Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Mjósund 16- verkefnið framundan!

Sæl öll kæru vinir!

Í ljósi þess að Instagram reikningur Systur&Makar (@systurogmakar) er svolítið að belgjast út þessa dagana og nýir fylgjendur að bætast í hópinn þá langar mig aðeins kynna þetta spennandi heimilisverkefni fyrir ykkur sem er líklega ein helsta ástæðan fyrir þessu aukna fylgi! Það svona einfaldar ykkur nýju að komast inn í verkefnið á auðveldan hátt. 

Einnig er hægt að skoða eldri "stories" á instagram undir Highlights en þar er ég búin að útbúa þónokkrar möppur til að fylgjast með frá byrjun.

Um hvað snýst þetta?

Við Haukur duttum sumsé í lukkupottinn og fundum hina fullkomnu íbúð fyrir okkur og fjölskylduna núna í sumar. 

Um er að ræða hús sem var byggt 1952, þá einbýlishús sem síðar var skipt niður. Við keyptum efri hæðina og risið sem og bílskúr ásamt sameign í kjallara (171,5fm) Þessu fylgir einnig rúmlega helmingur lóðar sem við deilum með nágrönnum okkar á neðri hæðinni.

Ég er menntuð sem innanhúshönnuður og Haukur er "alt muligt man" sem getur held ég bókstaflega allt.. og var þetta hinn fullkomni demantur fyrir okkur sem við viljum í sameiningu slípa.

Íbúðin er að miklu leiti upprunaleg með upprunalegum gólfefnum og þónokkru sem þarf að taka í gegn, endurgera, flikka uppá og eitthvað má nútímavæða.

Við erum bæði mjög hrifin af 50s/ Mid Century Modern/ Retro stílnum og langar að halda uppruna hússins í heiðri með því að fara sem næst þeim stíl sem hægt er, en þó með nokkrum viðbættum nútímaþægindum.

Íbúar verða við Haukur, núðlan (ófætt barn okkar) sem og gormarnir hans Hauks, 10 ára drengur og 5 ára stúlka. Hér þarf því að taka tilllit til allra þarfa fjölskyldumeðlima og gera heimilisleg, þægileg og praktísk rými fyrir allt og alla.

Það er ágætt að horfa á videoið hér að neðan til að fá góða mynd af íbúðinni eins og við tókum við henni.

Byrjum á því að skoða íbúðina og skipulagið eins og hún er í dag.

Miðhæðin er: 83,1

Risið er: 35,1

Bílsskúrinn er: 29,5fm

Geymsla með útgengi út í garð: 15,8fm 

Svo er sameign með sameiginlegu þvottahúsi og geymsluplássi. 

Miðhæðin:

Þetta er hugsað sem framtíðarheimili og við munum taka okkar tíma í græja það sem þarf, en það eru nokkur verkefni sem þarf að gera áður en við getum flutt inn og helst er það að skoða skipulag og græjerí á miðhæð.

Á fyrri teikningu má sjá skipulag miðhæðar eins og það er í dag og á litaða planinu má sjá okkar hugmyndir að skipulagsbreytingum.

Með þessu móti er hægt að búa til stærra alrými sem hentar nútíma heimilishaldi mun betur en þó halda í grunnskipulag íbúðarinnar, sbr hafa skálann/holið ennþá sér og á sínum stað eins og var vinsælt í skipulagi þessa tíma.

Nú er einnig sameiginlegt þvottahús í kjallara hússins sem ekki er með aðgengi innanhús, þá er stofan tvískipt og eldhúsið er sér. Breytingin felur því í sér lausnir á öllum þessum málum án þess að fækka svefnherbergjum og auka nýtingu miðhæðarinnar til muna. 

(teikniforritið sem ég nota til að sjá þetta fyrir okkur í 3D heitir SketchUp og er fáanlegt á Google).

Risið:

Hér verður allsherjar krakkahæð þar sem gormarnir fá sitt sér afdrep!

Í risinu má finna lítið salerni, 2 barnaherbergi og geymslu sem hugmyndin er að breyta í sjónvarps/tölvu og tómstundaherbergi.

Hvernig verður stíllinn?

Við viljum nýta sem mest í eigninni eins og hún er í dag og má þar helst nefna eldhúsinnréttinguna sem við ætlum okkur að laga og púsla við aðrar innréttingar sem og stigann sem við munum flikka uppá og græja. Stiginn er þó ekki upprunalegur né í 50s stílnum en með svolítilli ást á honum náum við að halda "budgeti" í skefjum og teljum hann geta passað vel við annað efna og litaval þegar við höfum strokið honum...

Til að gefa ykkur hugmyndir að útlitinu ætla ég að setja hér nokkrar myndir inn eftir hressilega leit á Pinterest og öðrum síðum á netinu. Það mun mögulega og líklega eitthvað breytast en þetta gefur ágætis hugmyndir.

Skáli

Það fyrsta sem að maður kemur inní verður ansi dramatískur skáli eða anddyri og miðrými sem leiðir í önnur svæði miðhæðar. Það myndu líklega margir vilja opna hann inn í alrýmið og útrýma "ganga" fílingnum, en við teljum þessa miðju vera mikilvæga til að viðhalda gömlu stemmningu íbúðarinnar.

Hér er hugmyndin að mála alla veggi, loft, hurðar og skápainnréttingu í sama litnum frá Sérefni sem heitir Krickelins Kustgrå.

Djúpur og fallegur blágrár litur með vísun í haf og salta vinda.

Þá langar okkur að setja hér flísar á gólfin en mig hefur dreymt um svart/ hvítar flísar lagðar í demantslögn frá því ég man eftir mér. Mér finnst það henta þessum stíl sérstaklega vel og mun held ég koma einstaklega vel út. 

Hér má sjá nokkrar myndir sem svona útskýra aðeins stemmninguna þó þetta sé ekki alveg eins..

Stigann í húsinu langar okkur að nýta en gefa hressilega yfirhalningu. Hugmyndin er að pússa upp handrið og endastólpa og bæsa eins nálægt tekk litnum og hægt er að komast. Loka bökum í þrepunum öryggis og þrifa vegna og mála svo pílárana, þrepin og burðinn í svörtu.

Þá ætlum við að setja renning af mottu niður þrepin sem mun ekki ná alveg út í endana en teppið er frá Parket&Gólf í Síðumúla og heitir African Spirit frá fyrirtækinu Balta. Þetta er alveg brilliant efni sem hentar bæði til inni og útinota, er einstaklega auðvelt í þrifum og viðhaldi og heldur sér mjög vel! Við höfum verið með útgáfu af svona teppi í formi mottu í búðinni hjá okkur hér í Síðumúla frá byrjun og það sér ekki á því!

Þetta lookar soldið eins og náttúrulegur kókos eða Sisal en er í raun hannað fyrir rakaminni lönd en sisalinn. 

 

Baðherbergi og þvottahús

Hér er pælingin að breyta því sem nú er eldhús í þvottahús og baðherbergi. Þetta rými er rúmlega 10 fermetrar og með svolítið góðu skipulagi ættum við að koma öllu haganlega fyrir.

Þetta þarf að henta sem gott baðherbergi fyrir okkur heimilisfólkið með ágætis þvottaaðstöðu. En hér þarf einnig að vera fallegt aðgengi fyrir gesti svo þessi skipting á bað og þvottarými vs "gestasalerni" vonum við að virki mjög vel.

Okkur langar að byggja þvottarýmið inn á bakvið rennihurðar og baðkarið er einnig með sturtu.

Hér verður allt létt og ljóst með hlýjum tekk viðarskenk undir vaski (ef sá rétti finnst) og notalegum litum í formi skrautmuna í bland.

Núðluherbergi

Hér langar okkur að gera náttúrulegt og hlýlegt barnaherbergi sem er sömuleiðis fyrsta herbergið á vinstri hönd þegar komið er inn í íbúðina.

Ég fann guðdómlegt veggfóður hjá Sérefni sem að mig dreymir um að hafa á einum veggnum og mála svo aðra veggi herbergisins í notalegum grænum tón í bland við hlýlegan við, bast, einfaldar innréttingar, síðar hör gardínur og notalegheit.

Þessi litur heitir Misty Fontaine frá Nordsjö, hann kemur sterklega til greina!

Svefnherbergi

Hjónaherbergið verður ljóst og einfalt með heilum vegg af skápum en okkur langar að byggja IKEA skápa inn svo þeir virki sérsmíðaðir fyrir rýmið.

Eins heillar okkur að setja hillu fyrir ofan rúmið en hugmyndin er að hafa kant á henni til að varna hlutum frá því að detta fram af sem og festa myndir í króka á vegginn, þá er allt öruggt þó munirnir "virki lausir".

Eldhús og stofa

Hér er draumurinn að opna svolítið rýmið og hafa eldhús, borðstofu og stofu allt saman í einu opnu svæði.

Þetta er ekki alveg þessi 50s stíll kannski en hér er verið að skoða frekar nútímaþægindin og vinna með þeim í bland við retro stílinn.

Við tókum eldhúsinnréttinguna varlega niður og vonumst til að geta notað hana hér í bland við aðrar mublur sem munu púslast inn í.  

Við erum búin að liggja yfir gólfefnapælingum og erum komin niður á 2 möguleika. Annarsvegar Linoleum dúk og hinsvegar Vinyl flísar sem eru með Terrazzo munstri. Eins og staðan er, eru terrazzo flísarnar að heilla meira og bíðum við eftir nokkrum prufum í viðbót til að geta tekið endanlega ákvörðun. 

Við fundum ofsalega fallegar flísar hjá Gólfefnavali sem við teljum að geti komið sterklega til greina og fara þær þá á stofu og eldhús, svefnherbergi, barnaherbergi sem og bað!

Hér má sjá linoleum dúk á vinstri mynd og terrazzo vinyl flísina á hægri mynd.

Til að átta sig betur á Terrazzo flísa útlitinu er betra að skoða myndir eins og þessa hér að neðan, þó svo flísin sé aðeins fínlegri þá gefur myndin betri hugmynd.

Í alrýminu verður litagleðin allsráðandi, fallegir smáhlutir, myndaveggir og tekk húsgögn í bland við annan við.

Í eldhúsinu langar okkar að hafa sömu hvítu ferköntuðu flísarnar og verða á ganginum og baðinu á allavega einum heilum vegg lagðar í rúðustrikað form.

Þá verður eldhúsið opið og lifandi, samsett úr nokkrum mismunandi mublum, skemmtilega frjálslegt og skapandi eins og við hjúin teljum okkur vera.

Hér á stemmningin að vera glaðleg, barnvæn, lifandi og svolítið flippuð! 

Risið:

Hér má finna barnaherbergin tvö sem eru að miklu leiti undir súð. Loftin ætlum við að mála hvít til að létta vel á öllu sem og gluggana og hurðarnar að innan. Þá eru nokkrar hugmyndir um hlýlega liti á veggina án þess að fara í of dökkt og mögulega veggfóður inn í stelpuherbergið.

Í risinu má einnig finna geymslu sem við ætlum að breyta í tómstundarherbergi með sjónvarpi, tölvu ofl og þetta rými viljum við gera alveg sérstaklega kósý!

Hér má sjá nokkrar hugmyndir sem eru að kveikja í okkur án þess að þetta sé orðið alveg fullmótað.

Þar höfum við það!

Þetta er svona þokkaleg lýsing á verkefninu okkar Hauks núna og næstu vikurnar já og árin.. ætli íbúðin verði ekki í stöðugri þróun eins og með önnur heimili. En það er þó ansi margt í gangi núna enda að mörgu að huga áður en við getum flutt inn og við erum í skemmtilega þröngum tímaramma þar sem núðlan er áætluð í heiminn 14. október! 

Við förum þó að engu óðslega og náum einfaldlega eins miklu og við getum á þeim tíma sem við höfum og dúllumst svo í að "klára" í rólegheitunum.

Ef þið viljið fylgjast með verkefninu í rauntíma þá mæli ég með Instagram reikningnum @systurogmakar en þar má fylgjast með öllu í "story" sem og í highlights þar sem ég er búin að setja ýmislegt inn.

Ég mun einnig halda áfram að blogga hér og fara nánar yfir hin ýmsu smáatriði, efnisval osfrv. svo endilega fylgið okkur hér og ef þið viljið vera svo væn þá má svo sannarlega deila þessum pósti og eða láta vita af verkefninu okkar á instagram.

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Katla  – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Snapchat

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!