Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.330 kr 3.700 kr
2.610 kr 2.900 kr

Breddur í bæjarferð í Reykjavík! 1. hluti!

Við systur bjuggum til nýjan lið á snappinu okkar (systurogmakar) um daginn sem við útskýrum einmitt hér. 

Í stuttu máli snýst þetta um það hvað okkur þykir ofsalega gaman að skoða, heimsækja og prufa nýja og skemmtilega hluti og staði! Svo við bjuggum til hugtakið "Breddur í Bæjarferð" sem fjallar einfaldlega um okkur og hvað við erum að fíflast saman (frábær afsökun til að taka smá frí frá vinnunni líka en jú þetta veitir okkur vissulega innblástur og er alveg obbosins sneddý!)

Nú, við breddurnar settum okkur því markmið að fara í bæjarferð 2 sinnum í mánuði. Það er að segja að heimsækja staði sem við færum kannski ekki vanalega á í mismunandi bæjarfélögum og taka snappið og blogglesendur með okkur!

Nú höfum við lokið við jómfrúarferðina sem mig langar að segja ykkur aðeins frá, en við hófum þennan lið í Reykjavík. Ég er að hugsa um að segja ykkur frá þessu svona í nokkrum skömmtum þar sem þetta var ansi viðburðaríkur og magnaður dagur!

09:00 Kaffivagninn 

Dagurinn byrjaði snemma morguns þar sem við fengum far út á granda með einum makanum og skelltum okkur á Kaffivagninn í morgunmat. Þangað höfðum við hvorug komið áður en vorum búnar að frétta af sérstaklega skemmtilegri morgunstemmningu! Ekki vantaði það því heimsmálin eru greinilega rædd hér yfir þónokkrum kaffibollum meðal fastakúnnanna. 

Ilmurinn er enn sterkur og fylgir greinilega húsinu, svolítil fiskilykt en umhverfið er sérstaklega snyrtilegt og hlýlegt. Útisvæðið setur svo punktinn yfir i-ið með borðum og stólum fyrir þónokkuð marga til að njóta óviðjafnanlegs útsýnis! Við vorum reyndar alveg sérstaklega heppnar með veður þennan fallega morgun og fannst við sitja á Nýhöfn meðal skipanna í sólinni!

Ég held að ég hafi fattað þetta rétt en mér skilst að mamma eigandans komi reglulega til að sjá um bakkelsið. Jæja, hver sem gerir það þá erum að tala um alvöru, heimagerðar hnallþórur, pönnukökur, kleinur og smörrebrod galdrað á staðnum! Þar fyrir utan er staðurinn sérstaklega þekktur fyrir fiskrétti og er víst fiskurinn í hádeginu virkilega vinsæll!

Hér má sjá heimasíðuna:

Þetta byrjaði ósköp sakleysislega hjá okkur í croissant með skinku og osti (26% lágmark!) en við stóðumst það ekki að deila eins og einni sneið af himneskri súkkulaðitertu sem var að sjálfsögðu borin fram með þeyttum. Já, takk! Sneiðin fékk fullt hús stiga og undirrituð viðurkennir alveg þónokkra blauta drauma síðan um þessa tilteknu sneið!

Þið farið strax að taka eftir þónokkuð mikilli umræðu um mat en okkur systrum leiðist svo sannarlega ekki að borða og smakka margt og mikið. Við reynum til dæmis að velja okkur sem fjölbreyttast af seðlinum þegar við erum saman til að geta smakkað hjá hvor annarri (það getur þó stundum verið erfitt þar sem við eigum það alveg til að verða svolítið abbó ef hin fékk eitthvað betra).. já það er vandlifað í þessum heimi!

10:00 Omnom

Nú eftir morgunmatinn tókum við röltið í blíðunni út grandagarðinn þar til við fundum höfuðstöðvar Omnom. Við erum jú að selja Omnom súkkulaði í versluninni okkar og erum búnar að vera á leiðinni í heimsókn til þeirra í þónokkurn tíma.

Við vorum búnar að mæla okkur mót við Kyle sem að sér mikið um kynningar og markaðsmál ásamt framleiðslu og þróun hjá Omnom. Ég verð að segja það að við vildum helst báðar ættleiða hann Kyle því yndislegri drengur er vandfundinn! Hann er frá Brasilíu og bjó um tíma í Bretlandi (þykkur enskur hreimur), en svo kann hann líka íslenskuna rosa vel og er bara hreint út sagt DÁSEMD!

Hann fór með okkur hring um fyrirtækið og útskýrði framleiðsluferlið á súkkulaðinu frá vexti og vinnslu kakóbaunarinnar til úrvinnslu og pökkunnar á dásamlegu Omnom súkkulaðinu! Mjög svo athyglisvert allt saman og við fengum að smakka endalaust af allskonar, þar á meðal kakóávöxtinn!

Við kunnum því báðar að meta súkkulaðið miklu betur og fannst alveg magnað að fá útskýringu á þessu öllu saman. Fyrirtækið er líka sérstaklega hreint og fínt og það er til sóma að bjóða upp á svona kynningar, virkilega fræðandi! Það er því bara um að gera að fá kynningu fyrir vinahópinn, starfsmannafélagið eða saumaklúbbinn og senda einfaldlega línu á þá hér.

11:30 Búrið ljúfmetisverslun 

Við þekkjum hana Eirný hjá Búrinu vel og það var ekki annað hægt en að kíkja í heimsókn til hennar! Verandi miklar ostakonur (aftur komum við að mat, jú jú..) þá átti það frábærlega við að hún var einmitt að skella í ferskan ricotta eða Búrcotta eins og við köllum hann :)

Hörðustu snap áhorfendur hafa séð okkur gera þetta áður en við fórum á námskeið hjá Búrinu fyrir nokkrum árum þar sem hún kenndi okkur aðferðina.

Ricotta er (eins og Wikipedia útskýrir:) ítölsk mjólkurafurð gerð úr mysunni sem verður eftir úr ostaframleiðslu. Þar sem framleiðslan á ricotta á sér stað í sambandi við framleiðslu á ostum er hún oft ranglega talin ostur, en í rauninni er aðeins mysan notuð, sem er hituð þar til próteinin í henni storkna.

Ricotta má framleiða úr kúa-, geita-, sauða- eða buffalamjólk en hefur tiltölulega lítið fituinnihald (um 8% sé kúamjólk notuð).

OKKAR ÚTSKÝRING:

Ricotta er tær snilld og ekki eins flókinn í gerð eins og ætla mætti. Lærðu þetta og þú sjarmar alla með þvílíkum eldhúshæfileikum.. Nigella hvað?!

Þetta er soldið eins og mjúk og rjómakennd kotasæla (en þó ekki eins kögglótt) sem hægt er að bragðbæta og nota í eftirrétti eða sem álegg á gott brauð.

Uppskrift!

Hún Eirný er sumsé með uppskrift sem við fylgjum og fengum við leyfi hjá henni til að birta hana hér. Við mælum að sjálfsögðu með því að bóka námskeið og læra þetta af fagaðilum, en fyrir ykkur sem viljið tilraunast heima í eldhúsi getið farið eftir þessu:

Innihald:

2L Nýmjólk
1 peli rjómi

90ml hvítvínsedik eða önnur álíka sýra.

Byrjið á því að setja mjólkina og rjómann í pott og hitið rólega upp í 90°C eða að suðumörkum. Passið að hún sjóði þó ekki en litlar loftbólur ættu að vera byrjaðar að myndast í köntunum.

Þá setjið þið sýruna fallega út í (við notum alltaf hvítvínsedik) og þið megið fara með sleif eða hræru 3 sinnum í gegn, rólega. Það má ekki hræra öllu saman með einhverjum brussugangi heldur strjúka sleifinni þvert yfir mjólkurblönduna 3 sinnum. 

Setjið lokið á og takið af hitanum, nú þarf aðeins að bíða.

Á þessum tímapunkti er gott að vera búinn að sjóða tusku, en Eirný mælir með grisjutuskunum sem eru með bláa saumnum, þær eru ekki of þéttar og henta vel (sjá á myndum). Til að sótthreinsa þær þarf að sjóða þær og láta svo kólna aftur, klippa bláa partinn af öðru megin til að það myndist hálfgerður poki og strengja efnið yfir sigti.

Nú ætti eitthvað að vera byrjað að gerast í pottinum. Sýran ætti nú að vera búin að hleypa ostefninu til og virkar gumsið eins og ónýt kekkjótt mjólk, en svo er aldeilis ekki! Ef þið setjið nú sleikju rólega í kantinn og ýtið aðeins inn á við, ættuð þið að sjá mysu undir ostakekkjunum sem fljóta efst.

Ef ekkert hefur gerst gæti verið að hitinn hafi ekki verið nægur eða sýran ekki nógu mikil, þá má prufa að bæta aðeins í sýruna og bíða ögn lengur.

Þegar mysan er orðin nokkuð hrein frá er ráð að ausa ostefninu (kekkjunum) rólega upp úr pottinum yfir í sigtið með tuskunni. Reynið nú að gera þetta allt frekar fallega og rólega svo ostefnið haldist nokkuð kekkjótt saman.

Þá þarf mysan að renna vel af og síast frá. Til þess er best að nota þunga ostsins ekki handafl og kreysta. Sumsé; lokið tuskunni og haldið yfir vaski þar til mysan hefur lekið burt eða festið einhvernveginn uppi fyrir ofan skál á meðan þetta gerist!

Þá má leika sér að því að bragðbæta, hugmyndaflugið á endilega að ráða ferðinni en hér koma nokkrar tillögur:

Okkur Tótu finnst geggjað að nota ferskan sítrónubörk, parmaskinku, lakkríssalt, svartan pipar og ferska basiliku eða ferskt kóríander. Svo berum við Búrcotta alltaf fram með góðu súrdeigsbrauði, geggjað!

Það væri gaman að prufa svolítið ítalskt og setja ristaða tómata, mikið af ferskri basiliku, góða ólívuolíu, salt, svartan pipar og smá ristaðan hvítlauk.. mmm!

Einnig er gott að bragðbæta með hunangi, smá salti og ristuðum valhnetum, þessi útgáfa er sætari. (kannski setja líka brytjaðar döðlur með..?)

Ég get líka ímyndað mér að hann sé góður með ristuðu beikoni sem er skorið í litla bita og hlynsýrópi og þessvegna blanda honum við góð skrömbluð egg, svona á hádegisverðarborðið.

Það er líka algjört nammi að nota Búrcotta í eggjakökur, í pastarétti, inní heimagerðar pastaskeljar með spínati, á pítsur, í skonsur og fleira.

Einföld leit á Pinterest skilar líka ansi fjölbreyttum niðurstöðum:

Ég held að ég endi þetta blogg hér áður en ég slefa endanlega yfir lyklaborðið! Við komumst yfir alveg ótrúlega fjölbreytta dagskrá þennan yndislega dag og ég mun halda áfram með ferðasöguna von bráðar.

Þangað til næst, gangi ykkur vel í Búrkottagerð!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!