Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr
Lokað er í verslun á uppstigningardag fimmtudaginn 9 maí.

Hótel Eldborg- matsalur fær yfirhalningu

Stundum, bara stundum er svo hrikalega mikið að gera hjá okkur öllum að þetta blessaða blogg sem okkur langar svo innilega að vera dugleg að sinna, situr einfaldlega á hakanum. 

Það eru víst bara svo og svo margir klukkutímar í sólarhringnum og við bara náum ekki að komast yfir allt.

Þegar þetta gerist, þá safnast upp svona óyfirstíganleg hrúga af verkefnum og óblogguðum bloggum upp sem við reynum svo að skrifa seinna, þá virka kannski svolítið út úr kortinu enda löngu búin verkefni.. árstíðin þessvegna mögulega breytt og við farin að sinna öðru.

Það breytir því ekki að ég er búin að skrifa lista yfir óblogguð blogg sem ég ÆTLA mér að komast yfir að gera.. þó svo þau verði asnalega seint skrifuð.. þið verðið bara að reyna að lifa með því og fyrirgefa trassaskapinn.

Nú jæja, að máli málanna!

Vinafólk mitt rekur Hótel, veitingastað og tjaldsvæði ásamt hestaleigu með túrum og leiðsögn sem og sundaðstöðu (legg ekki meira á ykkur) á hverju sumri á Hótel Eldborg.

Eins og segir á heimasíðunni þeirra:

Hótel Eldborg — er sveitahótel sem rekið er á sumrin í Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi, skammt frá hinum landsþekktu Löngufjörum. Aðstaðan hentar vel einstaklingum, fjölskyldum og hópum. Einnig er staðurinn vinsæll til ættarmóta. Hótel Eldborg er miðsvæðis fyrir ferðalög um Vesturland, í Borgarfjörð, Dalina og um Snæfellsnesið og stutt er í þéttbýlið.

Hentugur staður fyrir hópa — Hótelið er frekar lítið en hentar ágætlega hópum allt að 50-60 manns. Boðið er upp á gistingu í 26 2ja-3ja manna herbergjum. Á 16 herbergjum er vaskur og sameiginleg snyrting. Við hótelið er sundlaug sem opin er hótelgestum þegar þeir óska, en að auki eru fastir auglýstir opnunartímar.

Góð veitingaaðstaða — Við bjóðum máltíðir þar sem lögð er áhersla á heimilislegan mat og persónulega þjónustu. Einnig eru einstakar máltíðir í boði, eins og hádegisverður eða miðdegiskaffi. Nauðsynlegt er að panta mat fyrir hópa með fyrirvara. Við bjóðum upp á sérstakan hópa-matseðil.

Stórbrotið svæði sem er paradís fyrir hestafólk!

Svæðið í kringum hótelið er magnað fyrir reiðtúra en þau bjóða einmitt upp á reiðtúra með leiðsögn ásamt hestaleigu. Ég hef sjálf farið í reiðtúra um Löngufjörur og það er mögnuð upplifun!

Ég mæli einnig með því að fylgjast með þeim á Facebook hér.

Matsalurinn tekinn í gegn.

Nema hvað, hún Gunnsa hefur samband við mig þar sem hún bað mig að gefa sér smá ráð í sambandi við matsalinn þeirra. Þar sem húsið er nýtt sem skóli yfir vetrartímann þá er matsalurinn eftir því svolítið "skólalegur" og þurfti því smá kósý-innspítingu sem mér þótti ferlega gaman að fá að hafa puttana í.

Við fórum ekkert í neitt stórvægilegar breytingar, það var hvorki málað né skipt út húsgögnum, heldur var salurinn einfaldlega krúttaður svolítið upp.

Hér má sjá myndir af salnum eins og hann var áður.

Í gluggunum voru rauðir gardínukappar sem að pössuðu ekki við stólana svo fyrsta verk var að skipta þeim út.

Við fundum köflótta og svolítið "sveitó" kappa í Rúmfatalagernum, en þar sem þeir voru aðeins of stuttir þá sprettum við kantinum upp og græddum nokkra auka sentimetra. Bættum svo Z-borða á þá og hjólum og skelltum í brautirnar sem voru fyrir.

Eins fundum við vinyl dúka í Rúmfó, en þau höfðu áður verið með hvíta taudúka á borðum sem voru algjört þvottabras! Þetta var því einföld og ansi sneddý lausn!

Okkur langaði einnig að bæta við svolítið af grænu í gluggana og ákváðum að útbúa kransa í hvern glugga úr gerviplöntum frá IKEA.

Við söfnuðum saman nokkrum sjálfboðaliðum/fórnarlömbum í þetta verk. Það fóru 6 plöntur af hvorri tegund og 2 stórar plöntur sem við skiptum niður í 9 stk kransa. Kransahringina fengum við í Grænum Markaði ásamt blómavírnum. 

Svolítið dúllerí en endast vonandi lengi lengi!

Að lokum fóru gamlar viðarplötur á borðin undir krukku með hnífapörum, kertastjaka úr Rúmfó, servéttur, salt og pipar. Eins keyptum við þykkblöðunga ásamt pottum í Grænum Markaði en þessar plöntur þarf aðeins að vökva ca einu sinni í viku og henta því vel í svona sal.

Það var svolítil skrifstofu aðstaða og sófasvæði innst í matsalnum en við ákváðum að færa það fremst í salinn sem okkur fannst koma betur út.

Þetta tók okkur einn dag í verslunleiðangur og einn dag á svæðinu enda orkuboltar og dugnaðarforkar hér á ferð!

Ég get allavega ekki annað en mælt með Hótel Eldborg og bendi ykkur endilega á að hafa þetta Hótel í huga fyrir ferðaplön næsta sumar!

Hér má svo sjá video af öllu ferlinu! :)

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Katla – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!