Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Brauðtertur með þeyttum rjóma og piparrót

Það voru þónokkrir sem fylgdust með fermingarundirbúningnum á snappinu okkar fyrir yngsta son þeirra Maríu og Barkar, Nóa.

Við systur græjuðum veitingarnar að mestu sjálfar með hjálp ömmu og tryggra hjálparhella. Ég skellti í hvorki meira né minna en 4 brauðtertur sem er bara heill hellingur miðað við það að ég er alls ekki vön brauðtertugerð. En þetta reyndist mun minna mál en ég hélt.

Ég fékk þessa uppskrift frá Eddu vinkonu minni fyrir einhverju síðan og þykir hún sérstaklega góð þar sem hún er frekar létt og góð og ekki stútfull af majonesi sem verður gul á borðinu.

"Komdu Goggi minn, Bára er komin í bleyti og majonesan er orðin gul"..

Uppskriftin er fyrir 1 stóra tertu og í upprunalegu útgáfunni er hún höfð kringlótt. Ég margfaldaði hana með 4 fyrir 4, fjögra hæða brauðtertur úr samlokubrauði skorið langsum.

Botnar.

2-3 brauðtertubrauð, Aflöng eða kringlótt.

Fylling 1.

100gr skinka

1/2 dl majones eða létt majones

1 dós sýrður rjómi

2 tsk sinnep (ég notaði franskt, ekki Dijon)

Aromat ef vill (ég notaði það!)

Fylling 2.

3-4 egg

1/2 agúrka

1/2 dl majones eða létt majones

1 dós sýrður rjómi

Skraut.

150gr skinka

2-3 egg

1 rauð paprika

2dl rjómi

1/4 pakki piparrót ef vill (mér finnst rosa gott að nota hana!)

Aðferð

Fyrir fyllingu 1, skerið skinkuna í litla bita og hrærið saman við majones og sýrðan og bragðbætið með sinnepi og aromati.

Fyrir fyllingu 2. Harðsjóðið eggin (einnig eggin fyrir skreytinguna) í 10 mínútur og kælið. Saxið eggin og agúrkuna, blandið við majones og sýrðan rjóma (ég kryddaði þessa blöndu líka.)

Þar sem María er svo alls ekki hrifin af agúrku þá gerði ég þriðju blönduna og skipti út agúrkunni fyrir saxaðan ananas úr dós. Það kom ferlega vel út líka!

Fyrir skreytinguna saxið þið skinkuna smátt og harðsoðnu eggin, agúrku og papriku. Þeytið rjómann og blandið piparrótinni saman við ef vill og smyrjið rjómanum ofan á tertuna. Merkið tertuna í átta geira og raðið skinku, agúrku, eggjum og papriku í hvern geira. 

Þá virkar þetta sumsé svona á kringlóttri tertu og hver geiri er fylltur með mismunandi fyllingu.

Nú ég ákvað auðvitað að breyta aðeins og notaði þessa mynd sem fyrirmynd fyrir skrautið á okkar tertum:

Svo hafði ég mismunandi skraut á tertunum eftir því hvort þær voru með agúrku...

eða með ananas..

Fyllingarnar voru svo settar sitt á hvað á brauðtertuna og ég gerði það daginn áður. Brauð - fylling 1, brauð - fylling 2, brauð - fylling 1 osfrv eins hátt og ég vildi. 

Svo stakk ég grillpinnum í gegnum terturnar á meðan þær hvíldu í plasti yfir nóttina, þannig náðu þær að taka sig og blotna vel.

Daginn eftir skellti ég svo piparrótarrjómanum á þær ásamt skrautinu.

Voila!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

 

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

 

 

Katla – Systur & Makar –

 

 

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

 

 

Snapchat: systurogmakar.

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

 

 

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!