#katlaogbirkirferdast Evrópuferðin 2019

Jæja.. það er orðið ansi hreint langt síðan ég skellti í gott blogg.. penninn í mér lagðist í dvala og bara steinsofnaði!

En mér þykir þó vert að skrifa núna þar sem ég var að enda við að ljúka ansi hreint mögnuðu 2 vikna ferðalagi. Vinnubrjálæðingurinn ég skellti mér í frí í heilar tvær vikur og ferðaðist með mínum manni um Evrópu. 

Það var ótrúlega flottur fjöldi sem fylgdist með okkur á Instagram story Systra&Maka þar sem við deildum ferðalaginu með þeim sem vildu koma með. Þessi elska sem er ekki beint vanur því að vera með símann stanslaust í andlitinu vandist ótrúlega vel og var farinn að taka virkan þátt án þess að ég væri að þröngva nokkru upp á hann. Við eiginlega efldumst við að fá öll skilaboðin frá ykkur kæru vinir og þótti ótrúlega gaman að leyfa ykkur að fylgjast með, enda margir að safna í hugmyndabankann fyrir sín eigin ferðalög. Svo það er vonandi að þessi skrif geti hjálpað einhverjum við að plana..

Nú svona nokkur tæknileg atriði áður en þessi heljarinnar pistill hefst..

#1 Við vorum búin að plana enn fleiri gististaði til að byrja með en fækkuðum þeim niður í 4 og notuðum heldur fleiri daga í sömu borg eða í nánasta umhverfi, þetta var mjög skynsamleg ákvörðun!

#2 Við ákváðum strax í upphafi ferðar að reyna að halda utan um ferðina með því að skrifa reglulega í ferðabók. Við pöntuðum okkur Instax Mini 90: Fujifilm instant myndavél (svipar til Poloroid) en þessi fékk ss bestu dómana á netinu. Hana pöntuðum við á Amazon og fengum senda til Kaupmannahafnar þar sem Birkir býr. Vélin ásamt tösku, sendingarkostnaði og 100 myndum kostaði um 30.000.- Þetta var SNILLD! 

  

#3 Planið var einfalt: slaka og njóta og einfaldlega líða áfram og upplifa! Við erum svo heppin með að hafa ansi svipuð áhugamál og höfum ekki mjög gaman að því að eyða miklum tíma í stórum verslunarkeðjum en þeim mun meiri áhuga á handverki og hönnun, arkitektúr og kúltur... jú og MAT þó svo að pistlahöfundur sé vissulega meiri gourmet grís en margir.. Birkir hafði samt nett gaman að því að sjá augasteinana í mér stækka ef ég fann lykt af einhverju matarkyns nálægt og elti það uppi eins og sporhundur!

Svo má ekki gleyma aðal tilgangi ferðarinnar sem var að fara til Slóvakíu í útskrift litla bróður Birkis þar sem hann og kærasta hans voru að útskrifast sem læknar.

Hefst þá ferðasagan..

Ég flaug fyrst til Kaupmannahafnar þar sem við eyddum fyrsta deginum með vinafólki í sól og sumri og miklum hita. Breki og Gúrý eru ss vinir hans Birkis en þau eru að gera ansi skemmtilega hluti. Gúrý starfar sem fatahönnuður og mæli ég eindregið með því að fylgja síðunni hennar á Instagram.

Breki er skartgripahönnuður og skartgripasmiður sem heldur úti Facebook og Instagram síðu. Við fórum í heimsókn á vinnustofuna þeirra og má með sanni segja að þau séu vægast sagt eitthvað það coooolaðasta par sem ég hef hitt.. EVER! Ótrúlega gaman að kíkja til þeirra og sjá aðeins það sem þau eru að bardúsa í Kongens. 

 

Þá var sossum reynt að fara snemma að sofa þar sem flug til Berlínar var snemma morguninn eftir, þetta reyndist erfitt þar sem spennan var mikil en þó... hafðist með ákveðnum þreytu afleiðingum... (crazy on the bus!)

Berlín- Þýskalandi.

Í Berlín hafði ég séð um að bóka gistingu og valdi Mitte hverfið sem heillaði mig uppúr skónum í síðustu ferð minni á þessar slóðir. Ég hefði þó betur gert örlítið meiri rannsóknarvinnu og bókaði gistingu svolítið frá því sem ég hélt að ég væri að bóka enda er Mitte hverfið stærra en ég áttaði mig á.

 

Ég held því að næst vilji ég gista nær Alexanderplatz eða Mauer Park.. Note to self!

Þetta var í fyrsta skipti sem Birkir heimsótti Berlín og mitt annað svo það var sossum nóg að upplifa og skoða. Það eina sem að ég hafði planað var ferð með Berlínunum en ég fór í "Brot af því besta" túrinn þeirra síðast og var virkilega ánægð. Við fengum aftur hann Hinrik sem fór í þetta skiptið með okkur í "Múrtúrinn".

Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á þetta.. ef þið eigið leið til Berlínar; bókið ykkur ferð með Berlínunum! Þetta gefur borginni svo miklu meira vægi enda er hún smekkfull af sögu og stórmerkilegum staðreyndum sem maður áttar sig ekki á án þess að vera hálfpartinn mataður af þeim. Þessir túrar eru líka bara svo snilldar vel skipulagðir, skemmtilegir og fræðandi og gefa manni mikið innsæi í stórfenglega sögu borgarinnar.

Vinur minn frá því þegar ég bjó í Barcelona býr núna í Berlín, svo við mæltum okkur mót í Prater Garten (elsta bjórgarðinum) þar sem við smökkuðum nokkrar tegundir af bjór, pylsur, pretzel og fleira og nutum þess að kæla okkur niður í sólinni og hitanum sem á þessum tímapunkti var yfir 35°C

  

Á síðasta degi var haldið á flugvöllinn en þar höfðum við leigt okkur bílaleigubíl og keyrðum nú með loftræstinguna á fullum krafti til Prague.

Það var ágætt að nota þennan dag til að keyra í loftræstum bíl þar sem hitinn hafði hér náð upp í 39°C. Þetta var ágætt, okkur líður báðum vel í bíl og nýttum tímann til að spjalla, syngja misvel við allskonar tónlist, hlusta á podcast og njóta umhverfisins.

Hvað var þetta með lappirnar á þér Katla?!

Ég var reyndar eitthvað farin að finna fyrir fótapirring strax á fyrsta degi í Kaupmannahöfn sem hafði svo ágerst í Berlín. Ég vissi bara ekkert hvað þetta væri og grunaði sólarexem, en þetta var eitthvað annað. Hér var þetta farið að meiða mig frekar mikið og þrýstingurinn var að drepa mig og kláðinn sömuleiðis, ég var komin með mikinn bjúg og svaf illa á nóttunni. Freaking óþolandi!!

Nú var mál málanna að finna lausn á þessum leiðindarvanda og útrýma þessu rugli! (eða fjarlægja útlimi.. það var farið að koma sterklega til greina líka!)

Með aðstoð Instagram áhorfenda og kærrar vinkonu sem sendi mér greiningu og þar af leiðandi lausn við þessu (þú veist hver þú ert.. takk mikli meistari!) Var þá hafist handa við að halda fótum uppí í loft, kæla með kælisprayi og aloa vera, nota ofnæmislyf, sofa með hátt undir fótum, hvíla á milli gönguferða og í guðs bænum.. reyna að klóra ekki! (það er samt ekki hægt að hlýða því, sorry!) Jú og passa að húðin sé alltaf rök, bera vel af feitu kremi á svæðið því þurrkublettir auka bara vandann! jeeeez!

Ég var ss með eitthvað sem kallast "Hikers Rash" og ræðst helst á konur yfir 50 ára sem eru í sérstaklega slæmu formi... (Þessu hafði Birkir einstaklega gaman að gera grín af, sérstaklega svona í ljósi þess að ég hafði undirbúið mig frekar vel fyrir ferðina með því að herma eftir hamstri í ræktinni til að koma mér í betra form og er jú langt undir fimmtugu.... fjárans pungurinn!) 

Á rúmlega viku var þetta mál nokkurnveginn úr sögunni (YES!!) og þá mátulega kominn tími til að halda heim á leið.. en jæja.. aftur að ferðasögunni..

Prague- Tékklandi.

Birkir hefur heimsótt Prague nokkrum sinnum áður og fann mjög svo dramatískt og skemmtilegt hótel fyrir okkur sem passaði borginni mjög vel. Við vorum ekki mjög langt frá miðbænum en notuðumst þó mikið við Uber á meðan á dvöl okkar hér stóð. 

Æskuvinur Birkis, hann Turner, er hér með annan fótinn og hitti okkur alla dagana til að kynna okkur fyrir borginni meira svona "local". Hann fór með okkur á geggjaðan pizza stað sem er uppáhaldið hans og pizzurnar voru svo sannarlega geggjaðar! 

Við skoðuðum Prazky Hrad kastalasvæðið, dáðumst að styttunum á Karlsbrúnni, smökkuðum tékkneskar piparkökur, skoðuðum kirkjuklukkuna á torginu og drukkum þónokkuð af Pilsner Urquell. 

Eins hittum við fleiri vini Turners sem fóru með okkur á vegan veitingarstað sem kom skemmtilega á óvart, í bjórgarðinn þar sem við horfðum yfir borgina og kynntumst rólegheitalífinu í Prague.

Við fórum í afþreyingargarð sem heitir Zluté Lázné sem liggur við Moldá. Þar gátum við leigt lítinn mótorbát sem við sigldum á upp og niður ánna og skoðuðum litlu bátabarina á leiðinni og drukkum í okkur umhverfið. Í þessum garði má finna fullt af veitingarstöðum, strandblak, sund, útibíó, kajaka og ýmiskonar bretti og báta til að leika sér á, boltaleiki og svo mætti lengi telja. Hér er sniðugt að taka frí frá borgarleiðangri og upplifa eitthvað annað, gæti einnig hentað krökkum sérstaklega vel.

Vysehrad kastalasvæðið og kirkjan þar var eitthvað sem heillaði mig hvað mest. Innanhús er hún öll skreytt í blómamyndum í gotneskum og art nouveau stíl. Mögnuð!

Síðasta kvöldið okkar í Prague var svo alveg æðislegt. Það kom upp með frekar stuttum fyrirvara að Turner sem er tónlistarmaður, þurfti að vinna um kvöldið og var að spila og syngja á ægilega krúttlegum ítölskum veitingarstað. Hann bókaði því borð fyrir okkur við hliðina á sviðinu þar sem við sátum úti og hlustuðum á þá taka allskonar coverlög.. hriiiikalega góðir og maturinn, omg.. geggjaður!

Þetta var án efa allra besti maturinn í allri ferðinni! Ekta ítalskur, mjög góð vín, geggjað lemonchello og stemmningin og umhverfið sem og þjónustan algjörlega frábær!

Ef þið eigið leið til Prague þá mæli ég eindregið með þessum stað, sérstaklega þegar það er live music! 

Eftir matinn fórum við saman á svolítið pöbbarölt og ég prufaði dularfulla drykkinn Absynthe sem kemur jú frá Tékklandi... það var upplifun út af fyrir sig! ;)

Kutna Hora- Tékklandi.

Beinakirkjan eða The Sedlec Ossuary í bænum Kutna Hora klukkutíma austur af Prag er alveg ótrúlega athyglisverð og algjörlega þess virði að heimsækja. Þegar ég sá myndir frá þessari kirkju þá langaði mig strax að skoða hana svo við ákváðum að koma þar við á leiðinni frá Prague til Martin.

Ég er í fyrsta lagi algjör kettlingur og frekar mikið myrkfælin, horfi ekki á neinar hryllingsmyndir og á erfitt með allt sem er að einhverju leiti horror eða spooký.. EN þetta var ekki þannig!

Án gríns, það er auðvitað algjör upplifun að koma þangað inn og að vera umkringdur um 40-70 þúsund beinagrindum sem hefur verið listilega raðað upp.. en það er ekki neitt hryllilegt við það. Þvert á móti þá upplifði ég ró og hlýju, fegurð og mikilfengleika í þessu stórfenglega umhverfi.

Ef þið hafið tök á þá mæli ég með því að heimsækja þennan bæ og skoða bæði Sedlec Ossuary sem og annað í þessum fallega bæ. Ég hefði alveg viljað gefa mér lengri tíma hér og skoða meira en við þurftum að halda ferð okkar áfram..

Wroclaw - Póllandi

Wroclaw er 4. stærsta borgin í Póllandi og ég hafði bara ekkert heyrt um þessa merkilegu borg fyrr en við fórum að skoða bestu leiðina til að keyra. Þá var þessi eiginlega bara svona hentuglega í leiðinni fyrir okkur svo eftir örlitla rannsóknarvinnu þá kemur í ljós að hér er bara heill hellingur að skoða.

Í fyrsta lagi þá er borgin guðdómlega falleg og á torginu "Rynek" er hægt að eyða endalausum tíma í að upplifa mannlífið og drekka í sig umhverfið. Arkitektúrinn er svakalega fallegur og algjört augnakonfekt. Hér er einnig mikið um götulistamenn, sápukúlur, bari og veitingastaði og almennt mjög mikið líf.

Annað sem að mér þótti mjög svo merkilegt er að árið 2001 var styttu af dverg komið fyrir í miðbænum. Dvergurinn var tákn hreyfingar sem kallar sig Orange Alternative sem er pólsk anti kommúnistahreyfing sem var stofnuð í Wroclaw. Borgarstjóri Wroclaw fékk svo listamann árið 2005 til að gera 5 dvergastyttur í viðbót til að viðhalda minningunni og skapa einhverskonar hefð, en þær fengu sess á mismunandi stöðum í borginni. Má nú finna yfir 350 styttur á víð og dreif um alla borgina. 

Þarna urðum við Birkir aftur 8 ára og urðum mjööög svo meðvituð um þetta.. þetta var eins og fjársjóðsleit um alla borg og við skemmtum okkur konunglega!

Við fundum skemmtilegan stað til að smakka pólskan rétt sem kallast Pierogi.. það eru dumplings sem eru fylltir með kjöti, grænmeti eða osti og svo soðnir eða bakaðir. (soðnu eru bestir).

Eins fórum við á gamlan bar og gerðum svona heimagerða vodkasmökkun.. en við prufuðum 6 mismunandi vodkategundir.. og í beinu framhaldi gengum við svo upp kirkjuturninn á móti barnum sem er 91,5 metra ár með 264 tröppum.. (og Birkir er frekar mikið lofthræddur!) En við uppskárum magnað útsýni og það rann af okkur við hreyfinguna ;)

Síðasti dagurinn fór í rólegheit og spa þar sem við pöntuðum okkur paranudd. Þá fórum við á æðislegan pizzastað sem við mælum með og tókum svo tvennubíó.. þeas. við fórum í bíó rétt hjá pizzastaðnum sem var á ensku með pólskum texta... og fundum svo hitt bíóið sem er í molli þarna rétt hjá... og fórum aftur í bíó!!

(Við erum bæði kvikmyndaáhugafólk og vorum greinilega orðin svolítið sjónvarps- svelt á þessum tímapunkti..svo þetta kom sér bara mjög vel!)

Glashütte - Þýskalandi.

Við borðuðum morgunmatinn snemma í Wroclaw og tékkuðum okkur út af hótelinu til að keyra til Berlínar aftur. Eitthvað vorum við tímanlega þar sem við vorum í raun alltof snemma á ferðinni svo á leiðinni sáum við skylti sem benti á glerblástur.. og við einfaldlega beygðum útaf! Þessi heimsókn fékk ekki mikið meiri undirbúning en það að við einfaldlega keyrðum í þennan líka krúttlega bæ sem heitir sumsé Glashütte og er þekktur fyrir glerblástur, glervinnslu og úrsmíði.

Við vissum ekkert við hverju væri að búast sem var bara spennilegt. Það fyrsta sem við sáum var ægilega krúttleg verslun með úrvali af sinnepi.. jább.. við þangað!! Eins var hægt að versla reyktan ost, pylsur og geggjað maltbrauð. 

Meðalaldur gesta í bænum var um 75 ára enda var þarna heil rúta með ferðafélagi aldraðra og svo við.. og enginn talaði ensku. Með táknmáli náðum við að kaupa svolítið smakk og villast um bæinn sem reyndist fullur af allskonar galleríum og vinnustofum. -Geggjað!

Við keyptum okkur meðal annars inn á glerblásturssýningu þar sem við fylgdumst með Steinríki (ég sver það.. hann var alveg eins), græjandi glerdýr í sandölum og stutterma (ekki mikið um öryggismál hér). Hann var dásamlegur og hneggjaði eða mjálmaði eftir því hvaða dýr hann bjó til!

Fengum okkur aðeins í gogginn og keyrðum svo á flugvöllinn og skiluðum bílnum.. Þetta var brilliant stopp sem kom sér snilldar vel fyrir okkur, enda fékk handverks og hönnunarperrinn í okkur standandi bóner allan tímann!

Kaupmannahöfn og erfið kveðjustund.

Síðasta daginn fórum við með lítið kolagrill og teppi á Íslandsbryggju þar sem við hittum vini okkar aftur; Gúrý, Breka og gormana þeirra tvo. Við skáluðum og sleiktum sólina áður en ég þurfti að halda út á völl um kvöldið.

Það var algjörlega öööömurlegt að kveðja enda síðustu vikur búnar að vera hreint út sagt æði en þess má geta að ég hefði ekki getað fengið mikið flottara "send off". Dásamlega fallegt veður og "kósýtæm" með yndislegu fólki!

Þetta verður svo sannarlega ferð sem gleymist seint.. enda erum við strax farin að láta okkur dreyma um næsta roadtrip.. kannski næsta sumar?! ;)

Gott er að hafa í huga...

Ef þið eruð að fara að leigja bílaleigubíl, passið að bíllinn sé með leyfi til að fara inn í öll þau lönd sem þið eruð með á planinu.

Passið að kaupa límmiða í bílinn á bensínstöðvum þar sem það á við svo þið séuð með leyfi til að keyra um. Borga rétta tolla og almennt hafa þessi mál í huga svo þið fáið ekki sektir seinna eftir að heim er komið. Best er að googla þetta eða fá upplýsingar hjá bílaleigunni.

Einnig keyptum við sérstaklega góða tryggingu á bílinn og teljum að það hafi svo sannarlega borgað sig. Við fengum allavega 1 ef ekki 2 steina í rúðuna á hraðbrautunum án þess að nokkuð hafi brotnað, en við borguðum þá allavega ekki auka sekt fyrir þetta, eitthvað sem við höfðum alls enga stjórn á.

Athugið að bílastæði kosta.. allsstaðar, hvort sem þau eru við hótel eða hvað svo reiknið það með inn í kostnaðaráætlunina. Þetta var að meðaltali um 10evrur fyrir nóttina.

Hafið réttan gjaldeyri þar sem við á, það var á þónokkrum stöðum þar sem ekki var tekið við kortum svo gott er að vera með eitthvað af þjórfé sem hentar hverju landi.

Við keyrðum 1619km 

Dressin.. hvaða vesen var það?

Ég var alveg ótrúlega spennt fyrir því að fara í þessa ferð löngu áður en ég hélt út á völl að ég undirbjó mig alveg extra vel og saumaði heilan helling af dressum og veseni á mig. Ég lofaði því að birta myndir af öllum ósköpunum og held að ég hafi staðið mig nokkuð vel í því.. hér kemur því svona smá upprifjun af einhverju af þessu brasi..

           

Takk fyrir lesturinn og samfylgdina kæru vinir!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Katla  – Systur & Makar –

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Snapchat

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

Katla Hreidarsdottir

Skilaboð

Katla Hreidarsdottir

cXsqkgaMCTAlwmE

Katla Hreidarsdottir

jIGRyMCZT

Katla Hreidarsdottir

wrgoPNEMZjfHzlVa

Katla Hreidarsdottir

THoFbOWlYKfqR

Katla Hreidarsdottir

txTZKWNRgj

Katla Hreidarsdottir

OJBsqQTjYpAmPNdu

Katla Hreidarsdottir

rGmSivae

Katla Hreidarsdottir

DGrXkIjJv

Katla Hreidarsdottir

hbQYeFlGABWEdSmO

Katla Hreidarsdottir

RzrIPcWGuFdtso

Katla Hreidarsdottir

xlbOKjsLFUP

Katla Hreidarsdottir

UYnFyPpAhcfwQ

Katla Hreidarsdottir

WagxlhwCMEiI

Katla Hreidarsdottir

RPLlpeyjEwUNrvVn

Katla Hreidarsdottir

AGJaZzqRcsQuSfv

Katla Hreidarsdottir

iavBpFwqEGYxf

Katla Hreidarsdottir

siMZpcGoUAVhtr

Katla Hreidarsdottir

ugMLERrYlHc

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm