Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Metnaðarfullur póstaleikur

 

Ég er svo heppin að þegar við Tóta byrjuðum saman, þarna fyrir þónokkrum árum, þá fylgdi henni stór og ómetanlegur vinkonuhópur sem kallar sig Kvenfélagið!

Það hefur víst aldrei verið séns að verða hluti af þessum hóp en á ótrúlegan hátt með mínum einstaka sjarma... (eða miklu veseni sem mér iðulega fylgir) fékk ég inngöngu! Við erum því 9 talsins núna og reynum að hittast reglulega. Þetta er eins og með aðra stóra vinkonuhópa, það er stundum hægara sagt en gert. Margar eru með börn og maka, sumar eiga heima á Þórshöfn á Langanesi og aðrar hér á Höfuðborgarsvæðinu, ein erlendis og önnur í Keflavík svo stundum krefst þetta heilmikils skipulags við að ná öllum saman á sama tíma.

Við reynum því að vera með fasta bústaðarferð einu sinni á ári þar sem aðeins kvenfélagsmeðlimir fá að fara í, já þá er trúnó og gourmet alla leið!

Svo förum við í útilegu um verslunarmannahelgina sem var nú í annað skipti haldin á Brúarlandi á bænum hennar Línu, rétt fyrir utan Þórshöfn. Þá taka makarnir þátt og börnin og þetta verður að heljarinnar útihátíð! 

(Þessi mynd var tekin í fyrra þegar allar 9 komust).

Nú þið munið kannski eftir pósti sem að ég skrifaði um ættarmót mitt og Tótu fyrir einhverju síðan. Það fjallaði um Karnival þema með tilheyrandi búningum og veseni.. 

Eins og ég segi, þema og vesen virðist oft fylgja mér...

Jæja, í fyrra notuðum við sumsé þónokkuð af leikjunum af ættarmótunum sem slógu svona rækilega í gegn hjá ungviðinu sem og keppnisóðu foreldrunum.. 

Það var því ekki spurning um að skátinn ég myndi skella í eitt stykki metnaðarfullan pósta og þrautaleik sem myndi taka allan daginn. Til þess að allir væru nú hluti af leiknum skipti ég hópnum einnig í lið og gaf öllum þema sem nokkuð einfalt væri að græja: Kúrekar, Indjánar, Sjóræningjar og Prinsessur!

Póstaleikur sem auðvelt er að aðlaga að sínum eigin..

Þetta tók mig í heildina ca 3-4 heila daga og var þónokkur vinna, en þar sem það er nú komið er ekki erfitt fyrir þig lesandi góður að aðlaga leikinn að þínum eigin. Ég gef því fullt leyfi til að nota þessar hugmyndir að vild og vonandi gagnast þetta einhverjum!

Nú til að fá einhverja heild og tilgang með leiknum ákvað ég að segja þeim sögu. Þarna fór kollurinn á mér á yfirsnúning og ímyndunaraflið tók völdin.. (Tóta segist vilja vita hvað gangi eiginlega á þarna inní hausnum á mér).. en sagan hefst allavega svona:

 

(Hér má sjá vélaskemmuna sem að við skreyttum og notuðum fyrir allar samkomur, hér byrjaði ævintýrið).

Kæru Prinsessur/Indjánar/Kúrekar/Sjóræningjar

(Sagan, sem var lesin upp af mér sem lék ævintýrameistarann!)

Á litlu skeri langt langt langt í burtu fyrir langa langa langa löngu var hópur KÚREKA, PRINSESSA, INDJÁNA og SJÓRÆNINGJA á ströngu ferðalagi. Þau höfðu ferðast um heiminn á litlu og frekar hrörlegu skipi í heilt ár og ráku loks á land á svartri sandfjöru. Landið könnuðust þau ekkert við og var allt öðruvísi en þau höfðu nokkurntíman séð áður! Þreytt og sársvöng ákváðu þau þó að halda ferð sinni áfram, enda dugnaðarforkar með eindæmum. Þau hófu leit að landsvæði til að festa niður rætur sínar. Einhversstaðar urðu þau jú að búa ekki satt?  

Í miklum kulda, roki og rigningu gengu þau nú um fjöll og firnindi, hlupu í gegnum djúpa dali, óðu kraftmiklar ár og réðust í gegnum risa stóran og drungalegan skóg þar til hann fór að þynnast. Landssvæðið hafði verið ansi grámyglulegt hingað til á ferðinni enda veðrið frekar ömurlegt.. en þegar trén opnuðust við jaðar skógarins sáu þau himininn opnast, sólina skína, fuglana syngja og þau horfðu yfir undurfagurt ævintýraland. Þau vissu það ekki þá, en seinna skírðu þau landið í sameiningu: BRÚARLAND!!!!

Hópurinn var nú ekki í fyrsta skipti á ferðalagi og vissu þau öll að þrátt fyrir óstjórnlega fegurð landsins gátu þar leynst óttarlegar hættur. Þau sáu líka fljótt að einhver hafði verið á ferli þarna á undan þeim. Það leit meira að segja út fyrir það að einhver hefði skilið eftir allskonar falin skilaboð og vísbendingar.. þetta hræddi hópinn svolítið en gerði ferðalagið einnig meira spennandi fyrir vikið!

Þau funduðu því öll saman og ákváðu að gáfulegast væri að skipta liði. Prinsessurnar fóru sína leið, Kúrekarnir sína, Sjóræningjarnir sína og Indjánarnir sína leið.

Alla grunaði að ferðin gæti orðið erfið, en í raun höfðu þau enga hugmynd um hvað framtíðin bæri í skauti sér! Hætturnar leynast neflinlega víða og sáu þau fljótt að mikilvægast yrði að vinna vel saman, sýna samstöðu, hjálpast að og nota kollana!

Ef að þið þorið.. megið þið nú opna fyrsta umslagið ykkar.. ég vona svo að ég sjái ykkur öll hér aftur eftir ferðalagið um ævintýralandið!

Hver hópur fékk svo hjálparkassa með fyrstu vísbendingu.

Hér flækjast málin fyrir þrautamanninn.. jú sjáið til, þetta voru 4 hópar og 12 póstar svo hver hópur fékk þar af leiðandi sitthvora vísbendinguna til að byrja á sitthvorum staðnum. 

Ég ætla að leyfa ykkur að fylgja einum hópi (Sjóræningjum) alla leið og set svo fyrstu vísbendingar hinna neðst í póstinn ef þið viljið nýta ykkur það til að fara eftir.

 

Kæru SJÓRÆNINGJAR (1. vísbending)

Hefst nú ferðalagið ykkar!

Stundum eru fullorðnu SJÓRÆNINGJARNIR betri í að leysa þrautina og stundum eru yngri SJÓRÆNINGJARNIR betri svo þið verðið að meta það á hverjum stað. Stundum þurfið þið líka öll að vinna saman og hjálpast að og þá er mikilvægt að leyfa hverju ljósi að skína, sína þolinmæði og þor. Þetta er ekki keppni í hraða, þetta snýst um að leysa hvert verkefni sem best þið getið, finna þannig næsta póst og halda ferðalaginu áfram.

Á leiðinni gætuð þið fundið spjöld með stöfum, safnið þeim saman og í lokin (ef ykkur tekst að leysa allar þrautirnar) komist þið að síðasta verkefni ferðalagsins.

Það verkefni á svo að gera í kvöld, eftir kvöldmatinn svo undirbúið það vel!

Innihald þessa umslags gæti einnig hjálpað ykkur á ferðalaginu ykkar í dag. Skoðið hlutina ykkar vel og vandlega og leggið þá á minnið, hver veit nema að þið þurfið þá til að leysa einhverjar þrautir...

Já og eitt enn, veljið ykkur sögumann, einhvern sem er góður að lesa langa texta upphátt, kannski væri einhver fullorðinn bestur í þessu. Sá hinn sami gerir ævintýraferðalagið hvað ævintýralegast ef sá hinn sami les textana svolítið ævintýralega upp! Badabing: af stað!

Hver er Dimbilmundur?

„Eins og þið heyrðuð áðan þá sagði ævintýrameistarinn ljúfi og fagri frá því að hér gætu einhverjir hafa leynst í ævintýralandinu áður. Júbb vinir mínir, það er hárrétt. Fyrir 500 árum bjó ég hér!

Ég er lítil vera, örlítið minni en þið minnstu í hópnum.. ég er ekki beint mannvera en ekki heldur álfur ég er eitthvað þarna mitt á milli. Fékk eiginlega ekki nafn því þetta var svona millibilsástand sem að varði ekki mjög lengi. Sko þið verðið að gera ykkur grein fyrir því að þetta er það langt síðan svo ég hitti inn í mitt þróunarferli álfa þar sem álfarnir voru að breytast í menn. Já og það er mikill misskilningur að menn hefðu orðið til af öpum, vitleysa skal ég ykkur segja, við byrjuðum öll sem álfar..

Ókei ókei, ég er semsagt þarna mitt á milli og ég frétti það frá spámanni nokkrum (þið heyrið af honum betur síðar) að hingað myndi hópur kúreka, prinsessa, sjóræningja og indjána reka á land. Ég er ekki beint fæddur í gær þó ég sé aðeins á mis við þróunina, og grunaði sumsé að þið mynduð þurfa örlitla hjálp! Ég ætla því að aðstoða ykkur við að kynnast og komast í gegnum þennan ævintýraheim í ævintýralandinu sem seinna þið munið kalla BRÚARLAND!.. já, og ég heiti Dimbilmundur og er talinn alveg sérstaklega unglegur náungi“.

...Ég man þá tíð þegar við létum fréttir berast á milli með bréfdúfum og skæruliðasniglum.. nú grunar mig að öldin sé önnur og bréfin berist nú með einhverjum óskiljanlegum hætti.. Ég gæti trúað því að næstu vísbendingu væri að finna hjá kassanum sem geymir bréfin með fréttunum“... (Þetta leiddi hópinn að póstkassanum).

Póstkassinn: 2. vísbending

"Ferðalagið um landssvæðið leiddi SJÓRÆNINGJANA að sérstaklega furðulegum kassa sem staðsettur var við veg nokkurn. Þau vissu ekki hvert vegurinn leiddi og voru bara aðeins og þreytt til að komast að því. Enda vakti það athygli þeirra hvað það var sem leyndist hjá þessum furðulega kassa. Þar var að finna eldgamalt blað með einhverju sem virtist vera leyniskrift.. hvernig eigum við eiginlega að leysa þetta?!!"

Þar beið þeirra blað með dulmáli (þetta er í raun skátadulmálið) sem þau þurftu að leysa með dulmálslyklinum sem þau fengu í hjálparkassanum.

Þar stendur: 

Trampolínið 3. vísbending.

"Vel gert hjá ykkur SJÓRÆNINGJAR að finna stóra og furðulega kringlótta hlutinn!

Við höfum reyndar ekki enn hugmynd um það til hvers þetta ferlíki er notað.. Við lékum okkur oft á þessu og hoppuðum og skoppuðum.. og ég man að það vel þegar þetta lenti hér í ævintýralandinu á ógnarhraða frá himninum!

Við vorum ofsalega hrædd við þetta fyrst og ég man að kassinn sem þetta var í glitraði og glampaði. Kassinn brotnaði í þúsund mola við lendinguna og stundum hjálpuðu molarnir okkar við ýmsa hluti!

..Ef þú finnur svona glansandi hlut gæti hann hjálpað þér við næstu vísbendingu.. Ég myndi taka einn hlut með mér.. ATHUGIÐ ÞÓ að aðeins þeir fullorðnu mega snerta glansandi hlutinn þar sem þeir eru mjög hættulegir!

Til að finna næstu staðsetningu þurfið þið nú að vinna saman, þið kunnið þetta.. púsli púsli púsl og leysið svo úr myndagátunni til að fatta hvar næsti póstur er falinn!

(Munið svo að rugla spjöldunum aftur í kassann fyrir næsta hóp)."

(Hér var ég einnig búin að fela 4 speglabrot í grasinu og hver hópur þurfti að taka með sér eitt til að leysa næstu þraut).

Símahúsið 4. vísbending.

„Í fyrsta skipti þegar ég sá mig sjálfan í framan þá leit ég í vatnið.. Á botni vatnsbólsins glitti í furðulega skrift.. ég skildi hana aldrei sjálfur en kannski eruð þið klárari og getið leyst úr þessari þraut..“

Hér þurftu þau sumsé að nota speglabrotið og halla því upp að skriftinni til að lesa:

Þar var að finna ljóð sem einnig var gáta:

Húsið það svífur og snertir ey jörð

sérstakt mjög þykir það reynast.

Undir gólfunum finna má svartan svörð

og smáhlutir þónokkrir leynast.

 

Ætli höfuðið bjargi mér háskanum frá,

hugsa og festa og muna.

Það reynir nú á, að muna alla þá.

Þetta er heljarinnar runa!

(Höfundur óþekktur og ekki mjög fær í ljóðlist greinilega...) ;)

 

Undir húsinu 5. vísbending.

Þetta var falið undir húsi sem er byggt á svolitlum stöplum svo maður kemst aðeins undir það og þar var að finna fullt af hlutum og næstu vísbendingu:

"Kæru SJÓRÆNINGJAR!

Ég trúi því varla að ykkur hafi tekist að lesa úr furðulegu skriftinni! Nú eins og mig grunar að standi í textanum þá tengist þetta eitthvað öllum þessum smáhlutum... Ég gæti líka trúað að með samvinnu og hjálp hvors annars með því að deila verkefnum á alla í hópnum takist ykkur að muna eftir öllu saman..

Eina leiðin til að fá næstu vísbendingu er að koma öllum mununum til ævintýrameistarans hógværa.. það er þó alveg bannað að færa hlutina úr stað.. hvernig farið þið nú ?

Ekki má skrifa.. niður á miða!

(Nohh, þarna kom ljóðlistin lúmska aftur sterk inn.. kannski nýr vettvangur fyrir ævintýrameistarann..? hvur veit?!)"

Verkefnið er sumsé að deila hlutunum á alla í hópnum svo allir þurftu að muna eitthvað: "hringur, klukka, lyklar" osfrv.. og koma með það til mín "ævintýrameistarans" sem lét þau fá næstu vísbendingu ef allt gekk upp! Þetta kallast Kims leikur og hefur alltaf verið vinsæll hjá skátunum.

Þrautabrautin 6. vísbending. 

"Hér reynir á samvinnu ykkar elsku SJÓRÆNINGJAR!

Á ferðalagi mínu um þetta dásemdarland hef ég komist að því að hér er oft að finna erfiða vegi sem að má alls ekki fara út af. Þar leynast hættur sem að erfitt er að sigra, eiturefnapollar, mannætublóm og fleira skemmtilegt en um leið stórhættulegt.. ég hef því sett upp svolitla æfingarbraut fyrir ykkur. Þessi braut mun hjálpa ykkur við að sigrast á landinu fagra sem þið eruð í.

Hér reynir með öllu á samvinnuna og vandvirknina! Passið líka að tala vel saman á meðan á þrautinni stendur! Þið getið prufað eins oft og þið þurfið, en ef þið „fjúkið“ út af brautinni þurfið þið að byrja aftur á byrjun..

Ljúkið brautinni listimannslega og ævintýrameistarinn lætur ykkur fá næsta umslag..."

Þetta er náttúrulega alveg ekta þegar maður er að hafa gaman, þá gleymir maður að taka mynd. :S

Nú þetta var frekar auðvelt, ég teipaði svolitla þrautabraut á gólfið með málningarlímbandi og svo áttu þau að hjálpast að við að koma borðtenniskúlu á leiðarenda, hér komu rörin úr hjálparkassanum sterk inn.

Leiðissteinninn 7. vísbending.

"Kæru SJÓRÆNINGJAR!
Til hamingju! Ykkur tókst að ljúka æfingarbrautinni!
Þið eruð greinilega ótrúlega dugleg að vinna saman og eigið mikið hrós skilið fyrir að hlusta svona vel á hvort annað og sýna þolinmæði!
Það var til dæmis einu sinni sem að ég var að rölta hérna um ævintýralandið, og ég var sko bara í mínu mesta sakleysi og hrasaði hreinlega um rjúpu sem var í felulitunum! Það var hásumar og hún faldi sig í móanum,, ég sá hana í alvörunni ekki!
„Rímskaði“ rjúpa, hann hét það sko var eitthvað að ríma og eiginlega kurra sem ég komst svo að síðar að héti að rjúpnarappa,  og hann var sko ekki góður í því! ..en þegar ég fór að hlusta vandlega á hann heyrði ég að hann var að segja kurra eitthvað um töfrastein... þetta vakti vissulega athygli mína og forvitnin tók yfirhöndina..
(Kæri sögumaður: nú væri ráð að fara með kurrið eins og Rjúpnaskaði myndi gera það,, sumsé rappa og eins og hann gerði það alltaf...: MEÐ INNLIFUN!)"
 
Töfrasteinninn stæltur og stór,
situr bakvið skemmu.
Álfadrottning klóraði klór,
passaðu að lenda ekki í klemmu!
 
Rist er í steininn: „Anna amma“,
hún liggur þó alls ekki þar.
Má þar nú finna myndramma,
með þraut álfadrottningar!

Eftir að fyrirliði hópsins hafði rappað ljóðið fyrir restina af hópnum (aðallega til að skemmta mér), fundu þau stein af leiði sem geymdur er bakvið skemmu með næstu vísbendingu og næstu þraut:

"Vel gert kæru SJÓRÆNINGJAR!

Þið funduð töfrasteininn! Þegar ég kom hér fyrst fyrir 500 árum síðan.. já það er þannig, 500 ár elsku vinir og það var umtalað alveg hvað ég leit vel út miðað við aldur (blikk blikk**).. já, allavega..

Þegar ég kom hér fyrst og var í einu af ferðalögunum mínum til að kynna mér landið, sem eins og þið vitið getur reynst ótrúlega hættulegt. Hitti ég álfadrottingu nokkra, (hún var til dæmis ein af þeim sem talaði um hversu vel ég leit út þrátt fyrir aldur..)

...allavega.. fyrstu kynni okkar voru ekkert sérstaklega góð. Hún Álfelmína, (hún hét það sko), var sannfærð um það að ég væri kominn hingað til að eyðileggja landið hennar, sem var algjörlega fáranlegt náttúrulega afþví það var ekki eins og hún ÆTTI eitthvað landið ein.. jæja hún lagði fyrir mig þraut sem hún hafði rist í þennan töfrastein. Þetta var völundarhús sem að ég varð að leysa og ef ég myndi leysa þrautina vitlaust og fara á rangan stað ætlaði hún Álfelmína að breyta mér í stein!.. ekkert mjög svo yndisleg hún Álfelmína álfadrottning svona við fyrstu kynni get sagt þér..

(elsku fullorðni sem að lest.. gott þetta nafn ÁLFELMÍNA ekki satt, mjög svo þjálgt..) mohoho ;)

..Nú eins og ég sagði þá eru 500 ár síðan, svo völundarhúsið er reyndar búið að mást af steininum, en þessi töfrapappír sem ég „ljósritaði“ völundarhúsið á hefur enst alveg ótrúlega vel í gegnum tíðina!(Bara svo þið vitið það þá grunar mig að Álfelmína leynist einhversstaðar þarna úti, svo ekki fara á vitlausan stað.. þetta með að breyta ykkur í stein muniði..)

Gangi ykkur vel og farið varlega á leiðinni á næsta póst!"

Bæjarskiltið 8. vísbending.

Eftir að hafa leyst þrautina komast þau að því að eina leiðin er að fara að bæjarskyltinu og þar bíður næsta vísbending og þraut:

"Magnesíus margfætla.
Það kemur mér alveg endalaust á óvart hvað ykkur tekst að leysa allar þrautir sem þið fáið, þið bara fljúgið hreinlega í gegnum þetta!
Ég held nú samt að þessi þraut verði ein sú allra flóknasta! Það var neflinlega þannig að þegar ég kom hér fyrst, þarna fyrir þessum 500 árum þá hitti ég hér margfætlu. Þetta er náttúrulega ævintýraland og svona svo ég og margfætlan urðum bara ágætustu vinir. Einn hængur var þó á.. Magnesíus margfætla gat ekki talað nógu hátt til að ég myndi heyra í honum, þegar hann ætlaði að segja eitthvað þá heyrði ég það ekkert, enda bara ponkulítil margfætla.., sem var ótrúlega pirrandi því „samtölin okkar“ voru rosalega hæg..
Já sko við gátum gert okkur skiljanlegan við hvorn annan, því við fundum okkur leið, það tók okkur bara alveg óratíma að tjá okkur en það gekk. Þetta virkaði sumsé þannig að ég talaði upphátt við hann og hann skreið um blað sem var fullt af stöfum og myndaði orðin með því að skríða yfir þau...
Magnesíus er löngu fluttur úr ævintýralandinu svo þið verðið að gjöra svo vel að finna út úr þessu sjálf..
Á blaðinu leynast nokkur orð, finnið þau, raðið þeim í rétta röð og þið munið finna næsta póst!
Í alvöru, gangi ykkur rosa vel með þetta, þetta er eitt það allra erfiðasta svo hjálpist að! Alveg væri það óskandi ef Magnesíus gæti hjálpað ykkur.. ,en þið vitið... sorry stína! ;)"

 

Eftir að hafa fundið orðin þá komast þau að því að næsta vísbending leynist hjá gömlum Bronco sem að er í garðinum bakvið hús og þangað heldur hópurinn.

