Volcano Design var stofnað árið 2008 en komst í fullan rekstur árið 2009 og er rekið af Kötlu Hreiðarsdóttur og konu hennar Þórhildi Guðmundsdóttur.

Katla Hreiðarsdóttir er menntaður innanhúshönnuður frá Istituto Europeo di Design í Barcelona en hefur ávallt haft áhuga á fatahönnun frá því að hún kláraði textílbrautina úr Fjölbrautarskóla Garðabæjar. Þórhildur Guðmundsdóttir (Tóta) er nuddari og starfar við það ásamt fullum rekstri Volcano Design. Systir Tótu, Aðalbjörg Guðmundsdóttir er einnig verslunarstjóri Systra og Maka á Akureyri, svo þetta er vissulega fjölskyldurekið batterí.

Frá upphafi reksturs hefur Katla lagt ríka áherslu kvenleikann í hönnun sinni og hannar klæðilegar, smart og tímalausar vörur og vinnur með skemmtileg og fjölbreytt snið. Hefur þessi stefna hitt vel í mark sem sýnir sig í öflugum kúnnahópi sjálfstæðra, töff og kynþokkafyllra kvenna. Merkið hefur notið mikilla vinsælda frá byrjun og er stolt af því að vera alfarið með íslenska framleiðslu á eigin saumastofu.

Starfsmenn fyrirtækisins eru menntaðir og vel þjálfaðir á sínum sviðum með góða reynslu og sést það vel á handbragðinu. Gæði efnanna skipta Kötlu miklu máli og leggur hún uppúr því að hafa sem endingarbestu efnaflóruna þó svo að verðinu sé haldið í sem mestu lágmarki.

Katla hefur trú á því að þegar konum líður vel í fötunum eru þær fallegastar svo þægindi skipta miklu máli.

Katla og Tóta eru miklir matgæðingar og hafa gaman að margskonar eldamennsku og að „njóta augnabliksins“ sem þær gera í ríkulegum vinahópi. Ferðalög eru einnig ofarlega í huga og þar sem fjölskylda Tótu býr úti á landi eru þær oft með annan fótinn þar. Innanhúshönnunarnám Kötlu hefur einnig komið sér vel í gegnum tíðina þar sem þær hafa tekið þónokkur rýmin í gegn. Má þá ekki gleyma sérstökum smíða og málarahæfileikum Tótu sem fá þá að njóta sín en þær hafa sérstakt yndi af þesskonar verkefnum.