Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Systur&Makar - næstu skref!

Ég vil byrja á því að þakka öllum kærlega fyrir komuna sem að sáu sér fært að mæta á kynningarkvöldið okkar í gær. Við erum svo ótrúlega ríkar af frábæru starfsfólki, heildsölum sem mættu með kynningar og gáfu vinninga í happadrætti sem og veitingar svo ekki sé minnst á fastakúnnana okkar sem mættu til að gleðjast og fagna með okkur frábæru kvöldi, svo TAKK!

Hér má sjá brot af þeim magnaða hóp sem gerði þetta kvöld svo dásamlegt! Takk allar!

Nú, við erum búnar að vera að tala um tilvonandi breytingar á rekstri Systra&Maka í svolítinn tíma núna á miðlunum okkar og langar mig að fara aðeins yfir þær. Hefjum þetta á smá yfirferð um sögu fyrirtækisins og svo enda ég á því sem framundan er.

Ég stundaði nám í innanhúshönnun í  Barcelona til ársins 2009 en í sumarfríinu 2008 kom ég heim til að hlusta á tilkynningu forsetisráðherra um að guð ætti nú að blessa Ísland og bara gangi okkur öllum vel! Ég sá ekki fram á að mikið færi fyrir því að skipta um eldhúsinnréttingar á næstunni svo ég lét það eftir mér að prufa gamlan draum um að stofna fatamerki.. það skipti þá ekki öllu máli ef það gengi ekki og ég myndi aftur fókusera á innanhúsferilinn sem ég eyddi öllum krónum LÍN í að borga fyrir námslán á. Þetta var sumarið 2008 sem að Volcano Design var stofnað. Það fór langt umfram mínar björtustu vonir og fór svo að ég rak fyrirtækið áfram á meðan ég kláraði námið mitt úti.

Krista Design var stofnað árið 2009 en þau hjónin, María Krista og Börkur hafa verið í þessum bransa saman frá byrjun. Handverk og hönnun hefur lengi verið áhugamál hjá þeim og finnst þeim sérstaklega gaman að hanna nytjahluti og skrautmuni úr efnum sem eru óvenjuleg og ekki er verra ef að þau eru endurnýtt á einhvern hátt.

María hefur verið í rúm 20 ár að vinna í einhverskonar handverki, allt frá því að hnoða fimoleirkalla inní herbergi og selja í Kolaportinu, framleiða Countryvörur úr MDF og selja á mörkuðum um land allt og svo síðustu 10 ár hafa þau hjón framleitt gjafavörur og skartgripi undir merkinu Krista Design, svo hér er ansi mikill reynslubolti á ferð.

Það fór því svo að við systur ákváðum að skella okkur saman, með sitthvort fyrirtækið, norður á Handverkshátíðina á Hrafnagili þar sem við settum upp sölubás í stórri skólastofu. Við fórum aftur 2011 og 2012 og sáum vörurnar okkar blandast meir og meir saman á hverju ári.

"Gerum þetta bara!!"

Árið 2014, það afdrifaríka sumar, settum við upp síðasta básinn okkar á Handverkshátíðinni þar sem við höfðum bókstaflega morfast í eitt. Við vorum með eitt afgreiðsluborð og afgreiddum vörur hvor annarar þó svo að fyrirtækin væru tvö. Þetta kom ótrúlega vel út og við seldum skart með kjólum, hitaplatta með utanyfirflíkum og viðskiptavinirnir virtust hinir kátustu.

Þessu þurfti að sjálfsögðu að fagna sem við og gerðum síðasta kvöldið þar sem skálað var í hvítvíni, miklu hvítvíni og sushi og fæðist þá hugmyndin „afhverju opnum við ekki bara búð saman“.. „köllum hana bara Systur&Makar“.. „iss, það verður ekkert mál!“.. Um nóttina í bjartsýniskasti var gengið á glugga verslunarrýmis sem við fréttum að væri tómt og það var ekki seinna en morguninn eftir sem að fasteignasalinn mætti með lyklana til að sýna okkur slotið. Úr varð, við skrifuðum undir samning með det samme og skildum stóran hluta lagersins eftir fyrir norðan. Brunuðum suður í sitthvorum bílnum þar sem við systur sendum skilaboð á milli og hönnuðum lógó, ákváðum concept og settum upp svolítið plan fyrir verslunina. 3 vikum síðar erum við aftur á leiðinni norður með fullan bíl af máluðum mublum og svolítið meiri lager og slegið var til opnunar 2 dögum eftir lendingu en þangað fengum við stóran hluta af samstarfsmönnum og fjölskyldumeðlimum til að fagna með okkur!

Í febrúar 2015 breyttum við svo verslun Volcano Design sem hafði þá verið staðsett í þónokkur ár á Laugavegi 40, í verslun Systra&Maka. Um sumarið sama ár ákváðum við að splæsa í afmælisgjöf, og þar sem við höfðum ekki efni á iðnaðarhúsnæði, var ákvörðun tekin um kaup á sumarbústað í Eilífsdal sem við tókum í gegn á 14 dögum. Hefur sá demantur þjónað sem enn ein búbótin í okkar rekstri en hann hefur verið til leigu til ferðamanna alla tíð síðan, svona á milli þess sem að við höfum reynt að skapa okkur gæðastundir í honum líka.

Áfram gakk!

Allt gekk sinn vanagang, við héldum úti rekstri á báðum verslunum og netverslun sem og sinntum þrifum og rúmfataskiptum í bústaðnum milli þess sem við komum með nýjar vörur. Mikil vinna, mikil gleði og nóg að gera!

2016 fengum við svo fregnir um að við værum að missa húsnæðið á Laugaveginum þar sem túristinn væri nú að taka yfir allt og leiguverð komið upp úr öllu valdi! Þetta var mikið sjokk og sérstaklega fyrir mig þar sem ég hafði verið viðloðandi Laugaveginn í þónokkur ár og sá mig hvergi annarsstaða vera! Eftir svolitla umhugsun ákváðum við að spyrja kúnnana okkar hvar þeir vildu helst sjá okkur og það kom skemmtilega á óvart að það var svo sannarlega ekki á Laugavegi eða í verslunarkeðjum, heldur í sjálfstæðu rými miðsvæðis í Reykjavík með nægum bílastæðum. Það þurfti því ekki að leita langt yfir skammt og við fundum tómt rými í Síðumúla 21, í sömu götu og saumastofan, sem að fékk heljarinnar yfirhalningu. Hver hefði giskað á þetta?!

Við slógum til heljarinnar veislu og opnuðum stóra og glæsilega verslun 5. Sept 2016. Hér mátti finna enn meira vöruúrval, meira pláss og andrúmsloftið var dásamlegt. Það lá því beinast við að leggja alla okkar orku í þessa staðsetningu sem og í netverslunina og í janúar 2017 lokuðum við rekstri á Akureyri.

Kalt mat...

Íslensk hönnun og framleiðsla gerist hreint ekki að sjálfu sér og tekur það mikinn aga að halda úti batteríi sem þessu. Við höfum aldrei fengið styrki fyrir nokkru verkefni og erum ótrúlega stoltar af því að eiga að hliðholla starfsmenn sem hafa fylgt okkur í fleiri fleiri ár. Án þess að vera með nokkurt væl (enda erum við kraftmiklar konur í business), þá er þetta dýr rekstur og þó vinsældir séu miklar og salan í takt við það þá situr ekki endilega mikið eftir þegar búið er að greiða allan kostnað. Þetta skilja allir þeir sem standa í eigin rekstri og hafa þurft að berjast fyrir sínum verkefnum og vinnu alla tíð.

Það hófst því heljarinnar hagræðing. Enn meiri fókus og enn meiri tiltekt, sparnaður hér og þar og nýjar hugmyndir fengu að líta dagsins ljós, ýmislegt prófað, sumt gekk betur en annað eins og gengur og við þróuðum vöruúrvalið enn meir. Einn maki hætti í rekstrinum og þónokkur kíló fengu að fjúka sem var afleiðing LKL lífstíls sem María hóf aftur að kynna fyrir landanum og sló svona heldur betur í gegn. Hún hafði jú fyrir nokkrum árum gefið út „Brauð og eftirréttir Kristu“ sem er sykur, hveiti og glútenlaus uppskriftabók og er nú með öllu uppseld. Við þetta fóru að bætast inn lágkolvetna og ketóvænar matvörur og enn fleiri uppskriftarpakkar og á þetta vöruúrval stóran sess í versluninni í dag.

Miðlarnir okkar fengu enn meira vægi og vinsældir jukust á snapchat og instagram en þar gátum við leyft okkur að vera við sjálfar, haga okkur eins og fífl, syngja lög við heimagerða texta við misgóðar undirtektir (ég skil það nú ekki...!) og deila með ykkur öllum gleðinni sem við upplifðum í að reka þetta góða batterý saman.

Það er alls ekki ónýtt að fá að ganga í gegnum fyrirtækjarekstur með fjölskyldunni sinni og hafa svona líka ótrúlega gaman að! Þessi 5 ár hafa verið einhver þau mögnuðustu, viðburðaríkustu og skemmtilegustu ár sem ég hef upplifað. Að sjálfsögðu komu upp stundir þar sem við vorum ekki sammála og klesstum hornum enda steingeit og hrútur og í alvöru rekstri þarf stundum að kíta! En þegar heilt er yfir litið urðum við nánari en við höfðum nokkurntíman þorað að vona og eigum núna bestustu vinkonu, trúnaðarvin og macker í formi systur.. það toppar það fátt!

Næst á dagskrá

Þetta hefur verið ein heljarinnar rússíbanareið sem endaði í þessari glæsilegu verslun sem minnir okkur alltaf á risastóran og rándýran konfektkassa sem við höfum algjörlega dýrkað að sinna og erum einstaklega stoltar af. En eins og dýrt konfekt er, þá hefur maður kannski bara ekki alltaf magapláss eða efni á slíkum munaði.

