Borgarnes, svo miklu miklu meira en pissustopp!
Borgarnes, já eða Borgarbyggð eins og svæðið kallast jú svona heilt yfir litið, verð ég að viðurkenna að hefur ekki verið beint ofarlega á heimsóknarlistanum mínum yfir athyglisverða staði til að skoða.
"já, við stoppum bara og pissum í Borgarnesi.. já í annarri hvorri sjoppunni bara".
Ég hef reyndar gert aðeins meira en það. Hingað fór ég í eftirminnilega leikhúsferð á Mr. Skallagrímsson með Benedikt Erlingssyni og féll þar með endanlega fyrir honum. ("He's on my list" eins og einhverjir Friends aðdáendur ættu að fatta). Svo skoðaði ég Brúðuheim þegar hann var og hét, sælla minninga, jú og mamma fór einhverntíman með mig á Bjössaróló því það YRÐI ég jú að sjá!
En það er bara svo miklu meira í boði á þessu dásamlega landi okkar eins og við systur komumst alltaf betur og betur að í þessum bredduferðum okkar. Það þarf svo sannarlega ekki að leita langt yfir skammt til að finna krúttlegt kaffihús, girnilegt bakarí, dásamlegt bílasafn og annað frábært safn með guðdómlegu hádegishlaðborði, spennandi verslanir og sveitahótel stutt frá bæjarmörkum svo ekki sé nú minnst á glænýtt spa!
Nei, bara rétt um klukkara frá höfuðborginni er svona líka margt skemmtilegt að skoða!
Þessar bredduferðir okkar systra eru dagar fyrir okkur til að öðlast innblástur, kynnast landinu okkar og kynna það fyrir öðrum, fíflast, fávitast og fá smá "frídag" frá hefðbundnum vinnudegi. Í hverri ferð kemur það okkur alltaf jafn mikið á óvart hvað það eru margir sniðugir að gera allskonar sniðugt og það sem kemur enn skemmtilegar á óvart er hvað allir eru svona líka fjári jákvæðir fyrir því að fá okkur breddurnar með símana á lofti í heimsókn!
En í Borgarbyggð var nú ferðinni heitið á vindasömum morgni í febrúarmánuði. Með lágkolvetna bulletproof drykk í glasi og 90's geisladiska í spilaranum var haldið af stað!
Fyrsta stopp var í krúttlega blómasetrinu Kaffi Kyrrð. Þetta er sumsé kaffihús, blómabúð, gjafavöruverslun með aragrúa af smádóti og krútti til að skoða. Þar fengum við okkur kaffibolla og fengum að draga tarot spil. Það er algjörlega þess virði að stoppa hér og fá sér í gogginn á ferð í gegnum Borgarnes.. (ekki langt frá bensínstöðvunum og mun huggulegra salerni)!
Þær mæðgur sem eiga Kaffi Kyrrð reka einnig gistiheimili en við fengum að fara upp með snappið og sýndum frá því öllu saman. Þær eru einnig í vexti og skilst okkur að þær séu að bæta við gistirýmum. Spennandi tímar!
Ljómalind
Þá áttum við næst erindi í Ljómalind en hér erum við að tala um ótrúlega fjölbreyttan sveitamarkað með bæði handverk og matvæli. Hér er svona reynt að bjóða aðeins upp á vörur úr héraði sem okkur þótti sérstaklega aðdáunarvert!
Landnámssetrið er svo bara kapituli útaf fyrir sig!
Landnámssetrið var næst á dagskrá en við höfðum fengið fjöldan allan af ábendingum um svakalegt hádegishlaðborð hér á bæ. Það olli svo sannarlega ekki vonbrigðum og var hér í boði margra rétta grænmetishlaðborð sem hafði svo sannarlega verið stjanað við af natni. Æðisleg súpa, heimabakað brauð og fullt af hollum og góðum grænmetisréttum en hér er einnig tekið fram allt sem er í boði fyrir vegan-ista svo þetta hlaðborð hentar allflestum.
Við sjáum algjörlega fyrir okkur að gera okkur dagarmun einhverntíman aftur og skjótast hér á fallegum degi í vor eða sumar. Klárlega þess virði að gera sér ferð! Húsin tvö eru með elstu húsum Borgarness og eru náttúrulega einstök og ofsalega vel upp gerð sem og var þjónustan til fyrirmyndar! Við þökkum kærlega fyrir okkur!
Við fengum svo að renna í gegnum sýningarnar tvær, Landnámssýninguna og Egilssögusýninguna en þær eru eins og annað hér svo fallega uppsettar og fróðlegar.
Við fengum leiðsögn um húsið en leiksýningarnar eru haldnar á söguloftinu í risinu. (Hér féll ég fyrir honum Benna mínum muniði.. ;)
Næst á dagskrá var að kíkja á samgöngusafn fornbílafjélagsins og Latabæjarsafnið í Brákarey.
Vissulega héldum við systur að Brákarey væri eitthvað lengra frá og reiknuðum með alveg 20 mínútum í keyrslu.. sem að var svosem ágætlega áætlað sökum blaðurs og fíflagangs, en Brákarey er nú bara þarna rétt hjá Landnámssetrinu svo planið okkar var svona líka fínt bara!
Þar fengum við frábærar móttökur og hellings fræðslu um kaggana á svæðinu. (Þetta er sniðug leið fyrir ykkur elskurnar að ná fjölskyldunni í dagsferð á grænmetishlaðborð Landnámssetursins, eftir matinn er svo hægt að kíkja á bílasafnið og Latabæjarsýninguna og hver einasti fjölskyldumeðlimur fer svo bara massa sáttur heim!)
Héðan fórum við systur með bílaboli og bílasegla á ísskápinn að gjöf, meira dekrið á þessum drósum!
Þá var haldið á gististað okkar systra en það var aðeins út fyrir bæinn. Við fengum boð um að gista á Hraunsnefi í dásamlegu umhverfi sem er 4km norður af Bifröst.
Hér tóku á móti okkur Hraunsnefjar, hjónin Brynja og Jóhann, en þau eiga og reka þetta heljarinnar batterý!
Hraunsnef er ekki einungis Hótel og veitingastaður heldur er hér einnig virkur "smá"búskapur og almenn sveitavinna er á svæðinu. Við fengum dásamlega kynningu á dýrunum og um svæðið og komumst svo auðvitað að því að við ættum ekki aðeins sameiginlegt vinafólk heldur seldi María um stund handverk með henni Brynju á Handverksmarkaði á Garðatorgi fyrir þónokkrum árum. Skemmtilegar tengingar!
Þau sögðu okkur frá ótrúlegri elju og dugnaði sem þau hafa sýnt í gegnum árin við að byggja upp þetta líka ævintýralega umhverfi, nema þau ypptu svolítið öxlum og voru ægilega hógvær "já já, svona hófst þetta bara"... Jóhann er sko algjör bóndi og er búinn að læra mestmegnis sjálfur með því að afla sér hreinlega upplýsinga, hvort sem það snýr að fyrirtækjarekstri, smíðavinnu, dýrahaldi eða öðru og sömu sögu má segja um Brynju en hún er listakona! Hún leirar diska, bolla og önnur föt, smíðar silfurskartgripi og innréttar herbergin af miklum metnaði. Hún gaf okkur systrum einnig sitthvorn hringinn í lok ferðar en þeir hafa ekki farið af okkur síðan!
Við systur vorum hreinlega dolfallnar og fengum frábæran borgara til að deila, að sjálfsögðu úr þeirra eigin kjöti. Morgunverðarhlaðborðið daginn eftir var heldur ekki af verri endanum og herbergið okkar var yndislegt, en meira um það síðar.
Nú, við systur þurftum að skjótast á næsta stað áður en við gætum fest niður rótum á hótelinu en næst var það Krauma.
Wow Wow Wow!!!
Hér erum við að tala um glænýtt og algjörlega guðdómlegt concept! Krauma eru sumsé náttúrulaugar við Deildartunguhver, vatnsmesta hver í Evrópu. Hér mætist ofsalega falleg hönnun, glæsilegur arkitektúr, slökun, upplifun, veitingarstaður og 6 laugar og 2 gufuböð! Hingað þurfa held ég allir að koma!
Við fengum í fyrsta lagi frábærar móttökur og kynningu á öllu saman og fengum svo að njóta pottanna með drykk í glasi í rólegheitunum þar til okkur var svo boðið í mat. Já, þetta var lúxusmeðferð alveg í gegn!
Dökkar myndir teknar á símana sýna þetta svo sannarlega ekki í réttu ljósi svo við mælum eindregið með því að í fyrsta lagi, gera ykkur ferð og prufa!! En á heimasíðunni má einnig skoða fleiri myndir og fá upplýsingar um verð.
Sjá hér: http://www.krauma.is/#/frontpage
Við þökkum kærlega fyrir frábærar móttökur og óskum ykkur öllum innilega til hamingju með Krauma. Við erum sannfærðar um að þið eigið eftir að gera geggjaða hluti með þessa nýju perlu í upplifunarflóru Íslands.
Eftir slökunina héldum við systur aftur á Hraunsnef með svolítilli viðkomu í Borgarnesi en planið var að fara á tónleika og kíkja svo á pöbbinn. Á tónleikana kíktum við en komum svolítið seint svo við sáum því miður ekkert né heyrðum, Dússabar var því næsta viðkoma en þónokkrir snillingar höfðu mælt með honum, með mikilli íroníu sem að við áttuðum okkur alls ekki á. :)
Við skulum bara orða það svo að stoppið þar var stutt og fengum við okkur heldur Irish með Brynju vinkonu okkar á Hraunsnefi og Hrólfi bróður og Ernu mágkonu. Það vildi neflinlega svo skemmtilega til að þau áttu "date night" á Hraunsnefi en þetta var önnur eða þriðja heimsókn þeirra, segir það þá nokkuð um gæði í mat, drykk og umhverfi Hraunsnefs.
Enn og aftur viljum við systur hvetja ykkur kæru landar, notfærið ykkur landið okkar og gerist túristar í eigin umhverfi. Það er ekki aðeins ódýrara en að ferðast langt út fyrir landssteinana, heldur eigum við svo ótrúlega margt uppá að bjóða að það kemur hreinlega á óvart í hvert skipti!
Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila :)
Verið góð við hvort annað kæru vinir!
Sköpum okkar eigin hamingju, kveðja Katla.
- Systur & Makar –
Hægt er að fylgjast með okkur á Instagram, Facebook, Pinterest og Twitter
Skráið ykkur endilega einnig á póstlistann okkar hér fyrir ofan til hægri
Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!