Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Samverustundir í desember og sykurlaust kakó

 

Mér datt í hug að smella inn smá pósti þar sem það er nú að kólna soldið hressilega núna og ég hef ekki látið verða af því að blogga lengi. Svo erum við systur að reyna að skipuleggja okkur alveg ægilega vel til að ná utan um allt sem þarf að gera og græja fyrir jólin sem og að sinna fjölskyldu og vinum og reyna líka að halda okkur í sykurleysinu. Svo þetta verður svona blogg um sambland af svona allskonar stússi.

Mér hefur alltaf fundist svo fallegt þegar fjölskyldur ná að gera eitthvað saman í jólaundirbúningnum og það þarf ekki að vera flókið. Dagatöl geta einnig snúist um samverustundir en þetta þarf jú kannski aðeins að plana með smá fyrirvara. Er þetta því ekki bara ansi hreint góður fyrirvari til að hefja undirbúning.

Pinterest er náttúrulega hafsjór af hugmyndum að jóladagatölum og fann ég hér tvö sem mér finnst einföld og falleg sem auðvelt er að græja. Þetta gæti því verið svona viðburðadagatal fyrir fjölskylduna og svo er eitt umslag opnað á hverjum degi til jóla. Þetta hjálpar vonandi öllum við að halda sér við efnið og gleyma ekki að njóta aðventunnar.

Ég veit, ég veit, það er ekki kominn desember einu sinni, en þegar maður er í verslunarrekstri fyrir jól þá þarf maður að vera ansi skipulagður og hér smitast það yfir á bloggið..þið kannski þakkið mér fyrir það síðar.

Við systur létum prenta fyrir okkur jóladagatal og eigum það nú til í svona fallega náttúrulegum brúnum tón. Okkur langaði svo í hreina miða með gati úr ágætlega stífu kartoni sem hægt væri að nota fyrir allskonar aðventu-dagatals pælingar.

Um er að ræða brún náttúruleg spjöld úr kvistpappír með svörtu prenti.

Tölustafirnir eru misjafnir svo spjöldin raðast skemmtilega upp þegar þeim er raðað á sinn stað.

Litlar 1900.- krónur fyrir pakkann og þau fást hér:

Hægt er að nota þau á ýmsa vegu, þau má til dæmis hengja á litla poka með gjöfum sem er krækt á band eins og sjá má hér:

Fallegt er að binda smá borða utan um þau og festa utan um tómar sultukrukkur með sprittkerti og svo er kveikt á nýju kerti á hverjum degi. Þetta kemur ofsalega vel út í glugga! (Athugið að þið munið þurfa 300 kerti í krukkurnar í heildina miðað við að kertin lifa í einn dag hvert).

Einnig er hægt að festa þau á vegg og nota þau sem viðburðardagatal:

Hér er líka sniðug hugmynd og einföld. Bara nokkur falleg umslög fest á bönd með klemmum!

Hér eru svo litlir pokar hengdir á grein og skreyttir svona ansi jólalega, fallegt skraut í leiðinni líka!

Verkefnin þurfa ekki alltaf að vera flókin og hér fyrir neðan er smá listi með nokkrum skemmtilegum hugmyndum.

 1. Förum í skautaferð
 2. Eldum saman eitthvað gott í matinn
 3. Bökum piparkökur
 4. Spilum spil
 5. Föndrum jólakort
 6. Förum í bakaríið og kaupum snúð
 7. Búðarferð á Laugaveginn
 8. Kíkjum á kaffihús og fáum okkur heitt súkkulaði
 9. Skreytum úti-tré með seríu
 10. Förum á jólatónleika
 11. Laufabrauðsbakstur
 12. Föndrum jólaskraut
 13. Kíkjum í jólahúsið
 14. Förum í bíltúr að skoða jólaljósin
 15. Bökum smákökur
 16. Horfum á jólamynd saman
 17. Höldum fjölskylduspilakvöld
 18. Verslum jólagjafir
 19. Förum í göngutúr að skoða jólaljós
 20. Fáum okkur heitt kakó og smákökur
 21. Finnum jólatré
 22. Verslum í jólamatinn
 23. Búum til snjókarl
 24. Skreytum jólatréð
 25. Förum í jólabaðið
 26. Byggjum snjóhús
 27. Fáum okkur jólabjór (svona fullorðins ;)
 28. Föndrum aðventukrans
 29. Lærum um jólahefðirnar
 30. Skoðum erlendar jólahefðir
 31. Pússlum jólapúsl
 32. Finnum og pökkum inn jólum í skókassa
 33. Förum í jólamessu
 34. Lesum jólasögu
 35. Skrifum jólasögu
 36. Lesum jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum
 37. Lærum um aðventukertin fjögur
 38. Bjóðum vinum í jólakaffi
 39. Föndrum krans á leiðin
 40. Búum til jólakonfekt

Og svo mætti lengi telja! Hugmyndirnar geta verið úr öllum áttum og ef þér dettur fleira í hug má endilega skrifa það hér í "commentin" að neðan svo aðrir geti nýtt sér þær!

Hér deili ég svo mjög svo góðu og girnilegu heitu súkkulaði af LKL síðunni hennar Maríu sem gæti komið sér vel núna í kalda veðrinu.

Nóa kakó!

Sonur minn yngsti er mikill kakókarl og lætur sko ekki hvaða kakó sem er ofan í sig. Hann er alltaf opinn fyrir heitum kakóbolla og meira að segja í sumarfríi á Almeríu í 30 stiga hita sl sumar veigraði hann sér ekki við að panta einn sjóðheitan með rjóma. Best finnst honum að bræða suðusúkkulaði í mjólk bara svona eins flestir leyfa sér á jólunum en ég ákvað að gera á honum tilraun svona í framhaldi af kakóuppskriftapóstinum hér á undan. Þessi drykkur féll algjörlega í kramið og hann hafði á orði að þetta væri besta kakó sem hann hefði smakkað. Veit ekki alveg hversu stór hluti af þeirri fullyrðingu var sannur eða hvort hann vildi ekki særa mömmuna sem stóð sveitt yfir pottinum með stevíudropa í annarri hendi og lífrænt kakóið í hinni, en ég vona að ykkur líki vel.
Kakódrykkur Nóa:
 
125 ml rjómi
125 ml vatn
2 msk kakó
2 msk Sukrin Gold
6 dropar Stevía vanillu, Via health
(einnig hægt að nota bragðlausa stevíu og bæta þá við 1/2
tsk af vanilludropum í kakóið)
 
Blandið öllu vel saman í pott og hitið að suðu, einnig hægt að hita í örbylgjuofni.
Hellið í 2 bolla, best er að bera þetta kakó fram með þeyttum rjóma.
Val: Bætið kaffiskoti í drykkinn fyrir okkur fullorðnu eða setjið 1/4 tsk af chili dufti fyrir þá sem vilja extra krydd í tilveruna.

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila :)

Verið góð við hvort annað kæru vinir!

Sköpum okkar eigin hamingju, kveðja Katla.

- Systur & Makar –

Hægt er að fylgjast með okkur á Instagram, Facebook, Pinterest og Twitter

Skráið ykkur endilega einnig á póstlistann okkar hér fyrir ofan til hægri

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!