Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.330 kr 3.700 kr
2.610 kr 2.900 kr

Íhugun um hönnunarhugtakið

Í ljósi umræðunnar um „skeiðina hans afa“ síðastliðna viku, höfum við hjá Systrum&Mökum rætt hugtakið hönnun og viljum aðeins fara yfir okkar afstöðu til þess.

Það er líklega best að byrja á því að útskýra forsöguna. Þann 9.febrúar sl birtist grein á Vísir um „skeiðina hans afa“. Þar segir frá stúlku sem hafði fengið skeiðina að gjöf og furðar hún sig á því að hún skuli teljast íslensk hönnun þar sem efniviðurinn sé fenginn úr IKEA.

María Krista hönnuður Krista Design, svarar því að eflaust þyki einhverjum furðulegt að nota efnivið úr IKEA, en bætir þó við að hugmyndin sem liggi að baki endurgerð hennar eigi sér rætur að rekja til afa okkar systra sem fyrir u.þ.b. 40 árum tók hefðbundna matskeið úr skúffunni hjá ömmu, boraði á þær göt svo sigta mætti meðlæti frá vökva. Teljum við því að sú hugmynd sem og endurútfærsla Maríu Kristu sé hönnun/hugvit í sjálfu sér. Hér má til að mynda vitna í Christian Guellerin sem segir m.a. að hönnun snúist um athöfn eða ferli frekar en vöru og að verkefni hönnuðarins sé að umbreyta heiminum og bæta umhverfið, að gera það fallegra, nothæfara og gagnlegra.

Það ber þó að nefna að Krista Design hélt því aldrei fram að skeiðin væri sín hönnun, né íslensk hönnun yfirhöfuð heldur einfaldlega endurgerð á hugviti afa. Hann taldi sig svo sem ekki hafa fundið upp hjólið heldur bjargaði hann sér með lausn á vandamáli. „Skeiðin hans afa“ var því gerð til að heiðra afa og fínu hugmyndina hans sem kallast á hönnunarmáli „repurposing“ eða að finna einhverju nýtt hlutverk. Töluvert fyrir birtingu greinarinnar á www.visir.is skrifaði María m.a. bloggfærslu um skeiðina skemmtilegu sem lesa má hér.

Í umfjölluninni spurði Vísir Höllu Helgadóttur, framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvar Íslands, hvað henni fyndist um þetta og svarar hún: „Það er einfalt - þetta er ekki hönnun þau eru bara að búa eitthvað til sem er bara fínt. Fólk ruglar mjög mikið með hönnunarhugtakið“.

„Til að vera hönnuður er ekki nóg að ákveða bara að maður sé hönnuður og búa eitthvað til. Langflestir hönnuðir hafa að minnsta kosti 4 ára háskólanám að baki. Það eru til ómenntaðir einstaklingar sem geta talist hönnuðir en þeir eru undantekning. Mig grunar að fólki í þessu fyrirtæki hafi aldrei lært neitt í hönnun“.

Það voru einmitt þessi hörðu ummæli Höllu sem urðu kveikjan að þessari grein okkar systra og maka og íhugun okkar um hönnunarhugtakið.

Það að vera hönnuður er ekki lögverndað starfsheiti hér á landi eins og Halla staðfesti einmitt í Vikunni hjá Gísla Marteini, en það er hvergi gerð krafa um að einstaklingur þurfi að vera sérmenntaður til að geta hannað. Eins og segir í íslensku alfræðiorðabókinni samkvæmt www.mennta.hi.is er hönnun:

„Mótun eða skipulag hluta, mannvirkja eða umhverfis til framleiðslu eða byggingar þar sem sameinað er fagurfræðilegt og hagkvæmt gildi. Iðnhönnun er á sama hátt mótun hluta til fjöldaframleiðslu“ (Íslenska alfræðiorðabók H-O.1997:137).

Þetta segir okkur það að í raun er allt okkar umhverfi að einhverju leyti hannað, svo lengi sem það falli einfaldlega ekki undir náttúrulega sköpun móður jarðar.

Halla segir enn fremur að fólk rugli handverki og föndri við hönnunarhugtakið þar sem einungis menntaðir hönnuðir sem flestir hafa háskólanám að baki geti gert, annað telst til undantekninga. Lesa má frekar um skilgreiningar Höllu hér:

Þessu getum við ekki samsinnt að einungis menntuðum einstaklingum sé hampað og hinum ómenntuðu er meinaður titillinn nema um sérstæð tilvik sé að ræða. Hver er dómarinn sem gefur undantekningunum titlaheimild sem að menntaðir einstaklingar fá í útskriftargjöf? Eru það aðrir menntaðir einstaklingar, það að birtast í hönnunartímaritum, fá viðurkenningu frá erlendum hönnunarhúsum eða hver?

Með þessu er að sama skapi verið að gagnrýna alla þá einstaklinga sem að starfa ómenntaðir í fögum sem ekki hafa lögverndað starfsheiti sbr. listamenn, tónlistarmenn, leikara, rithöfunda og svo mætti lengi telja. Við sem eigum einmitt svo mörg dæmi um fagmenn á sínum sviðum sem þó eru ófaglærðir.

Hvað með til dæmis Jón Gnarr?

Þar er gott dæmi um einstakling sem fer allt á eigin verðleikum og hefur starfað á sviði ritstarfa, tónlistar, leiklistar og svo í pólitík þrátt fyrir að hafa þó ekki lokið stúdentsprófi. Er hann einn af þessum fáu sem heyrir til undantekninga?

Við systur erum reyndar báðar menntaðar á sviði hönnunar og lista þar sem María Krista nam fyrst iðnhönnun við Iðnskólann í Hafnarfirði og útskrifaðist svo með B.A. gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands. Katla útskrifaðist af listnámsbraut úr Fjölbraut í Garðabæ og er með Diploma frá  Istituto Europeo di Design í Barcelona sem innanhúshönnuður. Við höfum einnig verið föndrarar, handverkskonur og hönnuðir allt frá barnæsku bæði fyrir og eftir nám og einkunnarblöð.

Við rekum atvinnuskapandi fyrirtæki, saumastofu, vinnustofu og verkstæði þar sem við erum bæði með faglærða sem og ófaglærða einstaklinga í vinnu. Við leggjum upp úr því að gera eins mikið hérlendis og við mögulega getum og rekum tvær verslanir auk netverslunnar sem selur okkar eigin hönnun og handverk í bland við aðrar vörur.

Við höfum verið stoltir þátttakendur á hinum ýmsu hönnunar -og handverskmörkuðum um land allt ásamt öðrum föndrurum, handverksmönnum og hönnuðum þar sem við stöndum hlið við hlið og seljum okkar eigin sköpunarverk.

Við gagnrýnum það að háskólamenntun sé ávísun á gæði í starfi og afurðum og teljum það rangt að tala um undantekningar ómenntaðra einstaklinga. Virðum heldur vinnu náungans og höldum áfram að starfa við það sem veitir okkur gleði og skapa hluti sem bæta umhverfi okkar hvort sem það sé nytjavara, til fagurfræði, skemmtunnar eða ögrunar.

Við tökum þó fram að nám er aldrei af hinu slæma og fögnum því og öllum þeim einstaklingum sem að mennta sig, hvort sem það sé gert með skólafenginni reynslu eða annarri.

Lifum í sátt og samlyndi hvort við annað og hættum titlatoginu. Hyllum heldur fjölbreytileikann og sköpunarkraftinn í hvaða mynd sem hann birtist, annað skilar engri hönnun. 

Lífið væri jú ansi litlaust ef hæfileikarnir fengju ekki að njóta sín því hugvitið leynist víða, eins og til dæmis hjá afa heitnum!

Verið góð við hvort annað kæru vinir!

Sköpum okkar eigin hamingju

- Systur & Makar –

 

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila :)

Hægt er að fylgjast með okkur á Instagram, Facebook, Pinterest og Twitter

Skráið ykkur endilega einnig á póstlistann okkar hér fyrir ofan til hægri

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!