Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Páskaklippingin - hrollvekja byggð á sönnum atburðum.


Hann Halldór Árni, höfundur þessa pistils er vinur mömmu og pabba og munum við systur vel eftir honum úr Hafnarfirði. Mamma sagði okkur frá þessum dýrðlega pistli sem hún las einnig fyrir okkur upphátt með tilþrifum og festist þessi skemmtilega frásögn í kollinum á mér. Ég ákvað því að hafa samband við hann Halldór og fékk góðfúslegt leyfi til að deila honum með ykkur hér.


Góða skemmtun..


Ég er fæddur með þeim ósköpum að vera með óvenju strítt hár.
Auk þess vex það hraðar en gengur og gerist, en sé það klippt of stutt stendur toppurinn beint fram eins og der á húfu - sem sagt skyggni ágætt. Eldri maður sem rak stofu sína á Bernhöftstorfu, hafði jafnan á orði að ég ætti að vera sveinstykki í hárskurði. Þannig mætti sporna við vaxandi nýliðun í greininni. Þegar ég fluttist til Hafnarfjarðar 7 ára að aldri, var ég sendur til Einars rakara, þar sem Súfistinn er núna. Einar var fínn kall, og mikið líf og umræður á litlu rakarastofunni. Einar spilaði í Lúðrasveitinni og var áhugasamur um nýja bíla og hver ætti þá og fylgdist því grannt með hægfara umferðinni eftir Strandgötu, og því gátu skærin geigað þegar kom að því að klippa toppinn. Man ég eftir að móðir mín sendi mig, þrátt fyrir kröftug mótmæli, til Einars aftur, með mjög ákveðna kröfu um að hann klippti toppinn betur. Einar, sem var dagsfarsprúður maður, tók þetta óstinnt upp, og muldraði í barm sér að kjellingar upp í Kinnum hefðu ekkert vit á þeirri eðlu iðn, sem hárskurður væri.

Í mótmælaskyni ákvað mamma að senda mig næst til Guðmundar, sem var hinn rakarinn í bænum. Það gerði hún aldrei aftur, því Guðmundur var mun rakari þegar sá gállinn var á honum, og í þetta sinn kom ég golsótt stallaður heim eins og nýrúin rolla, og að auki með mörkin skarð ofan hægra, sneitt utan vinstra. Sárin á eyrunum voru löngu gróin þegar ég læddist inn til Einars næst, og við áttum saman nokkur góð ár þar til ég var farinn að fara mínar eigin leiðir í strætó til Reykjavíkur. En ég minnist Einars og Guðmundar með hlýju í dag, þetta voru góðir kallar sem stóðu vaktina í orðsins fyllstu merkingu í fjöldamörg ár og voru þannig höfuðpaurar Hafnfirðinga.

Þegar ég komst á unglingsár, var ég uppátækjasamur með fatnað og hár. Stundum klippti ég mig sjálfur, með þeim árangri að móðir mín grátbað mig um að fara til Einars og láta hann laga þetta. Einu sinni fór ég til Laua (Guðlaugs) í Kirkjustræti og fékk mér permanent með þvílíkum lokkum og bylgjum, að Ólafur Ragnar hefði bliknað við hliðina á mér. Þegar ég vann síðar sem plötusnúður og skemmtanastjóri í Skiphól og Snekkjunni, bað hárgreiðslukona í húsinu mig um að kynna nýjung sem hún var að byrja innflutning á. Og nokkur fimmtudagskvöld sýndi Dóri lit, á þann hátt að þessi ágæta hárgreiðslukona, sem ég man ekki lengur nafnið á, og stöllur hennar höfðu hendur í hári mínu og lituðu í öllum regnbogans litum.

