Fáðu þér, það eru nú einu sinni jól !

Þú getur nú fengið þér smá !!!

Já ég hef heyrt svona setningar ansi oft, kommon you only live once, og hva.. það er nú einu sinni árshátíð, jólahlaðborð, afmæli, staffapartý, aðfangadagur, gamlársdagur, páskar, sumarfrí, vetrarfrí, útlandaferð, helgi, laugardagur og svo mætti lengi telja. Þetta er ekki spurning um hvaða dagur vikunnar er eða hvaða blessaða hátíð er að ganga í garð. Ef þér líður illa eftir svindl, af hverju þá að fara þangað ? Er það þess virði ? Kannski fyrir suma ... en fyrir mig persónulega þá eru skuldadagarnir svo assgoti leiðinlegir, langir og súrir að ég reyni að standast þrýstinginn í lengstu lög.

Kroppurinn kann hvorki á klukku né dagatal !!!

Á meðan ég get mallað mér eitthvað mjög keimlíkt í eldhúsinu sem lætur magann í friði, heldur orkunni uppi og fær skapið til halda sínu striki þá sleppi ég því að svindla á meðan. Fyrir MIG er það ekki þess virði. Og svo ég vitni í orð Röggu vinkonu nagla sem talar oft um það á fyrirlestrum sínum að líkaminn hafi ekki hugmynd um hvort það sé laugardagur eða þriðjudagur svo afhverju að stilla matarvenjurnar eftir einhverju dagatali.

En hvað sem aðrir velja sér að gera þá er ég er nokkuð lunkin við að finna upp fæðu sem svalar mínum þörfum þegar kemur að veislum og matarboðum. Til að hjálpa þeim sem vilja gera slíkt hið sama þá eru hér nokkrar uppskriftir sem ég ætla að deila með ykkur svona í tilefni þess að aðventan er að detta í garð og freistingar á hverju horni. 

Ég byrja á kjúklingasúpunni sem ég mallaði fyrir smá afmælisboð um helgina. Súpa er snilld þegar von er á mörgum af öllum aldri og það eru flestir góðir með kjúllasúpu, er þaggi. Ég notaði ostaflögurnar frá Olifa í staðinn fyrir Nachos og það var náttúrulega tjúllað gott. Hágæða parmesanflögur, chili og kjúklingur, combó sem klikkar seint. Hér er hægt að versla flögurnar sem eru nú í 80 g pakkningu.

 Súpan dugar vel fyrir 15-20 manns ef meðlæti eins og maisbaunir, já spari, rifinn ostur, ostasnakk, sýrður rjómi og gott lágkolvetna brauð er haft á hliðarlínunni. Góður eftirréttur og kaffi og allir eru sáttir.

Kjúklingasúpa Kristu:

8 kjúklingabringur

2 rauðar paprikur

1 gul paprika

2 rauð chili, annað fræhreinsað en má hafa þau bæði með fræjum ef stemmingin er þannig

2 dósir maukaðir tómatar í dós, MUTTI er t.d. gott merki

3 tsk karrý

2 1/2 l vatn

1/2 líter rjómi

10 sneiðar beikon, má sleppa en gerir gott bragð

200 g rjómaostur

2 kjúklingateningar

6 stönglar sellerí

1 blaðlaukur

2 tsk hvítlauksmauk

10  msk sykurlaus tómatsósa t.d. Felix

salt og pipar

Olifa ostaflögur til að mylja yfir

góð steikingarolía, t.d. Olifa 

Aðferð: 

Steikið bringur í bitum upp úr olíu og takið til hliðar. Svissið næst lauk,beikon,chili, papriku, sellerí og hvítlauk upp úr olíu og látið mýkjast. Blandið kryddum, rjómaosti og vatni saman við og hrærið vel. Bætið kjúklingabitum saman við, smakkið til og að lokum bætið rjóma út í. Leyfið súpunni að malla og þykkjast. 

Þessi er dásamlega góð, passlega sterk og matarmikil. Gaman er að bera hana á borð ásamt, sýrðum rjóma, ostaflögum og rifnum osti. 

Í eftirrétt mæli ég með berjabombunni sem er ótrúlega einfalt að gera:

Það þarf að baka marengs í hana og gott að gera það kvöldið áður.

Berjabomba:

150 g eggjahvítur , best að nota úr brúsa

1 tsk sítrónusafi

1/8 tsk salt

100 g Good good sæta

80 g Sukrin Gold

1 1/2 tsk vanilludropar

Fylling: 

3 dl jarðarber

3 dl bláber

4 msk gróft kókosmjöl

1 plata sykurlaust súkkulaði

Aðferð:

Þeytið saman eggjahvítur, salt og sítrónusafa. Bætið sætunni við og þeytið allt í botni þar til toppar myndast og marengsinn verður stífur. Vanillan fer saman við og næst er að dreifa litlum "klessum" af marengs á bökunarplötu.

Ég mæli með því að baka marengsinn á 150° hita með blæstri í ca 10 mín, lækka í 120 ° í 15 mín, aftur í 100° hita í 15 mín. Slökkvið á ofni og látið marengs kólna. Hann ætti að verða glerharður við það. Látið kólna alveg.

Brjótið niður marengs í eldfast fat, þeytið 1/2 líter af rjóma og dreifið 2/3 hlutum yfir marengsinn. Skerið niður jarðarber og bláber og dreifið yfir rjómann. Þar næst sáldrið kókosmjöli yfir allan réttinn. Bætið nú við restinni af rjómanum í nokkrum doppum og brytjið sykurlaust súkkulaði niður sem toppar þennan sáraeinfalda desert. Kælið og berið fram jafnvel daginn eftir. 

 

Nú ef þetta er ekki nóg til að seðja púkann þá er hægt að skella í kókoskúlur og eiga í frysti þegar gesti ber að garði, eða þegar Rósa frænka droppar inn.

Kókoskúlur:

100 g smjör, mjúkt

1 dl Good good sæta, gott að fínmala í blandara

1/2 dl hampfræ

1/2 dl chia fræ

2 dl malaðar möndlur eða möndlumjöl

1 tsk vanilludropar

2 msk kalt kaffi

2 msk kakó

gróft kókosmjöl til að velta kúlunum upp úr

Aðferð:

Maukið allt innihald í kröftugum blender. Ég nota Thermomixinn minn í allt svona en það má líka nota hrærivél. Kælið allt í klt allavega og mótið svo kúlur úr deiginu. Veltið því upp úr grófu kókosmjöli. Raðið kúlunum fallega á disk, kælið eða frystið. Þessar eru dásamlega góðar með kaffinu.

 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

María Krista – Systur & Makar –
Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!
Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter
Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.
SNAPPIÐ OKKAR ER: systurogmakar

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

María Krista Hreidarsdóttir

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm