Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Hús, kofi, kamar höll !!

Við hjónin eigum það sameiginlegt að við getum dottið hratt í gír ef við dettum í hann á annað borð og það kemur stundum fyrir að við missum okkur í smá tilfæringum á heimilinu. Máni og Nói synir okkar hafa hingað til deilt herbergi á efri hæð hússins og hæðin hefur aldrei fyllilega verið kláruð enda fyrirhugaðar breytingar á teikniborðinu. Okkur langar að skipta um efri hæð eins og hún leggur sig í komandi framtíð. Hvenær sem sá draumur verður að veruleika er þó annar handleggur. Við erum búin að teygja lopann ansi lengi og drengirnir nú orðnir fullvaxta menn, annar um 18 ára og hinn að nálgast 15 ára aldurinn, höfðinu hærri en móðirin og kominn tími á að þeir myndu sofa í sitthvoru rýminu. Ég mæli samt með að aðskilja svefnrými og tölvur og sjónvarp eins lengi og kostur er og náðum við að gera það framan af. Þeir sváfu saman í herbergi og tölvur og græjur voru frammi í alrýminu. Nú hins vegar ákváðum við að færa eldri drenginn fram og láta hinn yngri erfa rúm þess eldri.

Svefnsófinn frá tengdó!

Upphaflega átti bara að koma fyrir svefnsófa sem okkur var gefinn og ætluðum við bara rétt að hliðra til og gera fínt. Það vatt þó aðeins upp á sig og áður en varði var búið að rífa af gólfinu 12 ára gamalt filtteppi ( sem var alltaf bráðabirgða) og tæma efri hæðina. Þá komu í ljós ýmis óhreinindi, naglagöt og fleira svo við ákváðum að skella einni umferð að málningu á hæðina , já svona si sona. Brunað var í Bauhaus, Ikea og legið yfir Pinterest og að 2 dögum liðnum, já náði varla í 3 daga þá var búið að koma drengjunum fyrir og allir hæstánægðir og dauðuppgefnir. Hér á eftir vil ég sýna ykkur nokkrar myndir frá framkvæmdunum.

Það var orðið ansi fast teppið á gólfinu en á þessari hæð er búið að bralla ýmislegt, hún hefur verið notuð sem ljósmyndstúdíó, hjólaverkstæði, skrifstofa og geymsla. Undir súðinni er t.d. allt jólaskrautið geymt.

Skakkt og skælt !

Í húsinu eru ansi margar hæðarskekkjur og þakið kolvitlaust svo framtíðarhugmyndin er að skipta um efri hæð og byggja einhalla hæð með góðu útsýni yfir sjóinn. Þangað til látum við hæðina ganga eins og hún er í dag enda orðin agalega fín og hugguleg fyrir synina.

   

Það er algjör snilld að skoða Pinterest og kíkja í IKEA til að fá hugmyndir að samsetningu lita og húsgagna og fann ég margar stórsniðugar lausnir þar.

Dökkt getur passað vel í lítil rými !

Okkur datt strax báðum í hug að mála herbergið í dökkum tón og hafa gólefnið að sama skapi grátt. Aðalástæðan er að sú að synirnir vinna báðir í járnsmíði og það sést á öllu sem þeir snerta. Eins er loftið stórt og höfðum það hvítt svo við höfðum ekki áhyggjur af því að það yrði of dimmt. Svo eru drengirnir yfirleitt heima við á kvöldin með sjónvarp eða tölvu í gangi svo birtan var ekki aðalatriðið.

Við keyptum litinn í Bauhaus enda búið að loka annarsstaðar, já ofvirka vildi klára þetta strax og gat ekki beðið þar til eftir helgi. Feðgarnir voru því í Bauhaus í málningar og teppakaupum á meðan móðirin strunsaði um IKEA og fann til það sem vantaði. 

 

Algjör snilld er að renna yfir Pinterest þegar farið er út í breytingar og oftast koma bestu hugmyndirnar eftir gott netsurf. Liturinn kallast X6 RN.01.38 og er frá Sadolin.

Hann kom skemmtilega á óvart enda valinn í gegnum síma okkar hjóna sem sendu fram og til baka myndir af ljósum, litum, teppum og gardínum á mettíma.

Við náðum að mála loft og veggi fyrsta daginn og lakka glugga og gluggakistur, já nokkuð vel af sér vikið enda vinnum við eins og vél þegar við dettum í framkvæmdagírinn. Eftir 22 ára hjónaband erum við búin að læra á hvort annað og kunnum að lúffa þegar við á ;) 

Við ákváðum að mála ofnana í sama lit og veggi til að minnka vægi ofnanna og það kom stórvel út. 

Fyrsta og síðasta sektin !

Teppið fór svo á gólfið og þá fyrst kom mynd á risið. Ég fann til allskonar hluti sem voru sumir í geymslu og náði að skreyta dálítið rýmið þrátt fyrir mótmæli sonarins sem fannst allt slíkt óþarfi. Það kom þó skemmtilega út að hengja upp hraðasektir sem hann hefur náð sér í, þá fyrstu og vonandi þá síðustu en þær prýða nú einn kvistvegginn.

Eins gat ég nýtt nokkra hluti úr versluninni okkar og hér má sjá spegil og ramma frá Nkuku sem kemur skemmtilega út á dökkum veggnum. 

Synirnir ákváðu að það þyrfti nú að græja almennilegt tölvuborð í nýja herbergið og náðu þeir að sjóða saman grind undir tölvuna, og súlur fyrir hátalarana á fáránlega stuttum tíma á meðan foreldrarnir stukku í IKEA og sóttu sófaborð og borðplötu í stíl. 

Við ákváðum að velja fallega viðarlita hluti til að vega upp á móti dökka litnum og svörtum græjum og kom þetta vel út. Pottaplöntur, gervikaktusar og ein og ein mynd fengu að fljóta með og ýmsir smáhlutir sem annars voru geymdir inni í skápum. 

Þegar allt var komið á sinn stað þá fannst mömmunni vanta smá upp á lýsinguna svo hún skaust í Costco og keypti eina svarta útiseríu sem skiptir litum ef maður vill. Hún var hengd upp í rjáfur og var mömmunni slétt sama hvort barnið ræki hausinn í snúruna, ljósið yrði að vera :) Mottan var fengin í Rúmfatalagernum, rúmteppi í IKEA og púðaver og sófaborðið einnig úr IKEA. 

Ég vona að það sé hægt að fá einhverjar hugmyndir hér úr þessum pósti en það er nákvæmlega það sem er svo skemmtilegt við breytingar að geta deilt þeim með ykkur. Markmiðið var að gera herbergið hlýlegt en þó ekki of mikið af krúsídúllum. Það er 18 ára vélfræðingur verðandi sem býr hér og allt óþarfa prjál er ekki í boði :) 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

María Krista – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!