Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Mamma og OK ævintýrið!

Þið sem að fylgist með okkur systrum á samfélagsmiðlum hafið líklega tekið eftir því að við systur erum svolítið að reyna að skipta þessu svona aðeins á milli okkar.

Það getur stundum verið heljarinnar bras að muna eftir öllum miðlum á sama tíma, til að reyna að ná til sem flestra enda eru jú samfélagsmiðlar ein besta leiðin fyrir lítil fyrirtæki eins og okkar að markaðssetja sig og koma sinni vöru, hugmyndum og framleiðslu á framfæri.

María sér því nú um Snapchat reikninginn okkar og ég sé um Instagram story, restinni reynum við svo að sinna svona einhvernvegin saman í bland og ofan í hver aðra, en þessi samvinna virkar bara alveg ótrúlega vel fyrir okkur!

Þið sem eruð nú að fylgjast með Instagram story (sem er svipað og Snapchat miðillinn) tókuð líklega eftir því þegar ég sagði frá því að mamma sendi mér hugmynd eins og hún á til að gera.

Þessi mynd var tekin af mömmu og pabba þegar við opnuðum Systur&Makar á Laugaveginum í febrúar 2015

OK var horfinn!

Þetta var ósköp saklaust sossum í byrjun en mamma mín, hún Fríða, er stórmerkileg uppspretta hugmynda og pælinga sem er magnað að fá að taka þátt í. Hún hringdi semsagt í mig stuttu eftir að fréttir bárust um að fyrsti íslenski jökullinn væri nú horfinn sökum loftslagsbreytinga og hvatti mig til að gera eitthvað til minningar um hann. 

"Katla, mér finnst að þú eigir að gera eitthvað til minningar um OK, og það verður að vera eitthvað sem hefur sama sem engin áhrif á umhverfið og landfyllingu.. eitthvað sem þú gerir úr afgöngum, eitthvað sem er hlýtt.. Katla, geturðu ekki gert eitthvað úr öllum þessum afgangs efnisbútum sem falla til??!"

Ég var alveg á milljón að reyna að sníða það sem vantaði inn í verslunina en jú, þetta var náttúrulega bara algjör snilld! Að nýta búta finnst mér ótrúlega skemmtilegt að gera þó það sé (excuse my french) "tímafrekt djöfulsins bras", og manni líður líka vel svona í hjartanu að nýta eins og hægt er.. svo ég lagði hausinn í bleyti...

Mér þótti líka sniðugt að þetta ætti að vera eitthvað hlýtt, "hlýnun jarðar og jökull" það var eiginlega ekkert annað sem kom til greina, svo eftir svolitlar tilraunir fram og aftur varð til einhverskonar bútahulsa eða hálskragi sem einnig er hægt að nota sem sjal með því að draga það aðeins niður á axlir. 

Með því að nýta bútana þá þýðir það jú að engir tveir "OK" eru eins, hver og einn er einstakur, alveg eins og jöklarnir sem fara nú hverfandi...

Hlýtt, praktískt og unnið úr efnisafskurðum og afgöngum!

Ég ákvað því að skella inn nokkrum myndum bara í flippi á Insta Story og spyrja áhorfendur um álit.. jeminn einasti og viðbrögðin!

Það hrúguðust inn spurningar um verð, tímasetningu, pantanir og ég veit ekki hvað og hvað og vissi eiginlega bara ekki hvað væri í gangi!

Eftir svolitla þróunarvinnu og bútasaum, stúss og pælingar með samþykki mömmu skellti ég saman 20 stk sem tók mig nokkra daga að sauma og fóðra og tókst að koma inn á netverslun í hálfgerðum flýti með frekar gráum og litlausum myndum af mér.. svo dreif ég mig í leigubíl í bæinn að fagna Menningarnótt!

Skemmst er frá því að segja að um 15 mínútum eftir að ég setti fyrstu 20 OK bútasjölin í sölu voru 6 stykki seldir!

Ég átti ekki orð!

Á mánudeginum eftir Menningarnótt voru allir 20 uppseldir!

Mömmu fannst þetta auðvitað algjört met og gjörsamlega frábært!!

Svo ég ákvað að búa til fleiri og setti inn 20 stk í viðbót sem fóru á um 3 klst.

Hvað var eiginlega að gerast?!

Þegar hér var komið við sögu sá ég það að ég var farin að ganga ansi vel á bútabirgðarnar og til að geta haldið áfram þurfti ég að kaupa inn svolítið af efni, en þó afgangs efni og búta úr íslenskri framleiðslu. Ég saumaði langt fram á nótt kvöld eftir kvöld til að anna eftirspurn og sinna pöntunum og aftur setti ég 30 stk inn og það sama gerðist, nema þeir hurfu á innan við klukkustund.

TAKK TAKK TAKK!!!

Ég hef aldrei lent í öðru eins, nema kannski þegar Vendingurinn var upp á sitt allra vinsælasta, en samt, þetta var algjörlega ótrúlegt: eitthvað alveg nýtt! Þetta hljómar eins og algjört mont og auðvitað er þetta það, en leyfið mér að útskýra:

Ég eyddi þónokkrum árum í nám, bæði hérlendis og erlendis og dreymdi um það að reka eigið fyrirtæki. Mig dreymdi um að vakna spennt til vinnu sem ég elska og vinna skapandi og krefjandi starf með frábæru samstarfsfólki sem ynni að sama markmiði: að njóta þess að sinna viðskiptavinum okkar eins vel og við gætum!

Eftir 11 ár í eigin rekstri , sem hefur gengið misvel auðvitað í allskonar rekstrarumhverfi og breyttu þjóðfélagi, get ég ekki annað en fagnað því að standa í báðar fætur með trausta samstarfsmenn og viðskiptavini sem taka hugmyndum og framleiðslunni okkar með jafn ótrúlegum viðbrögðum og þessum!

Það er meira en að segja það að ætla sér að geta lifað á eigin hugmyndum, enda virkar þetta aldrei bara þannig! Þetta væri ekki hægt án frábærs starfsfólks, kúnna, traustra vina og fjölskyldu.. og auðvitað væri þetta aldrei hægt án þónokkra snilldar hugmynda mömmu!

Þessi dýrmæta mynd var tekin þegar við systur fórum með mömmu í óvissuferð og hún endaði á því að vísa okkur veginn þegar við vorum orðnar áttavilltar því hún þekkir okkur betur en við sjálfar og vissi eiginlega alveg hvert ferðinni var heitið.... alveg ekta! 

Þess má geta að mamma á líka heiðurinn af flestum nöfnum á flíkunum mínum enda er hún gangandi orðabók og viskubrunnur!

Þetta blogg átti því bara að vera eitt risavaxið TAKK fyrir frábær viðbrögð við starfi Volcano Design hingað til og enn stærra TAKK til múttu, sem er mikill meistari og hinn eini sanni áhrifavaldur! :)

Ef þið viljið lesa aðeins meira um þessa elsku þá bendi ég á ótrúlega ljótt hrekkjabragð sem við systkynin gerðum mömmu og pabba.. ég veit ekki hvort þau séu enn búin að fyrirgefa okkur þetta, en shiiiii hvað við höfðum hræðilega gaman að þessu.. kvikindin!!!

Börnin þín eru kvikindi!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Katla  – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Snapchat

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!