Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Núðla á leiðinni eftir frekar flókið ferðalag..

Eftir tilkynninguna á Instagramminu og stuttlega umræðu um vesenið sem hefur plagað mig á þessu sviði, þá fékk ég fjöldan allan af fyrirspurnum og hreinlega beiðnum um að taka smá  spjall um þetta mál.

Ég var búin að skrifa smá pistil með tilkynningunni sjálfri á mitt persónulega facebook til vina og vandamanna sem ég ætla að flétta inní þetta, sem var svona meira upp á gamanið, en fór þó stuttlega inn á þetta málefni, og það er greinilegt að umræðan er þörf.. svo „here goes“.

Jæja.. það kom þá að því!

Þessi með vínglasið og veislusalinn var formlega stöðvuð með ógleðisköstum, endalausu hungri og þá helst í sykur og kolvetni (hvað var þetta LKL aftur?) og þreytu. Já Katla pjatla.. eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir, tvær aðgerðir og tvo fósturmissa virðist nýjasta núðlan ætla að halda sér fastri nú í 13 vikur og 6 daga takk fyrir!

Ég þorði ekkert að vona þrátt fyrir allt væri meira en velkomið og þónokkrar rannsóknir sögðu að ekkert væri ómögulegt, og ég var sossum ekki að plana neitt strax með nýja risanum sem birtist inn í líf mitt í október á síðasta ári eins og sterkur stormsveipur. En þá eftir 12 vikna sónar þar sem ég fékk spark í cameruna í beinni (krúttlegasta il freaking EVER!) náði ég ljósmóðurinni með mér í grátkast eins og sönnum dramadrottningum sæmir! “Já elskan mín, þetta er bara staðfest“ sagði hún og saug upp í nefið og ergó: við Haukur eigum von á glænýrri og víst alveg einstaklega rólegri vog 14. Október 2020. (Engin pressa elskan en 20.10.20 væri líka mjög cool.. just saying!)

 

„Forever the romantic“.

Skjótum hér aðeins inní: Ég hef verið í nokkrum samböndum, mislöngum sem þið hafið fengið að fylgjast ansi grannt með á mínum miðlum. Ég er bara eins og allir hinir, fer inn í nýtt samband og vona svo sannarlega og trúi því staðfast í hvert skipti að „þetta sé pottþétt málið“. Nei ég meina, auðvitað, það fer enginn inn í nýtt samband án þess að vona bestu mögulegu útkomuna og verandi þessi sem er iðulega með glasið hálffullt (ok alltaf fullt) og verandi almennt frekar opin manneskja þá þykir mér gaman að deila því þegar mér líður vel og hef gaman.

Og ég mér líður ansi oft vel og hef oft roooosalega gaman!

Svo eins og oft vill verða, ganga hlutirnir kannski ekki alveg upp, fyrsta spennan dvínar, eitthvað kemur uppá, fjarlægðir heimila verða að vandamálum og svona þetta klassíska.. maður hættir í sambandi og „shit.. ég hefði kannski ekki alveg átt að deila öllu með öllum aaaalveg strax“... „ég læri á þessu!“

En ég held samt áfram í vonina og finn mér næsta „þetta er málið“ og eftir örfá varfarin skref tekur alsælan yfir og hringrásin fer aftur af stað, með allri sömu gleðinni og deilingunum og öskrunum út í heiminn... bara verið ekki fyrir!

Þeir sem standa mér næst biðja mig að fara varlega og "í guðanna bænum ekki deila alveg strax öllu með öllum".. en ég er bara ekki þannig og held mig við mína rútínu sem ég sé sossum ekki eftir. Ég hef skapað dásamlegar minningar og upplifað ótrúlegustu hluti á síðustu árum, jú vissulega með mismunandi aðilum en svo sannarlega ekki verri minningar fyrir vikið!

Svo nú eins og svo oft áður, vona ég svo sannarlega og trúi Haukur að "þetta sé klárlega málið"!

„You are not getting any younger honey“.

Nú, orðin 36 ára, þá hefur barnaumræðan alveg farið nokkrum sinnum af stað með þeim tilfinningarússíbana sem fylgir með mismunandi einstaklingum og hjá mér var þetta einhvernveginn svona:

Mér datt ekki í hug að það væri nokkuð sem gæti stafað að, ég var búin að vera í sambandi með konu í nokkur ár og þegar kom að því að „reyna“ kom ekkert annað til greina en að kaupa danskt í gegnum Art Medica. Þá fyrst fæ ég fréttir um að það leynist einhverskonar blaðra sem „gæti mögulega“ orðið vesen.. betra að fjarlægja.

Það var keyrt í það, aðgerð á Akranesi, blásið úr leiðurum, allt svolleiðis hreinsað og sjænað og skorinn gluggi á blöðruna sem átti svo að tæma sig sjálf og hverfa, en blaðran fór hvergi.

Önnur aðgerð á Landspítalanum og í ljós kom að þetta var alls engin blaðra heldur tvíburabróðir (jább, alveg eins ógeðslegt og við getum flest ímyndað okkur eftir alltof mikið House og Grey‘s gláp.. hár og tönn og „the whole shebang!!!“) Hann var fjarlægður, prufað aftur og aftur en allt kom fyrir ekki.

Nokkrar heimaæfingar með aðstoð frá einstaklega gjafmildum vini en ekkert gekk þrátt fyrir hormónasprautur og vítamínát, passasemi og slökun.

Smátt og smátt kom hugsunin: „þetta er kannski ekki fyrir mig, ég er kannski bara of busy í fyrirtækjarekstri og þetta er bara ekki mín vegferð“.

Ég hef sossum alltaf haft gaman að börnum og setti af stað barnapössunarbatterý sem unglingur, en hafði þó meira gaman af því að skipuleggja matarplanið, fjármálaplanið og dagskrá hvers dags en „actually“ leika við börnin.. svo þetta uppeldi alltsaman er bara kannski ekki fyrir mig, ég á kannski bara ekki að hugsa út í þetta einu sinni og maður sannfærir sig að svo sé, því það er miklu auðveldara en að díla við að eitthvað sé að eða að kannski sé þetta ekki hægt!

Ómægat!

Svo vonin dvínaði, já eða breyttist og lífið tók aftur við. Sambandsslit, breytingar, nýr maki, djamm og gleði, fyrirtækjarekstur, útlandaferðir og ekkert nema fjör!

Svo bara allt í einu, BOMM, alveg óvart! Bíddu what? Ég hélt að þetta væri ekki hægt, ekki málið.. ekki málið fyrir mig! Hjartað tekur völdin, kannski núna.. kannski núna er þetta málið og frá því að vera orðin „sátt“ við að eigin börn væru líklega ekki hluti af minni framtíð fór kollurinn á flug, á geimflaugarflug á ógnarhraða, gleðikast, pissað á hvert prikið á fætur öðru, jebb jebb, tvær línur, koddatal og plan og grátur og gleði og ómægat!!! Furðulegt hvernig lífið getur bara allt í einu snúið sér í 180° og allt bara gengur upp... í alvöru samt: ó mæ gat!!!

Svo kom verkur og meiri verkur og blóð í brækur og eftir nokkrar heimsóknir á spítalann í von og óvon, blóðprufur og tékk var það loks staðfest.. neibb.. ekki í þetta skiptið.

Það var skellur! Eiginlega alveg bara ógeðslega harður og sár helvítis skellur! Mömmufang og pabbafang og systrafang og það var vælt og grenjað og „afhverju í fokkanum ekki“ og „djöfull er allt ósanngjarnt“ og allskonar skömm og reiði og afhverju var ég yfirhöfuð að vona þetta! Svo kom hugsunin „æi góða, harkaðu þetta af þér, þetta gerist fyrir sirkabát þriðju hverja konu“! Eins og það geri þetta eitthvað miklu auðveldara.. afþví þetta drasl kemur fyrir svo marga aðra líka!

En þannig er það víst og aftur heldur lífið áfram, hlutirnir breytast, fókusinn fer á eitthvað annað, eitthvað meira fun sem er skemmtilegra að díla við og einföldunin: „þetta var bara ekki minn tími“ hjálpar til við að höndla þetta og eftir situr vonin „ókei ókei.. en þetta var allavega hægt.. ég get þetta.. það er þó komið skrefinu lengra en síðast svo kannski.. bara kannski?“

Sem er staðreynd og í desember á síðasta ári varð ég aftur bomm.. en nú var ég náttúrulega búin að læra: ekki séns að kollurinn færi aftur á flug og framtíðarplönin yrðu ákveðin á fyrstu vikunni, nei þroskaða pían beið bara alveg sultuslök, hugsaði bara um líðandi stund og tók bara eitt skref í einu og andaði með róandi jógaöndun!

 

WRONG!

Maður virkar ekkert þannig, allavega ekki ég.. ég reyndi og þóttist, en inní mér var allt farið á milljón og ég var farin að sjá fyrir mér 10 fingur og 10 tær.. fyrir utan það eru hormónarnir að spila með mann og allt er á fullu.

Í þetta skiptið náði ég enn skemri tíma en fyrsta skiptið og aftur kom skellur. Ekki alveg eins harður og í fyrsta skiptið en samt, skrítinn og vondur og ósanngjarn og allt það shit.

Svo þetta er bara alls ekkert auðvelt, það er erfitt að hugsa eitthvað voða þroskað og fara ekki í að kenna sér um allt. Ég var alltof gjörn á að hugsa „ef ég hefði bara passað þetta betur“ eða „ef ég hefði bara gert þetta öðrvísi“ og allar þessar tilgangslausu hugsanir sem bærast. „Ég greinilega á ekki að fara þangað, afhverju að vona það?“ Skömmin tekur soldið völdin og maður veit ekki alveg við hvern maður á að ræða, á maður að segja frá öllu eða er þetta bara óþægilegt fyrir alla hina. Þetta kemur jú fyrir svo marga.. og aftur, það er samt von, eða?!

Ég vildi geggjað vera sú týpa, þessi ægilega þroskaða og rólega og svolítill töffari út á við, ég hafði gengið í gegnum þetta áður og fannst ég einhvernveginn ekki alveg eiga rétt á að grenja jafn mikið.. en það er jafn heimskuleg hugsun eins og að "þar sem þú ert nú búin að fótbrjóta þig einu sinni þá getur nú næsta skipti varla orðið jafn vont!"

Haukur minn fékk alveg að finna fyrir því heima við og hann átti líka ægilega bágt og hreinskilninslega hjálpaði það helling, ljótt að segja það, en við vorum þá allavega bara grey saman og janúar kom með sínum skít og það var allt bara frekar mikið glatað og ömurlegt! Hlutirnir voru bara erfiðir og asnalegir og þannig mátti það bara vera í smá tíma!

Í okkar huga vorum við ekki bara að syrgja eitthvað fóstur, einhverja rækju með hjartslátt heldur þessa hugmynd um barnavagn og taubleyjur eða plastbleyjur, hvort ætli sé betra? og „erum við yfirhöfuð tilbúin“ og allar þessar hugsanir sem svona fréttum fylgir. Þetta styrkti okkur heilmikið sem betur fer því svona getur líka leitt pör í þveröfuga átt svo við erum þakklát fyrir það!

Svo tóku við búðarflutningar og bras svo við náðum að leiða hugann að einhverju öðru í smá tíma sem hjálpaði líka. Ég er snillingur í að dreifa huganum og það er ágætis eiginleiki að hafa í svona aðstæðum.

Bottom lænið, þetta sökkaði og þetta sökkar alltaf!

Ég held að það sé vert að auka umræðuna um þessi mál sérstaklega í ljósi þess að talið er að ein af hverjum 6 þungunum fari svona. Ein af sex!!! Það er bara hræðilega oft og hrikalega mikil sorg sem fylgir þessum tölum! Eitt af hverjum sex skiptum sem er fríkað yfir pissuprufunni, óað og æjað og panikkað og glaðst og grenjað. Eitt af hverjum sex endar með leiðindum og sorg. Ömurlegt!

Það þýðir að það eru ansi margir að ganga í gegnum það sama og margir oftar en einu sinni eða tvisvar svo ég vona að þessi umræða hjálpi einhverjum.. ég er enginn sérfræðingur, ég er bara venjuleg kona með glasið hálffullt, er mikið tilfinningabúnt og á mína sögu eins og allir hinir.

Mér fannst líka hjálpa að lesa reynslusögur annarra og mæli með heimasíðu styrktarfélagsins Gleym mér ey sem er með hellings fræðslu og efni sem var gott að hafa aðgang að.

https://www.gleymmerei-styrktarfelag.is/

Gleðikast!

Nú í mars eftir missinn í janúar fór ég aftur til læknis og hann spurði hvort ég væri orðin ólétt aftur?

„Jah, nei, sko ég er ekki viss..“

-„nú hva, veistu ekki hvernig þetta virkar?!

Jú jú, það var staðfest og ég hef aldrei komist jafn langt. 13 vikur, 6 dagar and counting!

Þetta er allt öðruvísi en fyrstu tvö skiptin og tilfinningarússíbaninn er allt annar. Fyrstu vikurnar reyndi ég að hafa mig hæga og vona ekki of mikið, af reynslu þá var um að gera að setja ekki vonirnar of hátt.. eins og áður virkaði það ekkert og í 12 vikna sónarnum féllu allar varnir og ég vældi með ljósmóðurinni eins og áður sagði.

Ég er búin að fá hvert einasta einkenni sem sögur fara af, martraðir, sterka drauma, verki, þreytuköst, ógleði, stjórnlaust hungur og þetta gefur af sér alveg sérstaklega hraðvirka forðasöfnun með tilheyrandi takmörkunum á fataúrvali sem ætti þó að vera lítið mál að bjarga í ljósi atvinnu. Ég er með allar mögulegar „cravings“ í epli, mangó, ber og frostpinna í bland við sterkan lakkrísbrjóstsykur, brauð, súrmjólk, brauð, súkkulaði og brauð... (awww, þetta verður líklega „foodie“ eins og mamma sín!)

Ég ældi nákvæmlega einu sinni á fyrstu vikunum en passaði mig samt á að borða stanslaust svo mér yrði sem minnst flökurt og „ég átti þetta bara alveg skilið“ í ljósi ástands.. og ástands!

Ég fékk ægileg þreytuköst og þurfti að leggja mig reglulega, þetta urðu 3-4 klukkustunda „lúrar“.. Katla, það kallast nú bara að fara að sofa!

Ég varð móð við að staulast á klósettið og í ljósi þess að það er nákvæmlega ekkert sjáanlegt utan á mér fannst mér ég óttarlegur aumingi.. en appið sagði að þetta væri allt saman eðlilegt svo ég dæsti bara og „lagði“ mig aftur..

Mér finnst þetta samt allt saman vera að koma til núna, orkan komin til baka að miklu leiti og ég treysti á að svolleiðis verði þetta það sem eftir líður meðgöngu svona sirka bát: „piece of cake“.. (nú hrista mæðurnar hausinn, já bíddu bara!). og já, I will.. það er víst óumflýjanlegt!

Við erum svolleiðis að springa úr gleði og ætlum okkur að takast á við þetta sjúklega spennandi verkefni með prýði, með öllu því veseni sem mér fylgir og vonandi stóískri ró í boði Goliats míns. Fyrsta mitt, þriðja Hauks og ekkert nema hamingjubros allan hringinn!

Við erum umkringd dásemdum sem eru yndslegheitin uppmáluð, gormarnir hans Hauks alveg ferlega spenntir og vilja sjá teikningar úr appinu (nú erum við að tala um stærð á við matchbox bíl) og okkar nánustu spyrja reglulega um andlega og líkamlega (oftar andlega) heilsu og passa uppá að Haukurinn dekri við eldgosið sem hann gerir reyndar alltaf!

Spennandi tímar svo mjög og höfum við ákveðið að hunsa allt shit sem er í gangi núna og hlakka til komandi stunda!

Það er svolleiðis allt morandi í jákvæðni maður og þannig ætla ég að halda því, ég græði víst ekkert á öðru!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Katla  – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Snapchat

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!