Það er því komið að enn frekari hagræðingu hjá okkur systrum sem við förum í á nýju ári.

María er líka bara svo ægilega gömul greyið að hún hefur bara ekki orku í þennan stóra pakka lengur og hefur því ákveðið að draga sig úr rekstri verslunarinnar í þeirri mynd sem hún er í, í dag og mun leggja enn frekari áherslu á að landinn haldist sykurlaus og hollur! Hún hefur líka bara meiri áhuga á Sólon og ömmubarninu en litlu systur sinni svo maður þarf víst bara að skilja það..

Að öllu gamni slepptu þá er hún að endurheimta dóttur sína og barnabarn úr 5 ára skólavist erlendis og langar ægilega að taka ömmuhlutverkið föstum tökum og passa eins mikið og hægt er.

Krista heldur einnig úti mjög vinsælli heimasíðu www.mariakrista.com þar sem hún fræðir alla sem vilja heyra um kosti þessa ágæta mataræðis og þar mun hún einnig selja sína hönnun. Listagyðjan er farin að slást við eldhúsgyðjuna um athygli og það er ekki hægt að gera allt. Matarstússið hefur undið upp á sig og hún finnur að það á vel við hana að stússa í eldhúsinu og hjálpa fólki að halda sér á beinu brautinni. Hún mun einbeita sér enn meir að matargerð og námskeiðahaldi eftir áramót en mun einnig selja vörur Kristu að einhverju leiti áfram.

Saumastofa Volcano Design mun flytjast hingað í verslunina í Síðumúla 21 þar sem hægt verður að upplifa opna vinnustofu með enn frekari áherslu á fatnaði og tískuvöru.

Vörur Kristu Design verða enn að einhverju leiti fáanlegar í versluninni sem og aðrar smávörur en eldhúsdeildinni verður skipt út fyrir stóran vínkæli með Kötludjús.. en ekki hvað?! (djók!)

Volcano Design stendur í mikilli vöruþróun sem verður svo spennandi að kynna fyrir ykkur öllum þegar nær dregur. Verið er að skoða útflutning og mögulega erlenda framleiðslu að einhverju leiti sem mun auka vöruúrvalið og tækifærin enn frekar. Volcano Design stígur því spennt inn í sitt 12. ár í rekstri með fatnað og fylgihluti fyrir töff og tignarlegar konur!

Það eru því svo sannarlega áhugaverðir tímar framundan og við vonum að þið fylgist spennt með því!

Við höfum skemmt okkur endalaust vel í öllu þessu brasi og leyfðum ykkur öllum að fylgjast sem best með ruglinu. Snapchat, blogg, facebook póstar og nú Instagram story hefur átt óstjórnlega stóran þátt í því hvar við erum í dag (enda með eindæmum athyglissjúkar) og þetta hefði aldrei verið hægt án aðstoðar mjög svo þolinmóðra starfsmanna, vina/fórnarlamba, fjölskyldu og vandamanna sem máttu hjálpa til við hverja einustu dillu.. en síðast en ekki síst ykkar kæru kúnnar, sem hafið fylgt okkur trygg og hlegið að bullinu. Við þökkum ykkur öllum kærlega fyrir það!

Að lokum vil ég koma með mjög myndræna útskýringu sem að snerti okkur systur mjög og fleiri geta örugglega tengt við. Hún Kamilla heilaga kakódrottning og góðvinkona okkar varð svolítið brugðið yfir þessum fregnum af breytingunum, hugsaði sig um og sagði svo.

"Jú veistu ég held að þetta sé jákvætt fyrir ykkur báðar.. ef þið ímyndið ykkur að orkan ykkar sé eins og á, hún rennur niður, alltaf jafn straumhörð og við endann á ánni er pípa með nokkrum krönum. Hver krani táknar þau verkefni sem þið eruð að sinna. Þið eruð núna með skrúfað frá rosalega mörgum krönum í einu sem þýðir að bunan er ekki eins sterk og hún gæti verið.

Ég held að ef að þið skrúfið fyrir nokkra krana, þá náið þið að sinna færri verkefnum með enn meiri krafti, enn meiri orku og þarafleiðandi enn betur, þetta er jákvætt!". 

Og það er akkurat þetta sem við ætlum okkur að gera, skrúfa fyrir nokkra krana og beina orkunni okkar betur að færri verkefnum og sinna þeim enn betur!

Við munum áfram halda úti okkar miðlum svo ekki hætta að horfa enda erum við hvergi nærri hættar að skapa, elda, borða, tjútta, fíflast og gleðjast.. þetta er, kæru vinir, bara rétt að byrja!

Katla & María

Þess má geta að Unnur Magna Photography sá um að taka allar þessar fallegu og skemmtilegu myndir og við þökkum henni kærlega fyrir það! 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Katla  – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Snapchat

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!