Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Leikir og afþreying fyrir börnin

Ég elska leiki og almennt bras og hef einnig verið að gera smá "efni" fyrir fullorðna fólkið á Instagram en ég er þar búin að útbúa nokkur "insta quiz" eins og ég kýs að kalla það, sem hentar eldri kynslóðinni líklega aðeins betur. Þetta eru nokkrar spurningakeppnir með mismunandi þema sem þið getið spreytt ykkur á en þið finnið þetta á instagram síðu @systurogmakar.

En svona þar sem margir eru fastir heima með gormana sína og þolinmæði bæði barna og foreldra oft af skornum skammti þá datt mér í hug að setja hér saman smá lista yfir leiki og afþreyingu fyrir fjölskylduna. 

Hugmyndirnar hér á eftir koma flestar af Pinterest og eru einfaldar að útbúa með dóti og smáhlutum sem finnast á flestum heimilum.

Vonandi gagnast þetta einhverjum og ef hægt er að græða gæðastundir með gormunum í þessu ófremdarástandi, þá er um að gera að horfa á þetta jákvætt og fá sem mest út úr "frítímanum" saman. 

Minute to win it

Fyrst ber að nefna "minute to win it" ef þið munið eftir þeim sjónvarpsþáttum sem voru vinsælir hér fyrir allstuttu. Það kom meira að segja íslensk útgáfa af þessum skemmtilega sjónvarpsþætti sem Ingó veðurguð stjórnaði á skjá einum 2014.

Hugmyndin er að leysa verkefnin á innan við mínútu hér er skemmtilegt að keppa við aðra og endilega blanda saman fullorðna fólkinu og krökkunum, þau eru oft miklu sneggri og keppnisandinn brýst fram hjá þeim stóru!

Heilmargir leikir henta krökkum á ýmsum aldri svo sem þessir:

 

Litaðu 3 mais baunir í öðrum lit og blandaðu í skál með öðrum baunum, keppst er um hver sé fljótastur að finna allar 3 baunirnar án þess að sturta öllu úr skálinni eða baunirnar fari allar út um allt.

Vertu sem fljótastur að blása öllum spilunum af krukkunni... nema einu!

Útbúðu "lyftu" úr 2-3 blýöntum (eins og á myndinni hér að ofan) sem þú teipir saman með límbandi og festu svo band við hvorn endann. Bandið þarf að vera nógu langt til að "lyftan" geti legið á borði eða kolli ca. við hné. Svo fer bandið upp og aftur fyrir eyru. Í lyftuna kemurðu fyrir nokkrum nammikúlum, cheerios hringjum eða rúsínum td. Tilgangurinn er að tosa lyftuna upp án þess að missa innihaldið úr á leiðinni og ná að borða innihald lyftunnar á innan við mínútu. Þeim sem tekst að borða flest á tilskildum tíma vinnur!

 

Hér er einfaldlega nokkrum penne pasta hólkum raðað í röð á borð eða í hring á koll og með því aðeins að nota eitt spaghetti í munninum og engar hendur, á þér að takast að þræða pastað uppá spahetti stráið á innan við mínútu. 5-6 stk af penne pasta er oft mátulegt magn að keppast við að ná á þessum tíma.

(Augljóslega á þetta við um ósoðið pasta.. ef þið prófið þetta aftur á móti með elduðu spahettíi, vinsamlegast sendið mér myndir eða video af ósköpunum!!)

Útbúið púsl úr pakkningum utan af matvörum, morgunkornspökkum eða öðru og leysið á sem stystum tíma!

Það má finna endalaust af sniðugum "Minute to win it" leikjum sem henta bæði krökkum og fullorðnum á Google eða Pinterest.

Nim

Þetta er ótrúlega einfaldur leikur fyrir 2 að spila og hér þarf að hugsa svolítið fram í tímann. Sniðugur leikur fyrir klára krakka.

Það þarf að raða 21 hlut niður í röð, best er að nota tölur, baunir, eldspýtur, rúsínur eða álíka einfalda smáhluti. Svo skiptast leikmenn á að gera, í hverjum leik þarf að taka 1,2 eða 3 baunir. Sá sem endar á því að taka síðustu baunina tapar.

Samstæðuspil

Þennan kunna nú allir en hér er skemmtileg útgáfa þar sem krakkarnir byrja á því að föndra samstæðuspjöldin sjálf. Einfalt er að búa þau til úr pappadiskum og mála á þær 2 eins myndir eða 2 myndir sem passa saman eins og gert er hér að ofan, einfaldlega handaform í mismunandi litum- bleik hægri hendi passar við bleika vinstri hendi osfrv.

Svo þarf bara að skiptast á að gera og ná samstæðum!

Hvað skal gera við alla klósettrúlluhólkana?!

Hér er búið að litakóða rúllurnar, (einnig væri hægt að skrifa einfaldlega númer á rúllurnar) og svo eru þær límdar á lágan pappakassa. Svo búið þið til spjöld við sem passa við lituðu eða númeruðu rúllurnar og dragið 2-3-4 spjöld (eins og hentar) sem segir til um í hvaða röð kúlan á að fara í gegnum rúllurnar. 

Þeim sem tekst að fara í gegnum sína röð á sem stystum tíma vinnur.

Hægt er að gera þetta enn flóknara með því að setja göt í botninn á pappakassanum hér og þar og passa þá að kúlan detti ekki niður um gat á leiðinni.

Forvitnilegar flöskur

Þetta finnst mér algjör snilld! 

Undirbúningur: Finndu tóma plastflösku með skrúftappa og settu allskonar smáhluti í hana, bréfaklemmu, pening, tölu, glerkúlu, legókubb, bjöllu, tening, nýrnabaun, Cheerios, perlu, öryggisnælu og hvað sem þér dettur í hug.

Skrifaðu hlutina á blað og festu utan á flöskuna. Einnig er hægt að breyta þessu í keppni með því að gera tvær/nokkrar nákvæmlega eins flöskur og svo er keppst um að finna sem flesta hluti á ákveðið löngum tíma og svo er farið saman yfir hvað sé rétt.

Fylltu svo flöskuna af grjónum, en passaðu að fylla ekki alla leið upp svo hægt sé að færa grjónin og hlutina til og frá.

 

Þá kalla ég þetta gott í bili og vona að þetta geti nýst einhverjum fjölskyldum sem vantar hugmyndir að skemmtilegu stússi til að brasa saman heima við. Farið vel og varlega með ykkur kæru vinir!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Katla  – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Snapchat

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!