Nokkrar góðar inn í helgina

Jæja nú er helgin að skella á, eurovision, afmæli, árshátíðir og mögulega sumarbústaðaferðir. Eru ekki allir bara peppaðir inn í helgina ? Mig langar að skella hér inn nokkrum uppskriftum fyrir ykkur til að leika ykkur með og gefur þetta smá tilvísun í þær uppskriftir sem verða í næsta uppskriftapakka sem og hér fylgir uppskriftin góða að Monki brauðinu vinsæla. 

Það er ótrúlega gaman að sjá hversu margir eru að feta í fótspor okkar systra í lágkolvetna mataræðinu og snilld að fá myndir frá ykkur af tilraunum ykkar í eldhúsinu. Það er verið að mastera uppskriftapakkana greinilega sem eru nú  líka fáanlegir á www.systurogmakar.com síðunni fyrir þá sem búa erlendis og það er bara allt að gerast.

Við tókum inn nýtt low carb súkkulaði fyrir þá sem hafa ekki tíma í konfektgerðina og vilja fá súkkulaði með sætuefni sem raskar ekki blóðsykrinum og já það er bara nóg að gera hjá okkur. Við elskum orkuna sem við fáum með því að borða rétt og taka inn meiri fitu en kolvetni. Ég mæli með að þeir sem vilja fara "all in" og prófa keto mataræðið af fullum krafti að kíkja á www.habs.is og skoða námskeiðið sem er í gangi hjá honum Gunnari Má. 

En að uppskriftunum, ég vil byrja á að setja inn uppskrift af ljósu brauði sem hefur fengið mikla athygli en það er að mestu leiti úr próteindufti og eggjum, ásamt rjómaosti og er dásamlega gott. Svo bæti ég við kjúklingarétti sem sló svo sannarlega í gegn á heimilinu og var samt bara búinn til úr því sem í ískápnum. 

Ljósa brauðið:

330 g rjómaostur
55 g smjör
4 egg
1 tsk sæta
60 ml rjómi
60 ml ólífuolía
130 g whey prótein, Nectar bragðlaust (kolvetnalaust) eða prótein frá Now bragðlaust, (kolvetnalétt)
1/2 tsk salt
1/3 tsk matarsódi
1 tsk xanthan gum
2 1/2 tsk vínsteinslyftiduft

Kveikið á ofni og hafið hann stilltan á 160 gráður með blæstri.
Hitið rjómaostinn og smjörið í örbylgjuofni í 1 -2 mínútur, blandið eggjum olíu og rjóma saman við og þeytið með töfrasprota. Blandið nú öllum þurrefnum saman og hellið út í ostablönduna og hrærið saman varlega með sleif. Hellið í smurt form og bakið í um það bil 40 mín. Brauðið lyftir sér vel svo endilega nota rúmt form eða 2 minni form.

Það má leika sér með þetta brauð, bæta ólífum út í, hvítlauk, rósmarín og þessvegna baka í ofnpotti svona úr IKEA og þá er það tilvalið sem súpubrauð, bara muna að smyrja vel að innan.

 

Svo er líka hægt að baka brauðið í silikonformi og þá verður það bara eins og hefðbundið formbrauð. Gott bragð af því og ristast vel.

Hér er svo uppskrift af kjúklingarétti sem ég gerði úr afgöngum 

Kjúlingur í chilli og fetasósu.

4 bringur
klípa af smjöri, ekki spara það
1 tsk hvítlauksmauk eða hvítlauksrif 2-3 stk
1 msk minced chilli mauk ( blue dragon )
2 - 3 msk tómatsósa, Felix með stevíu
2 msk tómatpúrra
1/2 krukka Fetaostur
1 dl rjómi má nota meira
1/2 askja sveppasmurostur
pipar og salt

Steikið bringur (gott að skera þær í tvennt eftir endilöngu) upp úr smjöri og hvítlauk, takið til hliðar. Setjið rest af uppskrift á pönnuna og látið malla í smá stund, leggið bringur aftur í sósuna og fulleldið í gegn.
Gott að borða þennan rétt með blómkálsgrjónum og smjörsteiktu brokkolí.

 

Monki brauðið 

1 krukka af möndlusmjöri má vera ljóst eða dökkt

6 egg

2 msk eplaedik

1 tsk matarsódi

2 tsk Good good sæta eða sambærileg

Þeytið allt saman í hrærivél og hellið deiginu í form. Bakið í 40-45 mín á 160 gráðum. 

Þetta er kraftaverkabrauð og ótrúlegt að sjá hvað verður mikið úr litlu. Möndlusmjörið er pínu dýrt en brauðið er drjúgt og dugar vel í ískáp í viku, svo má alveg frysta það líka.

Njótið ykkar um helgina

Ég vona að þetta séu uppskriftir sem þið getið prófað ykkur áfram með. Hafið það rosa gott um helgina. Við systur erum í júrógírnum og komnar með veðbanka í gang á facebook Systur og makar Reykjavík og munum við draga heppinn einstakling út sem veðjar á vinningslagið annað kvöld. Í verðlaun er 20.000 kr gjafabréf svo um að gera að vera með. 

 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

María Krista – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

María Krista Hreidarsdóttir

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm