Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Dásamlegur sólarhringur, steinsnar frá borginni.

Sæl öll, nú er búið að vera mikið brallað hjá okkur systrum og lítill tími búinn að gefast í bloggfærslur. Síðumúlahátíðin tók sinn tíma hjá okkur og tókst hún með ágætum en efnt var til ratleiks í verslunum götunnar þann 9. september.

Listamenn spiluðu tónlist og verslanir buðu upp á skemmtun og veitingar af ýmsu tagi.

Næstu viku á eftir eyddi ég, nýorðin amman, í Kaupmannahöfn að knúsa splunkunýtt barnabarnið og átti þar dásamlega 9 daga í faðmi nýbökuðu foreldranna. Litla daman er yndisleg og var hún mynduð fram og til baka af ömmunni svo hún gæti haft eitthvað til að horfa á þegar heim væri komið. 

Grindavík ó Grindavík !!

En bloggfærslan okkar fjallar í þetta sinn um ferð okkar systra til Grindavíkur fyrir stuttu. Við höfum nú þegar farið í þrjár bredduferðir til þessa og nú datt okkur í hug að kíkja til Grindavíkur. Ég hef alltaf viljað prófa að borða hjá Höllu sem rekur dásamlegan veitingastað þar í bæ og það var kveikjan af því að renna suður  með sjó og skoða þennan fallega bæ sem vill oft gleymast enda ekki þessi týpíski "drive through" bær. 

Við systur fengum í kjölfarið ótrúlega skemmtilegt boð sem við gátum að sjálfsögðu ekki sagt nei við en það var að prófa að "fljóta" í flothylkinu hjá honum Friðrik sem rekur hótelið Northern Light Inn ásamt systur sinni. En nánar um það síðar.

Dagurinn rann upp sólríkur og fagur eins og er orðin hálfgerð hefð þegar við systur brunum í bredduferð, ótrúlegt alveg. Katla mætti á bláa strumpnum og við brunuðum sem leið lá, nánast alla leið út á flugvöll því sumir gleymdu að beygja. 

Þegar til Grindavíkur var komið snerist allt um að finna sér eitthvað ætilegt og fyrst stopp var hjá Hérastubb bakara en þeir selja víst besta pítubrauð í heimi, það fengum við í skilaboðum á snappinu og keyptum því að sjálfsögðu nokkur til að fara með heim. 

Eftir ljúffengt bakkelsi sem við neyttum á tjaldstæði þeirra grindvíkinga, alveg ótrúlega skemmtilegt og snyrtilegt tjaldsvæði sko, þá keyrðum við um bæinn og rákumst einmitt á draugalega húsið sem notað var í tökum á myndinni Ég man þig !! Ferlega krípí og skemmtilegt að sjá þetta svona "live". Fengum þessa mynd senda og okkur dauðbrá því okkur fannst þetta hús fyrst tilvalið sem kaffihús með smá lagfæringu. EN NEI TAKK ! 

Hollustan hjá Höllu!

Næst var ferðinni haldið til Höllu, já veit nýbúnar að borða rúnstykki, en eftir rúnt um bæinn sem er ekki það stór þá var kominn tími á lunch. Fórum reyndar í klifurgrindina fyrst til að ná upp matarlyst með misgóðum árangri. 

Halla er yndisleg manneskja og það úsar alveg í gegn á staðnum hennar, starfsfólkið er fagmannlegt og notalegt og það var fullt út úr húsi enda maturinn frábær.

Við gátum ekki valið úr svo við fengum okkur samloku og kjúklingarétt til að deila og úff hvítlauksbrauðið með fetaostinum, hættið nú alveg. Halla spjallaði heilmikið við okkur og sagði okkur frá því hvernig hún byrjaði hreinlega bara heima í eldhúsi enda heitir staðurinn "Hjá Höllu" en síðustu árin er hún búin að flytja sig um stað tvisvar og nú komin í varanlegt húsnæði að Víkurbraut 62.  

Hún sérhæfir sig í hollri matargerð og eru matarpakkarnir hennar sívinsælir og skipta hundruðum á degi hverjum. Einnig þjónustar hún fjölmörg fyrirtæki svo það er óhætt að segja að eldhúsævintýrið sé búið að vinda töluvert upp á sig. Takk fyrir okkur Halla þetta var æðislegt. 

Þorbjörn ? Ekkert mál .....

Þegar við vorum búnar að stútfylla mallana þá benti elsku Halla okkur á að við gætum nú alveg skottast upp á Þorbjörn, "Esju" þeirra grindvíkinga en það væri vinsælasta heilsuræktin í bænum. Þetta tæki kannski 15 mín. Jú jú við horfðum á hólinn og fannst þetta nú lítið mál. Brunuðum upp að rótum fjallsins og skunduðum af stað ásamt öllum hinum sem voru töluvert betur skóaðir. Þetta var nú alveg drulluerfitt en upp fórum við á þrjóskunni með blóðbragði í munninum en hrikalega stoltar af afrekinu. 

Þegar niður var komið lá leiðin til hennar Toggu en hún er mikil handverkskona sem við kynntumst fyrst á Handverkshátíðinni í Eyjafarðarsveit en síðar lágu leiðir okkar saman í gegnum Villikattastarfið. Hún er alveg yndisleg heim að sækja og var búin að dekka borð fyrir okkur enda við varla búnar að borða neitt vott né þurrt haha. 

Heimatilbúnar skinku og aspasrúllur, nýbakað hrökkbrauð og pestó.. nommm.

Orkerar af hjartans lyst !

En að handverkinu hennar Toggu, hún er sérfræðingur í að orkera en það er ákveðin hnútaaðferð og framleiðir hún bæði hálsmen, armbönd og lokka með þessari þolinmæðisvinnu. Hún gerir einnig dásamlegar hálsfestar og armbönd og mæli ég með að þið kíkið á heimasíðuna hennar hér.

Eftir umræður um hönnun og villiketti hjá henni yndislegu Toggu þurftum við að drífa okkur á næsta áfangastað en við vorum búnar að mæla okkur mót við stelpurnar hjá hönnunarteyminu VIGT. Vigt samanstendur af þremur systrum og móður þeirra en það sem þær eru að bardúsa er hreint frábært. Þær framleiða vörurnar sjálfar, smíða og lakka allt á verkstæðinu sínu og er handbragðið alveg upp á tíu. Mamman saumar púðaver og jólatrésfætur og eru vörurnar hver annarri fegurri.

Þekktar fyrir fallegt handverk.

Þær eru þekktastar fyrir bakkana sína og ljósmyndaboxin en svo eru þær búnar að bæta við borðstofuborði sem er listasmíð, hillum og mörgu fleira. Þær bjóða einnig upp á kerti sem þær flytja inn og við systur vorum gjörsamlega heillaðar af dugnaðinum en þær starfa allar fulla vinnu meðfram þessu "hobbýi" sínu. VIGT er staðsett í húsi gömlu hafnarvigtarinnar í Grindavík og er búið að gera húsið fallega upp og má þess geta að Halla kokkur leigði hluta af húsinu á sínum tíma undir matarpakkaframleiðsluna sína. Nú nota stelpurnar húsið sem vinnustofu, sýningarsal og ljósmyndastúdíó, sniðugar.

Við þökkum þeim mægðum fyrir skemmtilega heimsókn og óskum þeim velgengni í framtíðinni. 

Bryggjan, bús, Lee og list...

Næstu skref lágu í vínbúðina, Katla nældi sér í gallabuxur í leiðinni og aftur var brunað niður í bæ eða alla leið út á hafnarsvæðið að hitta næsta viðmælanda. Við urðum þó aðeins að stoppa fyrst á Bryggjunni kaffihúsi sem er víst frægt fyrir humarsúpuna sína og fengum við auðvitað að smakka smá. Þetta er stórskemmtilegt kaffihús og minnti okkur á Kaffivagninn í Reykjavík. Stemmningin þarna inni var notaleg og afgreiðslan frábær.

Listin að vera til..

Nú var planið að hitta hana Helgu listmálara en hún er með vinnuaðstöðu í iðnaðarhverfinu. Helga er algjör listamaður og dýravinur en við kynntumst líka í gegnum félagið Villiketti. Hún, hundurinn Rómeó og villikötturinn Nebbalína eyða dögunum saman á verkstæðinu í listsköpun sinni en Helga rekur ásamt fleiri listamönnum galleríið Art Gallery 101 á Laugaveginum. Hægt er að skoða verkin hennar Höllu á facebooksíðunni hennar ArtHelga og mæli ég með því að kíkja því hún er algjör snillingur. 

Við fengum mikið út úr því að skoða vinnustofuna hennar og ekki laust við að listagyðja okkar systra hafi vaknað úr dvala, þá meina ég svona mála, lita teikna gyðjan :)

Flot og notalegheit sem toppuðu daginn!

Nú var hins vegar komið að stóra málinu, ég talaði hér í upphafi að við fengum upphringingu frá honum Friðrik sem rekur hótelið Northern Light Inn ásamt systur sinni. Hann vildi bjóða okkur að fljóta í flotklefanum sem hann var að koma upp á spasvæðinu, já það er sko spasvæði á hótelinu, með gufuböðum, afslöppunarherbergi og kósýheitum. Geggjað !!!

Við systur erum nú þekktar fyrir að vera til í nánast allt og jú slógum til. Erfiðast fannst okkur kannski að þurfa að þegja í heilan klukkutíma og vera aðskildar á meðan flotinu stæði en það er hugsað fyrir eina manneskju í einu enda tilgangurinn að sóna pínu út og slaka á !!!! Við renndum upp að hótelinu eftir að hafa villst aðeins úr leið en þegar komið var að hótelinu sem er ótrúlega fallegt og hlýlegt þá vorum við komnar í bómullina.

Friðrik er þvílíkur höfðingi heim að sækja og okkur leið eins og prinsessum allan tímann. Fengum að gista í glænýrri svítu með útsýni beint út í hraunfegurðina og við vorum sammála um að við hefðum sjaldan gist í eins flottu og smekklega hönnuðu herbergi. Rúmið var risastórt og notalegt, baðherbergið fáránlega rúmgott og þarna var allt til alls. Mæli svo sannarlega með að kíkja á þetta hótel ef þið viljið eiga notalega nótt eða helgi með ykkar heittelskaða og það aðeins steinsnar frá borginni. 

Við ákváðum að gáfulegra væri nú að snæða kvöldverð áður en við færum ofan í flotið því annars væri búið að loka eldhúsinu og ekki ætluðum við að láta snuða okkur um mat, o nei.

Max's restaurant sem er skírður eftir hundi systur hans Friðriks er staðsettur í björtum sal hótelsins með útsýni yfir hraunið og Bláa lónið sem er í seilingarfjarlægð við hótelið. Maturinn var á mjög viðráðanlegu verði og sérlega einfaldur og bragðgóður. Grill mix og kartöflur með geggjuðum sósum.

 

Þetta var alveg til að toppa daginn og við lölluðum saddar og sælar í næsta ævintýri, FLOT !!!

Flothylkið góða er með hálfu tonni af epson salti og magnesíum og því er hægt að láta sig fljóta mjög auðveldlega í vatninu. Hylkinu er lokað eftir að viðkomandi rennir sér ofan í 37 gráðu heitt vatnið og það er nánast eins og maður svífi, hvorki heitt né kalt og tilfinningin er alveg sérstök. Þegar hylkinu er lokað er maður nánast eins og kominn aftur í móðurkvið hehe ef hægt er að lýsa þessu á skiljanlegan hátt. Við notuðum eyrnatappa til að útiloka öll hljóð og notaleg tónlist er spiluð fyrstu 10 mínúturnar á meðan maður nær að slaka alveg á. Eftir það er þögn í 45 mín og síðustu 5 mínúturnar byrjaði tónlistin aftur að spila svona til að "vekja" mann. Þetta var alveg magnað og við getum alveg mælt með því að panta tíma í floti til að endurstilla kroppinn. Hægt er að kaupa sér staka tíma og einnig hægt að kaupa sér kort í nokkur skipti til að fá sem mest út úr upplifuninni. Þú þarft ekki að vera gestur á hótelinu til að fara í stakan tíma í flotið því það er sturtuaðstaða inni í herberginu og allt til alls.

http://www.nli.is/float

Ef gist er á hótelinu er hægt að nýta sér alla spa aðstöðuna sem er algjör snilld því þá getur makinn eða vinurinn/vinkonan slakað á í gufunni á meðan. 

Hér er hægt að slaka á í dásamlega fallegu herbergi við lækjarnið.

Eftir flotið settumst við algjörlega úrvinda við arnield og spjölluðum við ameríkana sem voru nýkomin á hótelið um lífið og tilveruna, með rauðvínsdreitil í glasi. Þvílíkt sem þetta var fullkominn endir á deginum.

Við systur áttum þarna dásamlega stund og allur dagurinn var fullkominn í alla staði. Við mælum svo sannarlega með því að skjótast til Grindavíkur í dagsferð, það er hellingur að skoða þar og tala nú ekki um gönguleiðina upp á Þorbjörn. Veitingastaðir og kaffihús út um allt og bæði hægt að gista á fallegum hótelum eða hreinlega á tjaldstæðinu sem er ótrúlega fallega hannað. Kíkið næst á Grindavík sem kost. 

Takk fyrir samfylgdina elsku bloggvinir og eigið notalegan sunnudag.

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

María Krista – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!