Sítrónusprengja í tilefni sumarsins !

Jæja gleðilegt sumar allir saman !

Það er byrjað að hlýna hressilega í veðri og sumardagurinn fyrsti var dásamlegur. Við systur lágum reyndar mestmegnis afvelta af þreytu allan daginn enda búnar að vera á haus í undirbúningi fyrir hamingjudaginn svo við höfðum veglega afsökun. En ég náði þó að skella í sumarlegu sítrónutertuna milli lúra og kom hún dásamlega vel út. Ég lenti þó í töluverðum vandræðum með að komast yfir sykurlaust Jell-O svo ég útbjó mitt eigið og mun hér eftir nota þá uppskrift. Þá veit ég nákvæmlega hvað er í hlaupinu og þarf ekki að nota aspartame sem er í Jell-O pökkunum. Þannig að þeir sem keyptu uppskriftapakka 4 geta notað þessa viðbót hér til að fullkomna tertuna góðu.

En hér er uppskriftin góða og hana má líka finna í uppskriftapakka nr 4 sem er kominn í verslun sem og á netverslunina. Endilega nælið ykkur í hann því honum fylgir nú kaupauki sem er kolvetnalisti fyrir þá sem eru að byrja á mataræðinu og vilja smá aðstoð við kolvetnatalninguna.

 

Sítrónuostaterta:

Botn:
120 g möndlumjöl  / eða mala möndlur með hýði
30 g brætt smjör
30 g Good good sæta

Fylling:
400 g rjómaostur, reynið að velja kolvetnalágan, 3-4 g í 100g helst
1 peli rjómi léttþeyttur
1 sítróna, börkurinn og safinn
100 g fínmöluð Good good sæta ( mala í nutribullet )

1 msk Flóra matarlímsduft, en má sleppa

Toppur:

1 sítróna, safinn og börkurinn
200 ml sjóðandi vatn
3 matarlímsblöð
1 tsk gulur matarlitur
50 g fínmöluð Good good sæta

Aðferð:

Blandið saman öllu í botninn og þrýstið í springform eða eldfast mót ef ekki á að skera kökuna í sneiðar. Bakið í 10 mín á 180°C. Kælið vel. Rífið börkinn og kreistið safann úr sítrónunni. Notið allan safann í skál með sætunni og rifna berkinum. Hrærið kröftuglega og bætið svo rjómaostinum saman við. Blandið síðast léttþeyttum rjómanum saman við og hrærið vel saman. Hellið þessari blöndu í formið og kælið.

Jell-O aðferð:

Nú er að búa til "Jell-o" hlaupið en það er best að byrja á að leggja matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn. Á meðan rífið þið niður börk og kreistið sítrónusafa í skál, bætið 200 ml af sjóðandi vatni út í ásamt sætunni og matarlit og hrærið vel. Setjið næst rifinn sítrónubörk saman við og veiðið matarlímsblöðin upp og skultið ofan í heita sítrónublönduna. Hrærið þar til matarlímið hefur leyst upp og leyfið að kólna aðeins. Hellið svo hlaupblöndunni yfir ostakökuna varlega svo osturinn fari ekki að losna í kekki. Látið kökuna strax aftur í kæli og leyfið að kólna í 2 tíma lágmark. Þetta er svona terta sem verður betri með hverjum deginum. Mmm njótið.

Þetta er fersk og góð kaka, passlega sæt og súr og bara hreint út sagt æðisleg.

 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

María Krista – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

 

María Krista Hreidarsdóttir

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm