Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
3.700 kr
2.900 kr

Karamellan sem gerði allt vitlaust !!!

Jæja nú eru heilsudagarnir liðnir í búð svo við getum farið að sukka ! Djók nei nei en sukka og ekki sukka. Það er hægt að gera svo ótal margt skemmtilegt án sykurs að það er ekki fyndið. Ég hef yfirleitt náð að snúa öllum þeim "cravings" sem mér dettur í hug í eitthvað lágkolvetna enda er úrvalið í verslunum þar á meðal okkar orðið mjög gott.

Um daginn sendi vinkona mín mér uppskrift af súkkulaðieggjum með karamellufyllingu. Þetta er svo einföld og góð uppskrift að ég varð að prófa. Ég fiktaði auðvitað aðeins í henni og breytti pínu en í grunninn má nota hana bæði sem fyllingu, sem sósu, stífar karamellur og jafnvel súkkulaðihúðaðar karamellur. Magnið af rjóma sem fer í hana getur breytt því hvort hún sé stíf eða mjúk og því er um að gera að leika sér svolítið með þetta.

Mynd frá einni af snappinu sem rúllaði upp karamellunni :) 

Það er lítið mál að gera grunninn en hann er svona, þessa uppskrift má að sjálfsögðu tvöfalda ef þið viljið gera meira magn í einu:

50 g smjör

100 g sykurlaust sýróp

Good good sýróp eða Fiber Gold syrópið frá Sukrin, hvorutveggja mjög gott. Það er eitthvað kolvetnaminna sýrópið frá Good good og alveg án glúteins en það mælast örlitlar glúteinagnir í Fiber Gold sýrópinu. 

3 dl rjómi (4 dl fyrir fyllingu eða þegar þið gerið karamellusósu)

1-2 msk kakó ef þið viljið kakóbragð en má sleppa

1/2 tsk gróft salt 

Aðferð:

Hitið smjör og sýróp á pönnu við nokkuð góðan hita svona stillingu ca 6-7, best að nota viðloðunarfría pönnu og frekar stóra.


Látið þetta byrja að brúnast aðeins og verða karamellugyllt áður en rjóminn er settur saman við en þá er lækkað á hellunni. Leyfið karamellunni að blandast vel saman og krauma í 20-30 mín. Ef notaðir eru 4 dl af rjóma þá þarf hún lengri tíma.


Ath: Ef karamellan skilur sig þá er hægt að lækka hitann, bæta rjóma saman við og hræra kröftulega saman, hækka hitann aðeins aftur og þá ætti hún að blandast aftur saman. Það er samt gott að láta hana kólna rólega niður áður en henni er skutlað í form.


Ef þið setjið kakó út í er gott að gera það þegar karamellan er aðeins byrjuð
að kólna. 


Hér má setja gróft sjávarsalt saman við eða t.d. lakkríssalt.

Hellið karamellunni í form, eða smjörpappírsklætt bökunarform og látið bíða í kæli í nokkra tíma. Það er líka hægt að frysta karamelluna í bitum þegar hún hefur náð að kólna og þá er auðveldara að súkkulaðihúða hana.

En svona af því við erum að tala um allskonar góðgæti þá gerði ég ís um daginn úr laktósafríum rjóma, Good good sýrópi og eggjarauðum. Ég sá eina í Lágkolvetna stuðningsgrúppunni á facebook tala um að nota Good good sætuna svo ég prófaði. Ég man ekki hlutföllin sem voru notuð en prófaði að gera úr 4 rauðum og einum pela af rjóma og það kom dásamlega út. Ég notaði svo fyrst 80 g af Good good sýrópinu en fannst aðeins of sætt svo ég prófaði að nota 60 g og það var alveg passlegt.

Hér er því uppskriftin:

Ís, svona ekta gamaldags:

250 ml rjómi, ég notaði laktósafrían, léttþeyttur
60-70 g Good good sýróp, passlega mikið
1/2 tsk vanilludropar
4 eggjarauður
Aðferð:
Þeytið saman sýróp og rauður ásamt vanillunni. Bætið svo varlega þeyttum rjóma saman við og veltið saman með sleif. Hellið í form og frystið. Þetta er nú ekki flóknara en það.
Svo er tilvalið að gera karamellusósu á þennan :) 

Sama uppskrift og hér að ofan en nota 4 dl og lækka hitann þegar sósan er fljótandi gyllt og falleg.

Ég veit að það eru margir búnir að vera að baksa með karamelluna og önnur hver manneskja á lkl búin að prófa svei mér þá. Margar hafa heppnast fullkomnlega, sumar orðið harðar eins og Daim, ég hef ekki náð þeim árangri ennþá en kannski síðar ;)

Einhverjir hafa notað kakó, aðrir ekki, sumir bara borðað þetta beint upp úr pönnunni svo það er allt í boði. Passið ykkur samt að klára ekki skammtinn á einu bretti því sýrópið getur flýtt fyrir "losun" ef svo má að orði komast.

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

María Krista – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!