Hver safnar 550 skóm, sem passa á engan ?

Já maður spyr sig, hver safnar að sér 550 stk af pínulitlum skrautskóm sem enginn passar í og hafa í raun lítinn tilgang ?

Jú amma Bagga gerði það og hér ætla ég að segja ykkur aðeins frá þessari furðulegu söfnunaráráttu hennar elsku ömmu.
Hún amma Bagga var nefninlega safnari af lífi og sál. Hún ferðaðist víða með vinkonum sínum um ævina og fór í bændaferðir og húsmæðraorlof um allan heim.

Á ferðalögum sínum átti hún það til að detta niður á ótrúlegustu safnhluti og þar á meðal "miniature" skó sem leynast greinilega út um allt, (já það er stórmerkilegt hvað er framleitt af allskyns dótaríi um allan heim og það sannast einna best á skóframboðinu.)

Auk þess að safna þessu sérstaka skótauji í öllum stærðum og gerðum þá safnaði hún einnig bjöllum, uglum, skeiðum og fingurbjörgum. Við barnabörnin ólust síðan upp með þá vitneskju að seinna meir myndum við erfa þessi stórmerkilegu söfn hennar ömmu.Ég, María Krista er elsta barnabarnið og frá upphafi var mér tjáð að skósafnið yrði mitt þegar að því kæmi enda stærsta “aðal” safnið hehe, eða það fannst mér í það minnsta. Katla myndi fá fingurbjargirnar, Dröfn fengi bjöllurnar, Sigurjón átti að fá uglurnar og svo koll af kolli. Ég held meira að segja að hún hafi safnað vasahnífum á einhverjum tímapunkti.
Amma Bagga kvaddi okkur þann 1. febrúar 2013 eftir stutt veikindi og söknum við hennar ávallt jafn mikið. Hennar er oft minnst á meðal okkar og er gaman að rifja upp sögurnar af henni og söfnunaráráttunni.Skósafnið fallega varð mitt þegar gengið var frá dánarbúinu og hefur það lúrt í kössum hjá mér síðstu þrjú árin enda óhemju stórt og erfitt að koma því fyrir svo vel sé. ​Okkur hjónum datt í hug núna fyrir jólin hvort ekki væri bráðsniðugt að upphefja fallega safnið hennar ömmu og nýta okkur nútímatæknina í að gera það aðgengilegt fyrir alla sem vildu skoða og dáðst að því. Við höfum því ljósmyndað töluvert magn af skónum góðu sem telja um rúmlega 520 stk en við völdum úr skemmtilegustu eintökin sem enduðu í u.þ.b. 235 myndum. Við höfum sett upp heimasíðu sem við viljum endilega deila með vinum og vandamönnum. og bjóðum ykkur sem viljið að kíkja þar í heimsókn. VIð kynntum þetta verkefni í jólakorti fjölskyldunnar í ár sem má sjá hér.

Hér er slóðin að síðunni góðu fyrir þá sem vilja skoða alla skóna sem voru myndaðir:

www.majabyfluga.wixsite.com/skornirhennarommu

​Ef allir þessir skór gætu talað þá yrðu eflaust merkilegar sögurnar sem þeir hefðu frá að segja og þótt amma hafi sjálf safnað skónum flestöllum þá fékk hún oftar en ekki suma þeirra í gjöf frá ferðalöngum sem hugsuðu iðulega til ömmu Böggu á ferðum sínum ef þeir rákust á litla skó í minjagripabúðum.

 

Eftir jólakortagerð þá var auðsótt að halda aðeins lengra með verkefnið enda komið dágott safn af skóm sem eru skemmtilegir fyrir augað og ég bjó til samstæðuspil úr myndunum sem ég gaf mörgum í fjölskyldunni í jólagjöf og ennfremur setti ég upp plakat með myndum að hátt í 100 skóm sem valdir voru úr safninu. 

 

Plakatið er nú komið í sölu í verslun Systra&Maka en það sómir sér prýðisvel t.d. í forstofunni. Það kemur í svörtum ramma og kostar 7.900.-Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

María Krista – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

María Krista Hreidarsdóttir

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm