Páskaratleikur 2025- styrkur fyrir Ljónshjarta
Lýsing
ATH: Við kaup á þessari vöru skráist þú sjálfkrafa á póstlista Systur&Makar. Þegar leikurinn verður sendur út á emailin þann 10. apríl er lítið mál að afskrá sig ef vill.
Þá er komið að páskaratleik ársins 2025!
Þetta er nú 5 skiptið sem ég útbý svona páskabraserí fyrir alla þá sem vilja en hingað til hef ég gefið hann alveg frítt. Það hafa þó ansi margir nefnt það við mig að vilja greiða fyrir hann. Svo eftir þónokkra umhugsun ákvað ég nú í ár að breyta til og bjóða greiðslu fyrir leikinn sem um leið styrkir gott málefni.
Upphæðin fer frá 500.- og uppúr en þú ræður hvort og hversu mikið þú vilt styrkja!
Í ár styrkjum við félagið Ljónshjarta.
Ljónshjarta eru samtök til stuðnings fólki sem misst hefur maka og barna sem misst hafa foreldri.
Þetta málefni er mér ansi nærri en í febrúar á þessu ári missti ég eldri bróðir minn aðeins 46 ára fjölskyldumann úr illvígu krabbameini. Veitir það mér huggun að geta stuðlað að auknu fjármagni til þessa góða félags með páskabrasinu mínu sem um leið gleður börn víða um heim.
Í ár samanstendur leikurinn af 6 nýjum vísbendingum með vísum og þrautum sem blanda má við leiki fyrri ára og eru því vísbendingarnar orðnar 31 talsins. Einnig fylgir í ár stór föndur- og þrautapakki sem hentar börnunum vel til dundurs um páskana.
Leikir fyrri ára verða einnig sendir út en þar má meðal annars finna myndaratleik fyrir yngstu gormana, 30 spurninga páskaquiz og páskabingó.
Leikurinn passar fyrir allan aldur og er hugmyndin að skemmta sem flestum, ungum sem öldnum og stuðla að samvinnu og gleði.
Þó leikurinn sé vissulega frír þá vona ég að í ár takist að safna svolítilli upphæð í þágu þessa verðuga málefnis. Leikurinn verður sendur öllum sem eru skráðir á póstlista Systur&Makar þann 10. apríl.
Eins er ég sérstaklega þakklát ef þið eruð til í að deila með mér myndum/videoum af undirbúningi og/eða frá leitardeginum sjálfum.. það veitir mér ómælda ánægju að sjá þetta gleðja ykkar nánustu!
Best er að merkja á Instagram undir myllumerkinu #systurogmakarpaskar eða tagga þar @systurogmakar nú eða senda myndir á facebook síðu Systur&Makar eða systurogmakar@gmail.com
Gleðilega páska og takk fyrir að styrkja Ljónshjarta!
Sendingarkostnaður
DROPP
Dropp afhendingarstaðir á Höfuðborgarsvæðinu 750 kr
Dropp afhendingarstaðir á Suðvesturhorninu 990 kr
Dropp afhendingarstaðir á Landsbyggðinni 990 kr
Flytjandi á Landsbyggðinni 1.350 kr
Heimsendingar á Höfuðborgarsvæðinu 1.350 - 2.350 kr
Heimsendingar á Suðvesturhorninu 1.450 - 2.950 kr