Páskaeggjaratleikur 2023 - FRÍTT PRENTEFNI.
Allrightyroo.. það er komið að því, páskaeggjaratleikurinn 2023 er kominn út með fríu prentefni og fullt af brasi!
🐣 Takk fyrir að skrá þig á listann til að fá leikinn sendan 🐣
Þetta er þá í þriðja skiptið sem ég bý til páskaeggjaratleik og þar sem árið 2022 datt út vegna þess að það mætti einn sjúklega sællegur páskaungi í heiminn það árið, er ég nú með oggu auka.
Um er að ræða 6 glænýjar vísbendingar með þrautum.
1 aukaþraut OG 12 mynda vísbendingar sem þið getið nýtt ykkur fyrir yngstu krílin!
ATHUGIÐ: Það er ekkert mál að blanda nýja leiknum við þá gömlu og útbúa þarafleiðandi allt að 18 vísbendinga ratleik. Þá finnið þið eldri leikina og prentefnið sem fylgir þeim með því að smella á linkana hér að neðan:
Svo er hér komið að páskaeggjaratleiknum 2023!!!
Þetta er eins og áður, vísbendingar í formi vísna sem við mamma settum saman og þrauta sem fylgir hverri vísbendingu.
Vísbendingarnar benda á 6 svæði sem ættu að finnast á öllum heimilum:
Blómapottur
Ryksugan
Kaffikannan
Spegill
Morgunkornið
Bíllinn
Þið veljið svo algjörlega sjálf í hvaða röð þið viljið gera þetta og hvort þið yfirhöfuð viljið nota allar vísbendingarnar. Það sem er aðalmálið er að velja eitthvað svæði þar sem þið getið falið eggið og ákveðið sumsé fyrst "eggjafelustaðinn".
Það hafið þið sem lokavísbendinguna!!
Svo fléttið þið vísbendingarnar aftur á bak frá "eggjafelustaðnum" og svo afhendið þið leitaranum (leiturunum) fyrstu vísbendinguna og þá ætti allt að ganga upp.
Ég mun útskýra þetta betur aðeins neðar í póstinum!
Það er því nauðsynlegt að prenta út vísbendingarnar á þann pappír sem þið veljið ykkur en ég ákvað að hafa grafíkina einfalda og hægt er að prenta í lit eða svart/hvíta. Blöðin geta einnig verið í lit eða þið getið dundað ykkur við að lita.. ENDILEGA sendið mér myndir ef metnaðurinn rýkur af stað með ykkur, það væri ekkert nema gaman að sjá það og best væri ef þið merkið myndir á Instagram undir myllumerkinu #systurogmakarpaskar
Ég þrífst á þessu brasi og launin mín fyrir vinnuna er að sjá brasbakteríuna smitast yfir á aðra.. að sjá ykkur vesenast við undirbúning á þessu og leitarana kveljast yfir þrautunum er mitt súrefni svo ENDILEGA deilið með mér!! :)
Vísbendingarnar og staðirnir:
Hjá hverri vísbendingu er mynd sem þarf að prenta út. Stundum eru fleiri en ein og stundum þarf að gera aðeins meira en bara prenta..

Þessi vísbendingin vísar í BLÓMAPOTTINN
Hér þarf að klippa út hringina og gera gat í miðju doppuna. Hægt er að þræða bandi í gegn og vera með tölu á endanum. Hægt er að nota svona gullpinna með spíssum (sjá á mynd). Eða einfaldlega stinga teiknibólu í gegn og td í strokleður. Svo snýst þetta um að snúa hringjunum þar til þeir passa saman og hægt er að lesa vísuna.

Myndina hér að ofan getur þú vistað og prentað út.

Þessi vísbendingin vísar í RYKSUGUNA.
Hér þarf einfaldlega að prenta út meðfylgjandi blað en þar má finna mynd af QR kóða. Til að finna þrautarvísuna sjálfa þarf að skanna QR kóðann með símanum en það er gert með því að opna myndavélina í símanum, ná fókus á QR kóðanum, þá poppar upp linkur með mynd af viðkomandi vísu.
(ATH: Ef þú vilt ekki nota QR kóða fítusinn þá set ég hér bæði inn prentefni fyrir QR kóða vísbendinguna sem og vísuna sjálfa sem finnst á linknum. Ef þú vilt sleppa QR kóðanum þá einfaldlega felurðu vísuna hér á neðri myndinni og lætur það duga :)
þá meina ég á gólfum?
Hugsunarlaust í hana næ
ef hellist úr einhverjum hólfum.


