Left Halda áfram að versla
Pöntunin þín

Það eru engar vörur í körfunni

Viltu bæta við?
2.960 kr 3.700 kr
2.320 kr 2.900 kr

Leiðist ykkur nokkuð elskurnar?

Þetta ár hefur verið heljarinnar rússíbani hjá okkur Hauki og þau eru ófá verkefnin sem við höfum tæklað á árinu hingað til! Nú fer júlí að líða undir lok og stærstu verkefnin eru enn framundan, við gætum ekki verið spenntari!

Bara örfá atriði...

Þetta hófst á flutningum okkar Hauks í ferlega krúttlega íbúð í Hafnarfirði í janúar þar sem við höfum komið okkur vel fyrir, vitandi þó að þetta var aðeins tímabundin leiga. Þetta gerist í framhaldi af fósturmissi og svo í beinu framhaldi jákvæðu þungunarprófi, svo árið fór heldur betur hressilega af stað! (ég fer nánar yfir það hér). 

Þá réðumst við í flutninga á saumastofunni úr Síðumúla 32 þar sem hún hefur verið til húsa síðustu 8 ár.

Hún var flutt í Síðumúla 21 þar sem verslunin Systur&Makar hefur verið síðustu ár en ég hef nú tekið alfarið yfir rekstur á versluninni þar sem María og Börkur hafa snúið sér að öðru. (Ég fór einmitt yfir það allt saman hér).

Saumastofan er ss komin í sama rými og verslunin sjálf sem er mikil hagræðing á öllum rekstri og vinnuumhverfi. Okkur líður dásamlega vel hér öll saman og hreinlega elskum að geta unnið undir sama þaki sem og veitt kúnnunum okkar enn betri þjónustu en áður.

Það þurfti að sinna Covid málum sem allur heimurinn hefur mátt eiga við saman og þar vorum við auðvitað ekki undanskilin. Það getur verið ansi erfitt að standa í hörðum mótbyr í eigin rekstri og máttum við hafa okkur öll við að halda velli. En með samstöðu duglegra samstarfsfélaga og skilningsríkra kúnna gekk þetta vonum framar og þökkum við ykkur öllum fyrir auðsýnda velvild í okkar garð! 

Væri þá ekki ráð að slaka bara á í svolitlu sumarfríi með fjölskyldunni?

Jú, við hjúin skelltum okkur með krakkana hans Hauks í viku ferðalag til Hornstranda þar sem við eyddum dásamlegum dögum saman í undurfagurri náttúrunni. En við fengum einnig að upplifa appelsínugula viðvörun um hásumar og ég þarf að skrifa sér pistil um þessa stórmerkilegu ferð von bráðar!

Þá er það næsta og þetta gerðist heldur betur hratt!

Í miðjum núðluspörkum og rekstrarbrasi kom upp í hendurnar á okkur Hauki tækifæri sem við gátum hreinlega ekki sleppt! Við sáum auglýsta íbúð til sölu á draumastað í Hafnarfirði. Það var ekki planið að kaupa neitt strax enda sossum nóg að gera við að skapa taugakerfi og annað sem tengist nýju lífi..

Við stóðumst það samt ekki og fórum strax að skoða, heilluðumst upp úr skónum og gerðum tilboð um leið sem var samþykkt innan við örfárra klukkustunda..

Auglýsingin birtist á þriðjudegi, opna húsið var í hádeginu á miðvikudegi, kl 14:00 gerðum við tilboð og kl 15:45 fengum við það samþykkt! Föstudaginn vikuna á eftir fengum við samþykkt og rúmlega viku eftir það var skrifað undir kaupsamning! Við trúum þessu varla!

Þetta var hreinlega "meant to be"! 

Það slær ekki slöku við hjá okkur en ég held að við fúnkerum líka bara best þegar mikið er um að vera. Við munum fá afhent í síðasta lagi 1. september og núðlan er sett 14. október- allir slakir bara!

Það þarf að taka íbúðina svolítið í gegn sem við þurfum að byrja á núna áður en við getum flutt inn. En svo er planið að græja framtíðarheimilið okkar í rólegheitunum í samfloti við barnauppeldi og áframhaldandi fyrirtækjarekstrur. 

Við verðum því áfram í leiguíbúðinni fyrst um sinn á meðan við hefjumst handa við fyrstu breytingar.. og brjóstagjöf líklega á sama tíma!

En bara svona aðeins til að leyfa ykkur að fylgjast með þessu öllu saman þá koma hér nokkrar teikningar og myndir af slotinu eins og það er núna.

Um er að ræða hús sem var byggt 1952, þá einbýlishús sem síðar var skipt niður. Við keyptum efri hæðina og risið sem og bílskúr (171,5fm)  og rúmlega helming lóðar sem við deilum með nágrönnum okkar á neðri hæðinni.

Okkur langar að halda okkur eins mikið við retró stílinn í takt við byggingartíma hússins en blanda honum þó aðeins við nútímalegra útlit. 

Það sem er svo extra skemmtilegt er að mikið og gott vinafólk okkar á næsta hús svo við erum með samliggjandi garða!

(Rauða svæðið er sameign, geymsla og þvottahús, bláa svæðið er geymsla sem tilheyrir okkar íbúð en við höfum ýmsar hugmyndir um þetta rými!) :)

Ég mun gera mitt besta við að skrifa hér uppfærslur um verkefnin og vinnuna sem er framundan en bendi einnig á Instagram reikninginn "systurogmakar" sem er ansi fjölbreytilegur. Þar er hægt að fá íbúðarbreytingarnar, bullið í okkur Hauki, vinnuna á saumastofunni, nýju hönnunina í versluninni og vesenið í okkur allt saman beint í æð!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Katla  – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Snapchat

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!