Broncoinn 9. vísbending.

Töfralykillinn
Vel gert, þið funduð staðinn, en þið eruð langt frá því að vera búin að leysa þrautina skal ég ykkur segja!
Á þessum pósti gætuð þið þurft að nýta eitthvað af hlutunum sem að þið fenguð við upphaf ævintýraferðarinnar... Það leynist eitthvað hér sem er lykillinn að óskiljanlegri talnarunu..
Þið þurfið að nota kollana, vinna saman og fletta í gegnum heilana til að fá einhvern botn í þetta....
 
Farið þó varlega og passið „töfralykilinn“, þetta er viðkvæmur „gullmoli“ sem við viljum ekki að skemmist.. það gætu jú fleiri átt ferð um ævintýralandið síðar!

Nú það sem hóparnir fundu hér var vísbendingin og svo bókin.. íspinnarnir voru í hjálparboxinu allan tímann. Verkefnið var að fletta í bókinni, finna þar blaðsíðu, setningu og orð. Þegar þau voru búin að fletta öllu upp gátu þau lesið þetta:

Þarna sagði ég sögu.
Þar byrjaði ævintýrið.
Komið til baka aftur.
Að heimsækja mig.

Þetta vísaði hópnum á að hitta mig (ævintýrameistarann), til að fá næstu vísbendingu!

Falin skrift 10. vísbending.

"En hvað þetta er furðulegt... tómt blað og kerti..
ég er alveg viss um að það leynist eitthvað hér en hvernig get ég fundið út úr því?"

Verkefnið snýst um það að þau eiga að kveikja á kertinu með eldspítunum úr hjálparkassanum og hita svo upp blaðið aftan frá. Það þarf að gera þetta mjög varlega með mikilli þolinmæði og smátt og smátt birtist..:

Þetta er penslað á með sítrónusafa og svo þegar blaðið er hitað birtist textinn eins og fyrir töfra! Krökkunum (og öllum reyndar) fannst þetta algjört met.. þar til að það kviknaði í blöðunum útaf æsingi.. en það var allt í góðu, ég gerði eitt auka sem þau gátu öll lesið og leyst þrautina.

Þarna sumsé stendur að þau eigi að finna sér birkigreinar, eina á mann í nálægum garði (garðinum hjá Línu), þar héngu trjáklippur sem þau gátu notað til að sækja greinarnar og fara svo með þær í kartöflugarðinn.

Eldstæðið vísbending 11.

Hér hjá kartöflugörðunum biðu 4 einnota grill, grilldeig sem tengdamamma græjaði fyrir mig, olivuolía og krydd. Uppskriftina að deiginu fengum við hér:

(Myndin er einnig frá henni þar sem við steingleymdum að mynda þetta í öllum æsingnum.. en ég get sagt ykkur að þetta var ljúffengt!!!)

"Kæru SJÓRÆNINGJAR!

Verið öll velkomin á tignarlega eldstæðið mitt. Ef þið bara vissuð, þetta notaði ég í gegnum tíðina til að elda drekakjöt og sjóða mér slímsúpur úr slorslími. Ég las það í gamalli bók sem ég fann hér undir steini að slorslímsúpur væru hin allra meina bót þó þær væru ógeðslegar á bragðið, enda úr slorslími sem er frekar slorugt og ekkert mjög girnilegt!

Svekkjandi þegar ég komst svo að því síðar að þær gerðu nákvæmlega ekkert fyrir mann, þetta var hrekkjótt bragð frá dvergi nokkrum sem bjó hér undir kartöflugörðunum. Ha ha, voða fyndinn dvergur eitthvað, ég man að ég varð fárveikur einu sinni af þessarins bévítans slorslímssúpu!

Aaaaaallavega.. þið eruð nú komin hingað og langar mig svo að vita hvort að þið gætuð bjargað ykkur í óbyggðunum ef þið ættuð ekki eldavélar, örbylgjuofna og svolleiðis græjur. (ekki það að ég viti hvað það er enda 500 ár síðan ég var hér á ferli.., en mig grunar að eldunargræjur framtíðarinnar kallist þetta..) Skiptir ekki.. ég vil biðja ykkur að nota birkigreinarnar, takið ykkur svo deigið sem hefur verið að gerjast hér síðastliðin 500 ár og ætti því að vera orðið nokkuð klárt, vefjið því utan um greinarnar, penslið svolítilli olíu, kryddið og grillið!

Nú ég gæti kannski treyst ykkur fyrir því að vita hvenær þetta er tilbúið, en til þess að fá næstu vísbendingu verðið þið að færa ævintýrameistaranum smakk af best heppnuðu greininni.. Hann er með rosalega bragðlauka og ég veit að hann lætur ykkur ekki komast upp með neitt næstum því.. (gott ráð.. ég veit að ævintýrameistarinn myndi aldrei segja nei við örlitlu smjéri á brauðið.. bara svona vinsamleg ábending frá gömlum vini..)

Restina megið þið borða sjálf því þið þurfið svo sannarlega á orkunni að halda.. trúið mér!"

Verkefnið var að vefja svolitlu deigi utan um birkigreinarnar, grilla brauðið og færa ævintýrameistaranum með smá smjöri (sem leyndist í hjálparkassanum). Þetta var roooosalegt sport og krökkunum fannst þetta mjög gaman!

Þegar ævintýrameistarinn (ég) var búinn að smakka brauðið, fengu þau næstu vísbendingu.

Hangandi furðuhlutir í trjánum, vísbending 12. 

"Vel gert, þið hafið greinilega náð að sannfæra ævintýrameistarann um að þið gætuð algjörlega bjargað ykkur með grill í óbyggðunum, ég dáist að ykkur!
Nú er ferð ykkar aftur á móti heitið á svolitlar hættuslóðir. Það er neflinlega slóði hér nálægt verkstæðinu þar sem finna má hangandi furðuhluti.. Það var fyrir langa langa löngu sem að vél fór hér um garðinn, þessi vél nokkur var notuð til að setja niður rafmagn í jörðina. Þið vitið náttúrulega ekkert hvað það er enda rafmagn langt langt í framtíðinni er það ekki?
Sko ég frétti af þessu frá spámanni nokkrum sem hét Gráglúmur og var ægilega stór og drungalegur með eitthvað það alminnsta nef sem ég hef nokkurntíman séð! Passaði ekkert mjög vel við hann verð ég að segja, sá einhvernveginn fyrir mér að svona stór og drungalegur maður ætti að vera með stórt og drungalegt nef.. hann varð því bara frekar asnalegur með þetta stubbslega nef sitt.. já og það var appelsínurautt á litinn,.. fáááranlegt alveg!
Aaaaallavega, hann sagði mér semsagt frá því að langt í framtíðinni, löngu eftir minn tíma og löngu eftir ykkar tíma, já sko, ég semsagt frétti þetta þegar ég var búinn að vera hérna í hva, 506-507 ár, eitthvað svolleiðis, að þetta myndi gerast.. þetta er því að gerast í millitíma sem kemur sögunni sossum ekkert við en mér datt í hug að ykkur fyndist það kannski athyglisvert......
Já bíddu.. hvar var ég, jú vélin þessi sem setti niður þennan svokallaða „rafmagnsstreng“ skildi eftir sig slóða. Mér og okkur hér fannst þessi slóði svo asskoti hentugur að við nýttum hann til að stytta okkur leið.. nú vaxa þarna tré og eitthvað. Mig grunar að ef þið eruð glögg gætuð þið mögulega fundið næstu vísbendingu þar..."
Ég var búin að hengja þessa miða alla í réttri röð í trén og svo var verkefnið að leysa myndgátuna. Svarið var: "rjúpnaþúfan".
Þar leyndist svo síðasta vísbendingin sem vísaði Sjóræningjunum á póstkassann, sem var fyrsti pósturinn þeirra svo hér voru þeir búnir að klára!

Rjúpnaþúfan hans Rímskaða rjúpu!

Ég trúi því ekki hvað þið eruð eitthvað meðidda!!

Þið funduð rjúpnaþúfuna hans Rímskaða rjúpu. Hann bjó neflilega hér hann Rímskaði og hann hét Rímskaði vegna þess að hann skaðaði öll þau ljóð sem hann komst í tæri við.

Hann langaði svo ógurlega að vera sérstaklega fær að ríma en það var bara ekki eins einfalt og hann hélt! (Hann átti ekki roð í ævintýrameistarann til dæmis.. nei bara segi svona...)

Þið ættuð svo bara að heyra í honum þegar hann fór að syngja með ljóðunum sínum.. hann kallaði það að rappa.. sumsé „rjúpnarapp“.. Jeminn eini skal ég ykkur segja.. ég vona svo sannarlega að rapp framtíðarinnar verði skárra en kurrið í Rímskaða.. úff!

Allavega, þið viljið sjálfsagt halda ferð ykkar áfram ekki satt?

 Jú ...Ég man þá tíð þegar við létum fréttir berast á milli með bréfdúfum og skæruliðasniglum.. nú grunar mig að öldin sé önnur og bréfin berist nú með einhverjum óskiljanlegum hætti.. Ég gæti trúað því að næstu vísbendingu væri að finna hjá kassanum sem geymir bréfin með fréttunum“...

 Að lokum...

Nú þegar allir voru búnir að ljúka öllum póstum þá eins og þið kannski sáuð á nokkrum myndunum leyndust hvítir stafir með nokkrum vísbendingunum. Þetta var til þess að gera skemmtiatriði um kvöldið. Verkefnin voru misjöfn fyrir hvern hóp svo þetta var svolítið stafarugl sem allir þurftu að leysa:

Einn hópurinn átti að semja dans um Magnesíus og Dimbilmund. Einn hópurinn átti að sýna leikrit um Dimbilmund og dverginn. Einn hópurinn átti að syngja um Dimbilmund og Álfelmínu og einn hópurinn átti að rappa um Dimbilmund og Gráglúm.

Kvöldið endaði sumsé í kvöldvöku þar sem allir tóku þátt!

Hér má svo sjá fyrstu vísbendingarnar hjá hinum hópunum:

Kæru Prinsessur (Þær byrjuðu í þrautabrautinni).

(Það fengu allir fyrsta hlutann á sögunni um Dimbilmund og svo þetta:)

 „Fyrsta verkefnið ykkar er að finna akkurat hér, þið þurfið þó að vera afar lúmsk og bíða þar til allir hinir eru farnir burt.. þá væri ráð að leita til ævintýrameistarans og mig grunar að hann geti aðstoðað ykkur við næstu skref...“

Kæru Kúrekar! (Þeir byrjuðu í broncoinum).

 „Það er nú eiginlega svolítla sögu að segja af fyrsta póstinum ykkar. Hann afi minn var neflilega enginn rugludallur, en hann var aftur á móti álfur, alveg ekta álfur með álfaeyru og svona ævintýralegur eins og maður þekkir álfa. Auðvitað var hann álfur, nokkrum tugum á undan mér í þróuninni muniði.. Hann var líka ótrúlega sniðugur gaur og handlaginn mjög!

Það var semsagt einu sinni sem að hann þurfti að komast til næsta lands, þangað sem vegurinn vísar þarna..(æi við nennum ekki að fara út í það, enda sjúklega löng saga), en til þess að komast þangað þurfti hann einhverskonar faratæki..

Hvað gerði afi álfur?!!!- jú meistarinn smíðaði sér ferðavagn.. ég held að þið kallið þetta tæki „bíl“ í dag.. þetta var svakalegt tæki sko, fór óóótrúlega hratt miðað við olíuna sem við notuðum á það, (unnin úr fíflamjólk, alveg geggjað mikið vesen sko fyrir hvern dropa).. en ferðavagninn fékk meira að segja sitt eigið nafn og var skírður: „Blossi“!!!...

Kæru Indjánar! (Þeir byrjuðu hjá rjúpnaþúfunni).

Til að finna fyrstu vísbendinguna þurfið þið að leysa þessa gátu:

 

Í snjónum sitja þær

saman tvær.

Hvítar, penar og loðnar,

bestar eru þær soðnar.

 

Er hlýnar í veðri

verða þær knúnar.

Til að breyta um lit

og enda þá brúnar

 

Það er hér mjög nærri

svolítil þúfa.

Skírð eftir stöllunum,

ekki‘er þetta dúfa?

 

Haldið nú þangað

saman svo öll.

Læðist nú létt

og veriði snjöll.

 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter... og nú á SNAPSHAT: "systurogmakar"!

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!