Myndirnar hér að ofan getur þú vistað og prentað út.

Þessi vísbendingin vísar í KAFFIKÖNNUNA:
Hér þarf að prenta út blaðið og klippa eftir línunum. Þetta er einfaldlega púsl sem þarf að setja saman og raða ljóðlínunum í þá röð sem litlu tölurnar segja til um.. ein svona einföld og góð ;)
Brúnar baunir, baunaduftbest á morgni hverjum.
Telst mér þetta gæti þurft
til að forða erjum.

Myndina hér að ofan getur þú vistað og prentað út.


Þessi vísbendingin vísar í SPEGILINN:
Hér þarf að prenta út tvær blaðsíður. Venjuleg prentblöð eru fín (ekki nota karton eða of þykk blöð) því hugmyndin er að setja blöðin saman og bera upp að ljósi eða glugga til að lesa í gegn.ATH. Það er vel hægt að fela blöðin á sitthvorum staðnum á sama svæði eða búa til einhvað auka vesen í kringum þetta til að ná seinna blaðinu. (magaæfingar, hlaupa í kringum húsið eða hvað sem er bara..)
Spegill, spegill herm þú mér
hver á landi fegurst er
ef til vill er einhver hér
upplýsandi elsku þér.


Myndirnar hér að ofan getur þú vistað og prentað út.
Þessi vísbendingin vísar í MORGUNKORNIÐ:
Þessi er skemmtileg! Hér þarf að útbúa svokallað "kóðahjól" það gerir þú með því að prenta út hringina tvo og festa saman í miðjunni.
(Eins og í vísbendingunni hér að ofan er hægt að þræða bandi í gegnum götin í miðjunni og vera með tölu á endanum. Einnig er að nota svona gullpinna með spíssum (sjá á mynd). Eða einfaldlega stinga teiknibólu í gegn og td í strokleður.)
Svo snýst þetta um að leysa dulmálið. Fremst í setningunni er "lykilinn" sem fylgir hverri setningu.
Dæmi: Fyrsta setningin er leyst með lyklinum SR. Þá setur maður bréfaklemmu á stóra hringinn við stafinn S og snýrð svo hringnum þar til R er beint fyrir neðan. Nú má ekki snúa hringjunum til að leysa ruglið.
Nú er lykillinn fastur (í þessu tilviki er lykillinn SR) og þá geturðu skoðað orðin og stafina. Fyrsta orðið í fyrstu setningunni er HÓUU og ef þú horfir nú á hringina tvo og finnur H í smærri hring sérðu stafinn beint fyrir ofann, G, þá er það fyrsti stafurinn. Finndu svo stafinn Ó í smærri hring, þar er O beint fyrir ofan. U í minni hring er T í stærri hring sem þýðir að fyrsta orðið er GOTT...
Svona leysir þú fyrstu setninguna.
Þegar þú ferð svo að leysa setningu tvö þá sérðu að lykillinn breytist. Þar er hann GA, sem þýðir að þú þarft að setja G í minni hring og A í stærri hring saman, festa aftur með bréfaklemmunni og leysa núna næstu setningu. Þegar allt er leyst sérðu ljóðið og er það eins og þetta:
Gott er þig að grípa tilgleður korn í býtið.
Í því hreint ég ekki skil
ef þú færð þér lítið.

Myndirnar hér að ofan getur þú vistað og prentað út.
Þessi vísbendingin vísar í BÍLINN:
Hér þarf að prenta út tvö blöð. Annarsvegar vísbendinguna og hinsvegar gogginn sem að leysir þrautina.
Hægt er að brjóta gogginn fyrst fyrir þann sem leitar (ég mæli með því) eða láta leitarana brjóta gogginn líka. Ég held að það sé of einfalt að leysa vísunar ef hún er ekki brotin og skemmtilegra að finna tilbúinn gogg til að leysa ;)
Svo eru númer á vísbendingunni sem að passa við númerin í goggnum, það þarf að finna viðkomandi tölur til að raða vísunni rétt saman og þegar það er komið er vísan svona:
Opel, Astra, Peugeot, Porce
algjör sómatæki.
Ef þau ekki auðnast oss
Einhverju öðru ég æki.
Myndirnar hér að ofan getur þú vistað og prentað út.
AUKA VÍSBENDING:
Þessi vísbendingin vísar í HUNDINN (eða eitthvað sem tengist hundi).
Þessi vísbending er smá auka.. hugmyndin er að fela svo næstu hjá eða "á" hundinum.. það getur verið heimilishundurinn, hundabæli, hundamatur eða einfaldlega hundastytta.. bara eitthvað sem tengist "hundi" þar sem myndin sem birtist þegar verkefnið er leyst er af... "you guessed it".. HUNDI! :)
Þetta segir sig svolítið sjálft.. það er doppa sem merkir fyrsta punkt og svo fylgir maður uppskriftinni á blaðinu: strikar 4 ramma til hægri, 1 ská niður, 1 beint upp, 1 ská upp til hægri og svo framvegis þar til myndin er komin.
Myndina hér að ofan getur þú vistað og prentað út.
Hvernig fléttum við leikinn rétt?
Þá er bílavísbendingin (goggurinn) síðasta vísbendingin sem "leitarinn á að finna".
Þá er einfaldlega þitt að velja hvernig þú vilt raða niður restinni af stöðunum og þetta getur farið eftir því hvernig heimilinu er upp raðað.. viltu að "leitarinn" fari fram og til baka á milli rýma eða nokkuð skipulagt á milli..
og að lokum felurðu hjá morgunkorninu vísbendinguna sem vísar í (6) bíllinn (goggurinn) og það er þá loka felustaðurinn þar sem eggið ætti að vera falið!
Inní þetta er auðvelt að blanda hinum leikjunum og lengja eða flækja að vild.
Myndaþrautir fyrir yngstu krílin:
Hér koma svo 12 (þær urðu reyndar 14..) myndir af stöðum sem hægt er að nota til að fela næstu vísbendingar. Þessar myndir er tilvalið að prenta út, eins fáar eða margar og þú vilt. Það er hægt að fela þær eins og þær eru og nota svo til að lita. Eða klippa niður og útbúa þannig púsl svo það er smá þraut sem fylgir hverri vísbendingu og þú klippir þá bara eins flókið eða einfalt og hentar hverju og einu barni.
Einfalt og myndrænt!
Þegar þú raðar upp þessum leik er best að gera það líka öfugt.. þú byrjar á að velja einn af stöðunum sem einhver myndin hér að neðan vísar í og notar þann stað sem eggjafelustaðinn.
Segjum til dæmis að eggið verði svo falið inní ísskáp, þá hefurðu ísskápamyndina sem loka vísbendinguna. Svo fléttarðu þig aftur á bak.
- Þú felur myndina sem vísar á ísskápinn til dæmis í rúminu.
- Myndin sem vísar í rúmið felurðu í hnífaparaskúffunni.
- Myndina af hnífapörunum felurðu hjá píanóinu.
- Myndina af píanóinu felurðu í þvottakörfunni osfrv.
Eins lengi og eins margar og þér hentar þar til síðasta myndin er sú mynd sem þú afhendir barninu til að byrja að leita.
Takk fyrir að deila þessum pósti sem víðast svo sem flestir geti notið!
Ég er reglulega spurð hvort ég vilji ekki bara selja leikina.. þetta snýst ekki um það, þetta á bara að vera gaman og gleðja! En ef þið viljið þakka fyrir með einum eða öðrum hætti þá þætti mér vænst um að fá sendar myndir eða video af stuðinu á páskadag og endilega tagga "@systurogmakar" á instagram og ef þið birtið myndir á insta að nota #systurogmakarpaskar.
Ég vona bara fyrst og fremst að þið njótið páskanna hvar sem þið verðið með súkkulaðiskegg og kósýtæm!
Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!
Katla – Systur & Makar –
Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!
Hægt er að fylgja okkur á Instagram, Facebook, Pinterest og Snapchat
Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.
SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar