ekta ég bara!
Grilluð paprika
Mér finnst best að nota rauða papriku og hana set ég einfaldlega beint á opinn eld á gaseldavélinni eða á grillið og hef hana þar, þar til húðin er orðin vel svört á alla kanta. Þá set ég hana í plastpoka þar sem hún fær að svitna svolítið í rólegheitunum. Því næst skola ég brennda húðina af undir rennandi vatni og sker hana svo niður í lengjur sem fara í skál ásamt niðurskornum ferskum hvítlauk, salti og pipar og slatta af góðri olíu. Þetta passar með öllum fjandanum sem og eitt og sér!
Carpaccio
Mesta snilldin við þennan rétt er einfaldleikinn! Þetta er frábær forréttur en mér finnst þessi líka henta vel á smáréttaborðið og hann slær alltaf í gegn. Ég kaupi carpaccioið frosið hjá Kjötbúðinni á Grensásveginum (einnig er hægt að panta svona ferskt hjá fleiri kjötverslunum með smá fyrirvara).
Ég læt kjötið þiðna í rólegheitum á borðinu á meðan hinir réttirnir eru undirbúnir og þetta er svo vanalega síðasti rétturinn sem fer á borðið.
Mér finnst best að bera hann fram á stórum og rúmgóðum bakka með fersku rucola salati, svo raða ég kjötinu þar ofaná og strái svo nokkrum capers belgjum hér og þar yfir. Þá sáldra ég svolítið af góðri ólífu olíu yfir (ég mæli sérstaklega með Puglia olíunni frá Ólifa), svolitið af balsamic ediki, salti og pipar og að lokum sneiði ég góðar sneiðar af parmesan osti yfir.
Góður ostabakki
Hér þarf bara að velja nokkra góða osta og auðvitað uppáhalds ostana ykkar. Mér finnst mjög gaman að versla í ostabúðum ef ég vil gera sérstaklega vel við mig en einnig er að finna hellings úrval í stórmörkuðum í dag. Það er algengt að íslensku ostarnir hafi ekki fengið alveg nógu langan tíma til að þroskast og því er ráð að geyma þá á borði í smá tíma, en annars reyni ég að eiga smá lager til af ostum í kælinum og geymi þá neðst í grænmetisskúffunni eða þar sem kuldinn er minnstur.
Hörðu ostana má skera niður og mjúku er gott að hafa heila með hníf. Svo finnst mér gott að hafa á bakkanum ávexti, ferska og þurrkaða, ber, kjötmeti og kex eða súrdeigsbrauð.
Þessi listi er svo að sjálfsögðu ekki tæmandi og það er um að gera að leita svolítið á netinu eða í uppskriftabókum að fleiri góðum hugmyndum og prufa sig áfram. Smátt og smátt endar maður með „go to“ lista sem hægt er að leita í fyrir svona matarboð.
Leikir:
Hér koma nokkrar hugmyndir að partýleikjum. Einhverja var ég með um kvöldið og hina hef ég notað áður eða eru einfaldlega hugmyndir sem hægt er að nýta sér og vinna útfrá sjálf.
Partýpinninn
Þessi hentar í allskyns matarboð hvort sem það er fyrir stóra eða litla hópa.
Hér skrifar maður einfaldlega „verkefni“ á miða og kemur fyrir undir disknum hjá hverjum og einum eða setur alla miðana í skál sem allir draga svo úr. Dæmi um verkefni eru:
- Þú ert týpan sem skálar stanslaust.
- Þú ert týpan sem er stanslaust að spyrja: „hva, á ekkert að skella sér í bæinn eða?!“
- Þú átt að koma eftirfarandi orðum inn í umræðuna í kvöld.. einhvernveginn: Gyllinæð, lúsmý, blettaskalli.
- Þú átt að mæra einhvern ákveðinn pólitíkus í allt kvöld.
- Þú ert týpan sem ert endalaust að segja pabbabrandara.
Osfrv. Það vinnur í rauninni enginn, þetta er bara til að hafa gaman.
Sögustund
Hér þarf að finna nokkra litla smáhluti og koma fyrir í poka eða tösku. Munirnir þurfa að vera litlir svo þeir komist fyrir í lófa og helst svolítið öðruvísi og skemmtilegir. „Fingurbjörg, skartgripur, lítil stytta, kuðungur, útlenskur peningur osfrv.“
Svo lætur maður pokann ganga á milli og hver og einn dregur einn mun úr pokanum og heldur fyrir sig. Þá má gera þetta í röð ss þannig að sögustundin gangi hringinn eða bara með frjálsri aðferð svo hver og einn fer að segja sögu, hvenær sem er um kvöldið. Sagan þarf svo sannarlega ekki að vera sönn og má vera stórlega ýkt eða algjörlega byggð á sönnum atburðum eða reynslu viðkomandi en hún einhvernveginn að tengjast hlutnum.
Hluturinn getur vakið upp gamla minningu ss hvort sem hún er sönn eða ekki: „ég man þegar ég var að ferðast í karabíska hafinu fyrir um 25 árum síðan og við húkkuðum okkur far með gömlum bát, það reyndist vera sjóræningi sem átti þann bát og þarna undir einni tréfjölinni fann ég þennan pening“ bla bla.. hversu löng eða stutt sem sagan er þá getur þessi leikur verið stórskemmtilegur og hressandi!
Persónulegt pubquiz
Þetta græjaði ég fyrir partýið um daginn. Ég sendi ss öllum sama spurningalistann og svo áttu allir að svara og senda mér til baka. Þá valdi ég úr skemmtileg svör og reyndi að hafa ca jafn mikið af svörum frá öllum, það er sérstaklega mikilvægt þegar hópurinn er lítill.
Svo bjó ég til skjöl með spurningum og svörum og prentaði út svo allir fengu blað, þá átti einfaldlega að skrifa nafnið við viðkomandi spurningar og svör og giska hver hefði svarað hverju. Þegar allir voru búnir að svara skiptumst við á blöðum og ég fór yfir spurningarnar og svörin og gaf upp hver hafði skrifað hvað. Þetta var ansi fræðandi og fyndið og við kynntumst hvor annarri enn betur.
Einfaldur og sniðugur leikur sem hentar einnig fyrir hópefli.
Ég bendi þó á að gott er að taka fram að skemmtilegast er ef að svörin eru soldið fyndin og skemmtileg. Þeas reynið að hafa svörin ekki of augljós, við vitum öll að fjölskyldan er vanalega helsta stoltið og án þeirra vill maður ekki vera, þar er hamingjan og allt það..en reynið samt að hunsa þau í þessum leik og hugsið svörin eingöngu útfrá ykkur 😉
Dæmi:
„hvað gerir þig sérstaklega hamingjusama/n?“
Svar: „Happy Hour“! 😉
Hér koma dæmi um spurningar sem hægt væri að spyrja:
- Ef þú gætir búið hvar sem er í heiminum, hvar myndi það vera?
- Hver er þinn helsti ótti?
- Ef þú gætir breytt einhverju við þig, hvað myndi það vera?
- Hvað gerir þig sérstaklega hamingjusama(n)?
- Hvert er þitt helsta stolt?
- Uppáhalds bíómyndin þín?
- Uppáhalds sjónvarpsþættir?
- Þegar þú varst lítil(l), hvað langaði þig að verða þegar þú yrðir stór?
- Ef þú mættir bara borða eina máltíð að sem eftir væri ævi þinnar, hvaða matur væri það?
- Ef þú værir föst/fastur á eyðieyju, með hverjum vildirðu vera?
- Ef peningar væru engin fyrirstaða, hvað myndirðu vilja gera allan daginn?
- Ef þú gætir ferðast aftur í tímann, hvaða ár myndirðu vilja upplifa?
- Hvernig myndu vinir þínir lýsa þér?
- Hver er besta gjöf sem þú hefur fengið?
- En versta gjöf sem þú hefur fengið?
- Fyrir utan nauðsynjar til að lifa af, hverju gætir þú ekki lifað án?
- Nefndu 2 atriði sem þú einfaldlega ÞOLIR EKKI!!
- Hvar sérðu þig eftir 5 ár?
- Ef þú værir ofurhetja, hverjir eru þínir „superpowers“?
- Hvað myndirðu gera ef þú myndir vinna í lottó?
- Ef þú gætir farið aftur í tímann og breytt einu atriði, hvað myndi það vera?
- Þú heldur matarboð og mátt bjóða hvaða 4 einstaklingum sem er, lifandi eða dánum, frægum eða ekki,, hverjum myndirðu bjóða?
- Hvernig sérðu fyrir þér hið fullkomna frí?
- Hvað er það klikkaðasta sem þú hefur gert?
- Hver er þinn uppáhalds „útlenski“ matur?
- Hvern myndirðu vilja að léki þig í bíómynd um þitt líf?
- Hvaða eldhúsáhald/tæki notarðu alla daga?
- Hver er uppáhalds skyndibitamaturinn þinn?
- Hver er þín uppáhalds fjölskylduhefð?
- Hver er þín uppáhalds barnæskuminning?
- Hvaða 3 hluti myndirðu taka með þér á eiðieyju?
- Hvað er það furðulegasta sem þú hefur borðað?
- Safnarðu einhverju?
- Er eitthvað sem þú óskar að komi aftur í tísku?
- Hvað af skynfærunum fimm telur þú sterkast hjá þér?
- Ef þú værir konungurinn í þínu eigin landi, hver væru fyrstu lögin sem þú myndir kynna?
- Ef þú værir með einhverjar varrúðar merkingar (á þér sjálfri) hverjar væru þær?
- Hvaða lag lýsir þér best?
- Hver var fyrsta skotið þitt? (í hverjum varstu fyrst skotin,, lýstu honum/henni..)
- Ef þú gætir verið meðlimur í einhverri hljómsveit, (gamalli eða nýrri) hvaða hljómsveit væri það?
- Hver var fyrsta atvinnan þin?
- Hver er klárasta manneskjan sem þú þekkir?
- Nefndu eitt atriði sem þú munt ALDREI gera aftur!
- Ef þú værir dýr, hvaða dýr værirðu?
- Hver þekkir þig best?
Almennt pubquiz
Þegar covid faraldurinn var að byrja á Íslandi 2020 fór ég að vera með „pub quiz“ keppnir á instagram reikningnum mínum og þær eru enn þar inni í „highlights“. Hér er svolítið samansafn af spurningum úr þessum pubquiz spurningum mínum sem hægt væri að nýta í ykkar eigin spurningkeppni eða pubquiz.
Dæmi um spurningar og svör:
Hvað af eftirfarandi er grísk jógúrtsósa:
- Bagna Cáuda
- Tzatziki
- Tkemali
Hvaða matvöru er átt við á Ítalíu með "mortadella"
- Salatdressing
- Tegund af pasta
- Pylsa
Hvaðan á beyglan uppruna sinn?
- Póllandi
- Ameríku
- Hollandi
- Þýskalandi
Hvaða kjötvöru er mest neytt um allan heim?
- Kjúkling
- Svínakjöt
- Nautakjöt
Hvaða framleidda drytt er mest neytt um allan heim?
- Bjór
- Kaffi
- Te
- Coca Cola
Hvaða land framleiðir mesta magn af kaffi?
- Brasilía
- Víetnam
- Kólumbía
Hver er helsta útflutningsvara Kúbu?
- Vindlar
- Baunir
- Sykur
Makkarónur eru vanalega með hvaða hnetum?
- Möndlum
- Heslihnetum
- Valhnetum
Hvað er loðber?
- Hindber
- Sveppategund
- Kiwi
Hvað eru 3 aðal innihaldsefni í BLT samloku
- skinka, ostur og ananas
- beikon, kál og tómatur
- beikon, skinka og cheddar
Hvaða mæliskali er notaður fyrir hita chillipipars?
- Boltsman skalinn
- Scoville skalinn
- Chilliburn skalinn
Hvað er notað í franska réttinn Moulines Marinere?
- Sniglar
- Froskalappir
- Kræklingur
Fahl er talinn sterkasti matur heims, hvað er það?
- Karrýréttur
- Sushi
- Brjóstsykur
Rétturinn baked alaska er einnig þekktur undir heitinu:
- Norwegian Omelette
- Pavlova
- Anger Delight
Hvaða ávöxtur er talinn sá sætasti í heimi?
- Ferskar fíkjur
- Durian
- Mangó
- Drekaávöxtur
Bloody Mary er hrært með hverju?
- Vorlauk
- Blaðlauk
- Sellerí
Hvað er sett á brúnina á glösum Margaritu?
Salt eða sykur?
Lady Fingers er einnig þekkt sem matvara:
- Mjóar franskar kartöflur
- Spaghetti tegund
- Eftirréttakökur
Fleiri spurningar má finna í highlights á Instagramsíðu Systur&Makar sem og bara leita og semja sjálf í gegnum Google.
Skálarleikar
Eftirfarandi leikir virka í raun allir eins, hér eru litlir miðar með mismunandi orðum eða verkefnum sem þarf að leysa. Pör vinna saman eða lið og keppt er í ákveðinn tíma til að ná sem flestum réttum.
Einnig er hægt að skipta hóp í 2 lið eða fleiri og mynda raðir á gólfi þar sem hver og einn fær að spreyta sig: þeas fremsti maður í röðinni snýr sér við og er „giskarinn“ næsti maður í röðinni er „gerandinn“ og dregur úr skálinni og leysir verkefnið, þegar rétt svar er komið fer „giskarinn aftast í röðina og „gerandinn“ breytist í hinn nýja „giskara“..
Hér koma nokkur dæmi sem gætu virkað vel fyrir svona uppsetningu:
Dúddaðu lagið
Þetta virkar nákvæmlega eins og þetta er skrifað.. maður bókstaflega „dúddar“ lagið..
„Dú dú dúdúúúú, dú dú dú dúdúdúdúúúú....“
Dæmi um lög:
Madonna - like a virgin, "Happy" - Pharrell Williams, The Knack - My Sharona, Friends theme song, Luis Fonsi – Despacito, Mamma Mia – Abba, Sálin Hans Jóns míns – Sódóma
Og svo framvegis!
Leiktu íþróttina
Þetta skýrir sig sjálft.. þú þarft að leika viðkomandi íþrótt án hljóða:
Dæmi um íþróttir:
Kúluvarp, Boccia, Dýfingar, Grindahlaup, fótbolti, crossfit, glíma, skíðastökk osfrv.
Dans dans dans:
Þetta er eins og með íþróttina nema í þessu tilviki er um mismunandi dansa að ræða. Leiktu dansinn án hljóða:
Dæmi um dansa:
Ballett, Vals, Súludans, Ormurinn, Twerk, Salsa, Macarena, Gangnam style, YMCA, Nútímadans osfrv.
Dýravinir
Hér á að leika viðkomandi dýr án hljóða.
Dæmi um dýr:
Kanína, Skjaldbaka, Maur, Fiskur, Fiðrildi, Kalkúnn, Lamb, Górilla osfrv.
Tannstöngla gisk
Þessi getur verið skemmtilegur, hann virkar eins og skálaleikirnir og getur í raun fallið undir þann flokk líka. Maður skrifar niður hóp af orðum sem öll tengjast á einhvern hátt, hér er auðvelt að vera með mismunandi þemu og þetta er algjörlega hægt að tengja þema kvöldsins ef það er eitthvað sem verið er að vinna með.
Svo setur „gerandinn“ tannstöngul eða eldspýtu á milli efri og neðri góms til að halda munninum vel opnum og dregur svo orð úr pottinum og hinn reynir að giska hvað verið sé að segja. Þetta er hægt að gera á tíma td þannig að hvert lið fær hálfa mínútu til að ná sem flestum orðum.
Dæmi um orðahópa:
Staðir á landinu: „Húsafell, Þingvellir, Ásbyrgi, Ísafjörður, Höfn í Hornafirði, Mýrdalsjökull, Lagarfljót, Jökulsárgljúfur osfrv.
Sjúkdómar: Lifrabólga, Covid 19, njálgur, rauðir hundar, hlaupabóla, hálsbólga, gyllinæð osfrv.
Ævintýri: Hans og Gréta, Geiturnar þrjár, Öskubuska, Þirnirós, Jói og baunagrasið, Stígvélaði kötturinn osfrv.
Blóm og tré: Birki, fífill, rós, hlynur, marþöll, strá, njóli, páskalilja, eik, sóley osfrv.
Heimilistæki: þvottavél, ryksuga, þurrkari, þeytari, fótanuddtæki, safapressa, hárblásari, sléttujárn, sjónvarp, rakvél, rakatæki, air fryer osfrv.
Líkamslýti: Vörtur, flasa, ilsig, kiðfætt, líkþorn, rósroði, kartöflunef osfrv
Hver er sjónvarpsþátturinn
Þessi krefst undirbúnings en hægt er að finna þemalög hinna ýmsu sjónvarpsþátta á youtube eða Spotify í dag.
Ég bjó til smá lista og má finna link að þeim lista hér:
Röð laganna er eftirfarandi: Law and order, Nýjasta tækni og vísindi, Desperate Housewifes, Bachelor in Paradise, Baywatch, Lucifer, Greys Anatomy, New Girl, Criminal Minds, Bones, Ófærð, sex and the city, Breaking Bad, Modern Family, Cheers, Dexter, Game of Thrones, X files, ER, Melrose Place, Blacklist.
Svo fær liðið eða einstaklingurinn að hlusta á smá brot úr hverju lagi og skrifar svo niður sjónvarpsþáttinn: flest rétt svör/flest stig!
Hver á lógóið
Þessi krefst þess að kunna svolítið á photoshop og maður tekur nafn fyrirtækisins út og lógóið er skilið eftir og svo á að giska á hvaða fyrirtæki/merki myndin tilheyrir.
Þetta væri líka auðveldlega hægt að gera með merki íþróttafélaga, þjóðfána eða sveitafélaga.
Orkan, Lyfja, Vínbúðin,Blómaval, Volcano Design, Twitter, Tesla, Amazon, Pósturinn, Arion banki, Mastercard, Reykjalundur, Icelandair, Lýsi, Mjólkursamsalan, Háskólinn í Reykjavík, Innes, Landsspítalinn, Þjóðminjasafnið, Bláa lónið, ÍAV, Össur, Haninn, Ittala, Blush, Puma, Spilavinir, CCP, Under Armour, Brimborg.
Hver er staðurinn?
Hér eru sýndar myndir frá frægum stöðum og viðkomandi giskar. Myndirnar geta td allar verið teknar á Íslandi eða í heiminum öllum. Hér er einnig hægt að sýna myndir af frægum byggingum eða kennileitum.
Ég fann allar þessar myndir hér, bara til að sýna í þessu dæmi: https://www.islandihnotskurn.is/
Rétt svör:
1: Akureyri, 2 Hvítserkur, 3 Beljandi, 4 Arnarstapi, 5 Höfði, 6 Jarðböðin við Mývatn, 7 Ásbyrgi, 8 Svartifoss, 9 Seljavallalaug, 10 Djúpivogur, 11 Guðlaug 12 Gullfoss.
Hver er rétturinn?
Hér eru sýnd innihaldsefni úr frægum rétti og svo á að giska á heiti réttarins.
Rétt svör: Blt samloka, Cheviche, Guacamole, Miso súpa, Pavlova og Margarita.
Hver er einstaklingurinn?
Hér er búið að kremja myndir af frægum einstaklingum og liðin eiga að giska á hver sé hvað. Það er augljóslega hægt að gera þetta muuun erfiðara en þetta og hér er einnig auðvelt að gera eftir þemum.. íþróttamenn, tónlistarmenn, pólitíkusar eða hvað sem er.
Rétt svör: Tiger Woods, Mark Zuckerberg, Marta María, Kim Kardashian, Oprah Winfrey, Paris Hilton, Robin Williams, Greta Thunberg, Julia Roberts, Emiliana Torrini, Dr. Phil, Donald Trump, David Beckham, Bogi Ágústsson, Billie Eilish, Elvis Presley, Ingó Veðurguð, Stephen Hawking og Sigurður Sigurjónsson.
Eurovision
Þetta er myndagáta hugsuð fyrir Eurovision þema keppni, hér er ss sýnd mynd frá söngvara/myndklippu af sviðinu eða úr myndbandinu og viðkomandi giskar á land viðkomandi atriðis.
Rétt svör: Danmörk 2019, Úkraína 2009, Frakkland 2010, Swiss 1998,
Myndagátur:
Þessi krefst heljarinnar vinnu en ef vel er að þessu staðið getur þessi verið algjörlega frábær og snilld fyrir hópefli eða keppnir!
Best er að ákveða þemað fyrst og vinna svo útfrá því, hér koma nokkur dæmi:
Hljómsveitir:
Rétt svör: Beegees, Korn, Agent Fresco, Á móti sól, Baggalútur, Red hot Chili peppers, Beach Boys, The Police, Alice in Chains, Rage against the machine, Papar
Málshættir og orðtök:
Rétt svör:
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni
Barnið vex en brókin ekki
Allar ár renna til sjávar
Blindur er bóklaus maður
Gott er að eiga Hauk í horni
Enginn verður óbarinn biskup
Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla
Kominn er köttur í ból bjarnar
Víða er pottur brotinn
Einnig væri hægt að hafa myndagátur um mismunandi lönd og borgir, fræga einstaklingar eða hvaða orðahópar sem er í rauninni.
Gloppa.
Þessi virkar þannig að orðið „gloppa“ kemur í staðinn fyrir sögn.
Einn einstaklingur er valinn og beðinn að fara fram á gang eða í annað rými þar sem hann heyrir ekki til og hópurinn kemur sér á meðan saman um sögn. Gefum okkur dæmi um að sögnin sem valin er sé „að hlæja“.
Giskarinn kemur svo aftur inn og spyr hópinn smátt og smátt spurninga til að finna út hver rétta sögnin sé. Þetta getur tekið soldinn tíma (eða ekki..) og þetta getur verið ferlega fyndið og hentar jafnt fyrir krakkahópa sem fullorðna.
Gloppa ég á daginn? Gloppa ég á nóttunni? Gloppa ég í bílnum? Gloppa ég þegar eitthvað annað gerist? Gloppa ég þegar ég sé eitthvað sorglegt? Gloppa ég þegar ég sé eitthvað fyndið? Osfrv.
Ef þú ert með fleiri leiki sem þú værir til í að deila með okkur þá væri yndislegt að heyra af því. Hægt er að commenta hér á bloggið eða senda mér email á systurogmakar@gmail.com
Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!
Katla – Systur & Makar –
Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!
Hægt er að fylgja okkur á Instagram, Facebook og Pinterest
Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.
SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar