Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.330 kr 3.700 kr
2.610 kr 2.900 kr

Bústaðurinn fyrir og eftir - eldhúsið

Eldhús og baðherbergi eru iðulega dýrustu rými hússins til að taka í gegn. Það var líka það sem við vorum hræddust við í bústaðarbreytingunum öllum. 

Baðherbergið kostaði nú ekki mikið og má td lesa um sniðugu lausnirnar þar, hér:

Eldhúsinnréttingin sem mætti okkur var neflinlega svolítið húðlituð, ekki beint gul né grá heldur þar á milli, já eiginlega bara alveg húðlituð. Við komumst þó að því að sá litur var í raun ýktari í furulitnum í umhverfinu.

Það var því ávallt planið að finna nýjar hurðar á innréttinguna eða sprauta þær sem fyrir voru. Einnig vildum við létta aðeins á henni með því að fjarlægja efri skápana. Geymsluplássið var jú vissulega frábært og tel ég efri skápa oft vera nauðsynlega, sérstaklega í heimahúsum. Það þarf einhversstaðar að koma fyrir öllum þurrmatnum, heimilisgræjunum, dollunum, glösunum, dunkunum, bökunarformum æi þið vitið, þetta er endalaust...

En svona í sumarbústað tel ég að hægt sé að "de-clutter" eða minnka "draslið" töluvert. Maður þarf ekki að eiga ógrynni af Tupperware dollum til að geyma mat í sumarbústað, þar á að borða allan matinn ekki satt? ;)

Annað markmið hjá okkur var að lýsa eldhúsið svolítið upp, við vildum bæta við vinnuljósi, annarri opinni hillu á móti, fjarlægja skúffueininguna sem tók pláss í litla svefnherberginu og opna betur gluggann. Eins og gardínurnar sem fylgdu bústaðnum voru sjúklega sætar þá viðurkennum við það fúslega að þvottar og strau í ofanálag við rúmfötin er ekki beint að henta í bústað sem átti m.a. að leigja. Útsýnið fyrir utan eldhúsgluggann er líka svo fallegt að það var ákveðið að þær fengju því ekki að fara upp aftur.

Að öðru leiti hefðum við ekki getað verið heppnari með innréttingu, plássið gott, skipulagið frábært og ísskápurinn, eldavélin og uppþvottavélin í topp standi. Við vorum öll sammála um það að önnur eins þrif og viðhald á eldunargræjum hefðum við aldrei orðið vitni af. Það að uppþvottavélin ilmar enn af rakspýra þegar hún er búin að þvo er eitthvað sem að er staðreynd og toppar allt!

Innréttingin utanum ísskápinn og þessi hækkun á innréttingum með örbylgjuofninum var eitthvað sem við vildum einnig létta á.

Við tókum örbylgjuna út og teljum okkur ekki hafa þörf fyrir hana í bústaðnum, það hefur ekki truflað okkur hingað til. Við þetta gátum við lækkað ísskápabygginguna í sömu hæð og opnu hillurnar sem nú eru í stað efri skápanna. Þetta gaf eldhúsinu hreinni og afmarkaðri línu sem við erum ofsalega ánægð með.

Hér má sjá breytingarnar á innréttingunni og sjáið bara, skáparnir eru alls ekki svo húðlitaðir lengur í gráu og ljósu umhverfinu. Við hættum því við frekari breytingar og eru svona líka ánægð með skápana eins og þeir voru!

Ódýrar IKEA höldurnar koma einnig frábærlega vel út. Við nýttum svo höldurnar sem voru fyrir, á fataskápana í svefnherberginu hjá Maríu og Berki en ljósið sem var í eldhúsinu áður nýttist einnig þar.

Hér má td sjá hvar þær enduðu, svefherbergi 1.

Svona aðeins til að segja ykkur frá ferlinu...

Við byrjuðum á því að mála loftið með Sperregrunni úr Slippfélaginu og grunnuðum einnig veggina með sama grunni. Þessi mynd hér að ofan sýnir spennuna við að sjá gráa litinn "Þoku" í rýminu í algjörri hnotskurn. Við grunnuðum hér hluta af veggnum, leyfðum honum aðeins að þorna, máluðum svo með gráu og smelltum mynd, það MÁTTI bara ekki bíða lengur! hahaha, "memories" :) 

"Já, sko, nei við mælum ekki með þessari aðferð, en þegar menn eru að "díla" við eins óþolinmóða einstaklinga og okkur þá eru svona vinnubrögð stundum nauðsynleg..."

Við nýttum okkur auðvitað öll fórnarlömb sem við mögulega gátum og hér má sjá Gullu, mikla vinkonu okkar og smámunafíkil að störfum. Eldhúsið er einnig farið að ná betri mynd og við sáum það strax að það var hárrétt ákvörðun að létta á efri skápunum. Eldhúsið virkaði strax stærra og bjartara.

Ljósið yfir vaskinum fengum við í IKEA en okkur þótti það passa fullkomnlega. Það er svolítið "industrial" sem að tengist vel við höldurnar á skápunum en með mjög góða vinnulýsingu og við getum beint því yfir eldavélina sem og yfir vinnuborðið undir hillunum, praktískt og töff!

Hér má sjá hillurnar í miðju "bæsunar" ferli. Við notuðum sama bæs og á sperrunum: Lady Sjosand 9043 og fæst í Húsasmiðjunni. Það varð ekki alveg jafn dökkt og á sperrunum en í sama tóninum samt sem áður og við erum mjög sátt við útkomuna. Hilluberana fengum við í IKEA, við ákváðum að velja hvíta þrátt fyrir mikið af svörtum smáatriðum í húsinu þar sem okkur fannst það einnig létta svolítið á eldhúsinu. 

Hér er Börkur að fylla upp í gatið. Þið munið kannski eftir því úr fyrri póstinum úr litla svefnherberginu að þá var hér ein skúffueining sem að geymdist inní herbergi. Við tókum þetta út til að auka við plássið í herberginu og fylltum því í sárið með panil áður en við máluðum svo allt. Sjá síðasta póst hér:

Hér er svo önnur hilla sem að Máni sonur Maríu og Barkar smíðaði. Þessi er í sama sniði og sófaborðið og bekkurinn. Svart sprautað járn og bæsaðar hillur. Þessa mublu er einnig hægt að nýta sem eyju ef það er einhver svakaleg eldamennska í gangi en annars er hún bæði til skrauts og nýtist fyrir stærri eldhúshluti.

Diskarekkinn flotti fylgdi húsinu og við bæsuðum hann einnig með sama bæsi og fyrr segir.

Í svona litlum húsum/rýmum eins og bústaðurinn í raun er, er mikilvægt að flækja þetta ekki of mikið, heldur halda rauðum þræði í gegnum allt til að tengja allt vel saman. Sama bæs á allt, sami litur á veggjum og lofti, og tengja liti á milli herbergja og gera endurtekningar þegar við á. Það má vissulega breyta svolítið til og gefa rýmum mismunandi karaktera en það er gott að halda grundvallar skyldleikanum vel á lofti. 

Ég held að húsið virki stærra við það og það heldur í ákveðna ró, ss. ekki mikið "sjokk" að fara úr einu herberginu í annað.

Hér má sjá gott dæmi um endurtekningar og flæði.. sjáið td. hvernig svarta hillan endurspeglast í römmunum aðeins innar á ganginum. Eins er hér tengingin úr viðarstólnum í bæsaðan viðar-rekkann. Þetta einhvernveginn "virkar" bara svona...

Glerkrukkurnar og bakkann undir hnífapörin fengum við í Kosti. Það verður svo æðislegt í sumar þegar við getum borðað úti á palli, að skoppa bara með hnífaparabakkann út og ekkert vesen.

Svo var raðað fram og til baka, aftur og áfram og þessi fær reglulega nýja uppstillingu og breytingu.

Krukkulímmiðana gerði María auðvitað fyrir kaffi, te og kakóduftið sem okkur þótti svo skemmtilegt að það er nú komið í sölu hjá Systrum&Mökum! Æðislega flottir límmiðar fyrir krukkur undir allskyns hráefni.

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!