Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
2.960 kr 3.700 kr
2.320 kr 2.900 kr

Bústaðurinn fyrir og eftir - borðstofan!

 

Þegar maður er með vott af athyglisbresti sem háir mér stundum alveg hroðalega þá er oft erfitt að muna eftir öllum verkefnunum sem eru framundan... og þeim sem búið var að plana, og þeim sem á eftir að klára, og þeim sem mig langar til að gera, og þeim sem ég verð að prufa osfrv!! 
Ég skal leyfa ykkur að skyggnast aðeins inn í kollinn minn í eitt augnablik.. 

Næst er að flytja í Síðumúlann, mig langar að græja prentstofu, við vorum að kaupa vefstólinn hennar ömmu og ég verð að læra á hann sem fyrst, ég á eftir að blogga um restina af Frakklandsferðinni.. guð var ég búin að klára allar bústaðarbreytingarnar, hey æi hvað það væri gaman að læra að marmorera, ég þarf endilega að blogga um svefnherbergið og klára það, þarf að sauma rúmteppi í það og púða, ég er búin að versla á veggina en eftir að hengja upp, ætti ég að setja gardínur, jii hvað það væri geggjað að gera pappír úr fífu, við þurfum endilega að halda matarboð bráðlega, svo eru æfingar með hljómsveitinni, þarf ég ekki að fara að klára jólagjöfina hennar Maríu frá því í fyrra, Katla, þú verður að fara að vera dugleg í zúmba núna, á morgun vakna ég og ætla bara að borða allt hollt.. ohh hvað mig langar í osta frá Búrinu núna, ji hvað það væri gaman að prufa að gera eitthvað spennó úr gömlum VHS spólum, ætti ég að plana eitthvað rómó deit fyrir Tótu, hey hugmynd að nýrri kápu, hey hugmynd að nýjum kjól, ú þetta er fallegt efni- pöntum það inn, ohh mig langar svo að gera eitthvað sniðugt úr öllum þessum afskurðum, hugmyndir að íbúðarbreytingum fyrir Ránsu vinkonu, póstaleikur nú er tíminn til að gera eitthvað epic, ullarpeysan sem ég byrjaði á fyrir 4 árum comon Katla!, gamlar hefðir mig langar að vinna eitthvað meira með það, ú spennandi uppskrift verð að prufa hana, ég verð nú að fara að halda áfram með þjóðbúninginn, ji við þurfum svo að plana flutningapartý, þurfum við ekki að græja eitthvað staffapartý bráðlega, nýjar vörur í búðina, allskonar hugmyndir, langar soldið...væri ekki spennó að.. verð að fara að... OG SVO FRAMVEGIS!!!

Það sem að lýsir þessu kannski best er þegar Tóta spyr mig í algjörri einlægni þegar ég tilkynni henni nýjustu hugmyndina mína...

"æi elskan mín.. fylgja þessu engir verkir..?!!!" 

 

Þetta er sumsé ástæðan fyrir því að hlutir gleymast stundum og ég þarf alveg ótrúlega mikinn svefn.. (nema þegar ég vakna á nóttunni afþví hausinn er að kafna úr nýrri hugmynd.. kræst!!!)
Það breytir því þó ekki að oftast,, já svona oftast alveg, næ ég að klára það sem ég ætlaði mér fyrr eða síðar... eins og td núna.. síðasti pósturinn á breytingarferlinu í bústaðnum.. beið ekki í nema ca ár.. en dömur mínar og herrar! HÉR KEMUR HANN!!!!
 

Borðstofan í bústaðnum.. fyrir eftir og allt þar á milli!!!

Yndislegi bústaðurinn okkar í Eilífsdalnum, ohh ég fæ alltaf soldið kítl í magann þegar ég hugsa til þess þegar við skrifuðum undir kaupin! Þvílíkur demantur!!

Þegar við tókum við honum var borðstofan svona: húsgögnin fylgdu með, borðið og stólarnir, hillurnar á veggjunum sem og fallegi borðstofuskápurinn sem þá var staðsettur á stofuveggnum.

 

Sjáið einnig á myndinni hér að ofan skápinn sem er í kringum ísskápinn, við lækkuðum hann til að tengja eldhúsið og borðstofuna betur saman og svo vildum við ekki vera með örbylgju.

 

Þessi dásemdarskápur fylgdi bústaðnum semsagt.. okkur grunar að hann hafi verið keyptur í Rúmfó á sínum tíma. Þar sem að hann var í sama furulitnum og restin af húsgögnunum fannst okkur tilvalið að dekkja hann aðeins og gefa honum töffaralegt "makeover".

Við vorum öll ákveðin í að halda okkur við hvíta litinn á öllu einhvernveginn eins og í búðinni. En þegar við byrjuðum að breyta og þegar ég fann þessa dásamlegu mynd á pinterest sáum við möguleika á nýju "looki".

Það var því ákveðið að dekkja skápinn og við byrjuðum á því að grunna hann með svörtum grunni úr Slippfélaginu. Það var algjör snilld get ég sagt ykkur, að grunna með svörtu fyrst þá glitti ekkert hvítt í gegn og kantarnir urðu enn fínni!

Svo lökkuðum við með hálfmatt silki áferð frá Slippfélaginu. Við hefðum þá viljað hafa lakkið aðeins mattara og myndum því næst gera þetta með eins möttu lakki og hægt væri að fá.

Ragga frænka var notuð óspart í stúss, lakk og málningarvinnu eins og margir aðrir vinir.. gott að eiga góða að skal ég ykkur segja elskurnar!!

Þá keyptum við áklæði á sessurnar í Vogue sem var það sama og við notuðum á sófann, brúnt leðurlíki sem virkar ponku sjúskað! Algjört æði og frekar mikið mjúkt- eiginlega eins og apaskinn sem okkur þykir mikill kostur!

Hillurnar í skápnum sem og borðplötuna bæsuðum við með uppáhalds bæsinu okkar: Sjosand fá Húsasmiðjunni. Ljósin fengum við svo í Ilvu og við erum ægilega ánægð með þau.

Eitt gott ráð í sambandi við ljós.. setjist endilega við borðið áður en þið festið hæðina.. ljósin þurfa að lýsa vel yfir borðið, vera staðsett fyrir ofan kollana að sjálfsögðu en samt ekki svo hátt að lýsingin skeri í augun!

Smáhlutina fengum við hér og þar. Við notuðum að svona mest frá okkur, sumsé eigin hönnun: þarna má td sjá Íslandsostabakkann, og tvo hitaplatta sem bíða bara slakir á borðinu þar til það þarf að nota þá. 

Ljósaseríuna í horninu fengum við í Bauhaus og hnöttin í Góða Hirðinum. Hann réði líka soldið litapallettunni í hillunni þar sem við pöruðum bláa stellið við hann. Okkur þykir voða fallegt að poppa smávegis upp með litum án þess að það sé þó of ýkt og þá er ráð að halda svipuðum litum á svipuðum svæðum. (í sömu hillunni, á sama borðinu, í sama rýminu..)

Það eru neflinlega svona litlir hlutir sem gefa rýmunum ró og njóta þess svo að vera með nokkur tómleg pláss inn á milli til að gefa hlutunum andrými.

Eins fengum við ofsalega fallegt stell í gegnum Skreytum Hús sölugrúppuna og þetta bláa fengum við gefins frá móðir mágkonu okkar (jebb við sogum að okkur allskonar svona!!)

Þessar myndir græjaði María systir, hún fann fallegar vatnslitamyndir af plöntum á netinu og prentaði á gamlar bókasíður.

Okkur finnst þessi uppsetning koma sérstaklega vel út!

Þeir eru einnig til í allskonar öðrum formum og það besta við þá er að þeim má skella í uppþvottavélina eða spúla af þeim með brennandi heitu vatni og þeir haggast ekki. Öfugt við korkinn sem með tímanum getur orðið ansi blettóttur.

Þetta eru stjakar sem Krista Design gerði fyrir einhverju síðan úr sandinum sem fellur til í vatnsskurðinum og steypu. Ægilega töffaralegir!

Hér má sjá fallega bláa stellið betur, svo yndislega "kitch" eitthvað!

Svo var borðstofan vígð með almennilegum mat, stellið allt á sínum stað og notalegheitin í sveitinni leyndu sér ekki!

Hér komu ostarnir úr Búrinu sterkir inn, (þessi fremsti til vinstri er Valhnetu og þar fyrir aftan glittir í Reyktan.. þeir eru TO DIE FOR!!) 

Carpaccio sem keypt er frosið úr Kjöthöllinni, dreyft á bakka og látið þiðna á smá tíma, svo "drisslar" maður góðri ólívu olíu yfir, smá balsamic ediki, svörtum pipar og grófu sjávarsalti. Skellið nokkrum capers yfir, ristuðum furuhnetum, hrúgu af rucola á miðjuna og svo stórar sneiðar af góðum parmesan! Já þetta er NAMMIGOTT og létt og eiginlega bara soldið hollt!!! (mm þarf að gera þetta aftur sem fyrst!)

Caprese salat: góðir rauðir tómatar, rucola eða annað salat, nokkur lauf af ferskri basiliku, olivuolía, balsamic edik, svartur pipar, salt og að lokum ferskur mosarella! Ef þú kemst yfir mosarella di Bufala þá skaltu splæsa í hann, hann er eins og smjör en samt er hann ostur en líka eins og þeyttur rjómi! Svo dásamlega ljúfur og yndislegur SLEF bara alla leið sko!! (Hann fæst stundum á ítalska veitingarstaðnum Piccolo! 

Þar til næst elsku lesendur!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!
Katla – Systur & Makar –
Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter... og nú á SNAPSHAT: "systurogmakar"!
Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!