Eitt fimmtudagskvöld þegar ég var með fjólublátt slétt hár öðrum megin, og silfurlitað, gimbrað hinum megin, mundi ég skyndilega eftir því að ég átti að mæta á fulltrúaráðsfund Sjálfstæðisflokksins áður en ég færi að diskótekast. Ég lét slag standa, íklæddur fjólubláum jakkafötum, sem Maggi „fíni" Kristjánsson vinur minn hafði fundið á hálofti Gefjunar Iðunnar, og einhverra hluta ekki selst mörgum árum áður. Já og bleikri pífuskyrtu sem Barry Manilov hefði örugglega reynt að kaupa af mér á stjarnfræðilega upphæð. Þögn sló á slektið í Sjálfstæðishúsinu þegar ég gekk inn og Vorboðakonur signdu sig. Ein heyrðist hvísla; „Hann er ekki Mathiesen þessi" Einu mennirnir sem hlógu dátt voru Finnbogi heitinn Arndal og Þór Sparisjóðsstjóri. Það þarf ekki að taka það fram að ég var aldrei kosinn í fulltrúaráðið aftur og lauk mínum stjórnmálaafskiptum þarna, þó svo að ég fái enn senda happdrættismiða frá flokknum með beiðni um stuðning.

Síðan þetta gerðist eru liðin mörg ár - og hár. Ýmsir hafa haft hendur í hári mínu, með ólíkum árangri. Fyrir tveimur árum fór ég að venja komur mínar á rakarastofu í Firði, aðallega vegna þess að þar þarf ekki að panta tíma. Þar eru að jafnaði tveir til þrír röskir menn með húðflúr fram í fingurgóma - í bókstaflegri merkingu þess orðs. Þeir klippa fljótt og vel. Ja, nema einn sem er svo upptekinn við skrepp og símablaður, að hvorki gengur né rekur, og mega hans kúnnar gera sér að góðu að bíða þar til þessum reddingum lýkur. Hef ég beðið þess eins að lenda ekki í stólnum hjá honum og verið bænheyrður.

Forsjálum dugir fyrirvarinn segir máltækið. Ég er oftast í hinni deildinni. Kortéri fyrir páska var haddur minn og skegg orðið líkast því sem Fjalla-Eyvindur skartaði þegar hann náðist, og voru bæði Umhverfis- og heilbrigðisyfivöld á landsvísu farin að krefjast þess að ég færi í klippingu. Ég skondraðist inn á rakarastofuna í Firði og beið þess sem verða vildi. Aðeins einn klippari var að störfum en þar sem hann er röskur við rúninguna sá ég að biðin yrði ekki löng. Þegar var komið að mér snaraðist ung kona inn og spurði hver væri næstur. Það var ég. Hvernig viltu að ég klippi þig? spurði hún óðar. „Á að raka hliðarnar?" -„Neinei, ja kannski bara allra neðst en annars bara að stytta. Og svo að passa að stytta toppinn ekki um of, þá stendur hárið beint út í loft og ég ræð ekkert við það. Annars veit félagi þinn allt um hárið á mér" sagði ég og nikkaði höfðinu til félaga hennar sem klippti sem enginn væri morgundagurinn. Stúlkan tuggði tyggjóið hraðar og dreif sig í rúningunni. Áður en ég gat æmt eða skræmt var hún búin að raka nánast allt hár af mér nema stuttan toppinn, svo nú lít ég út eins og reyttur ananas á tilboðsverði í Bónus. Og til að bæta gráu ofan á svart smellti hún rakvélinni á augabrúnirnar á mér og stytti þær. Hafði ég þó aldrei beðið um slíkt - og hefði aldrei gert. Næst náði hún í spegil og sýndi mér nauðrakaðan hnakkann og spurði hvernig mér litist á. „Illa, þú ert búinn að klippa alltof mikið og nú ræð ég ekkert við toppinn" -„Nú, jæja" sagði hún í uppgerðartón og hægði aðeins á tyggjóinu, sennilega til að sýna smá hluttekningu. „Fimm þúsund takk. Næsti".

Nú eru páskar. Hlutskipti mitt sem ananas er auðvitað hégómlegt miðað við þá þjáningu og þraut sem þessir dagar eiga að minna okkur á. Umhverfisspjöllin eru afturkræf og með hækkandi sól verð ég sjálfsagt eðlilegur aftur - á einhvern hátt... Ekkert er heldur víst að Guðni forseti frétti þetta með ananasinn. En hvort ég þori aftur í klippingu í Fjörð er óvíst. Þegar maður er kominn á þennan aldur er þetta hrein og klár áhættuhegðun. Svo er líka bara miklu skemmtilegra að fá þjónustu einhvers staðar þar sem óskir manns eru virtar, og manni er sýnd sú lágmarks virðing að hlusta á þær - með eða án tyggjós.