Eldhúsbreyting Röggu frænku! Fyrir&Eftir-myndir!

Ég held að þessi breytiþráhyggja og "kósýfactor" séu einkenni sem að renna í blóðinu hjá móðurfjölskyldunni, já og reyndar föðurfjölskyldunni líka!

Við erum allar mikið fyrir að skreyta allt í umhverfinu okkar með fallegum munum, hlýlegum litum og sækjum í notalega lýsingu.

Ég og María systir ólumst náttúrulega upp hjá mömmu og pabba og æskuheimilið var (og er) soldið eins og byggðarsafn. Það er bókstaflega allt stútfullt af munum, smáhlutum, safnhlutum, listaverkum og "drasli" upp um alla veggi! Þetta er vissulega hlýlegt og skemmtilegt en þeir praktísku spyrja sig oft: "já en, hver þrífur þetta svo allt"?!

Þetta náttúrulega lærðu foreldrar okkar af foreldrum sínum og þannig þróast og smitast þessi skreytiþráhyggja í fínustu æðar afkomendanna! Framtíðar krakkarnir mínir enda sjálfsagt í safnasafni..

Allavega.. að máli málanna!

Hún Ragga systir mömmu er sumsé ein af þessum ættingjum sem að fékk skreyti/breytipestina og er nýbúin að taka eldhúsið sitt í gegn. Hún er vissulega fagurkeri fram í fingurgóma og höfum við sýnt ykkur áður nokkur DIY verkefni eftir hana..

sjá hér: (ansi magnaðar breytingar og skemmtilegar hugmyndir!)

Eldhúsið var búið að vera á breytinga planinu í soldinn tíma. Röggu fannst veggurinn frá borðstofunni loka það of mikið af og vildi opna það út í alrýmið.

Ég spurði hana aðeins út í verkefnið og nokkur tæknileg atriði:

Afhverju ákvaðstu að skella þér út í eldhúsbreytingarnar? Hvað var það við eldhúsið sem að truflaði þig.

Mér fannst það of langt og mjótt, fannst það of lokað af og ég vildi endilega opna það út í alrýmið. Það var líka soldið dökkt og ég gat ekki talað við gestina mína. 

Þar fyrir utan var innréttingin orðin gömul og barn síns tíma.

Eins þótti mér slæm nýting á plássinu, áður var borðkrókur og svo annað stórt borðstofuborð í litlu rými sem mér þótti með öllu tilgangslaust og vildi frekar vera með eitt stórt almennilegt borðstofuborð og nýta frekar plássið!

Hvað tók þetta langan tíma?

Synirnir mættu 27. desember með kúbein og rifu niður vegginn og innréttinguna. Svo var þetta gert svona þegar tími gafst, aðeins um helgar í nokkra tíma í senn, svo þetta hefði kannski getað tekið styttri tíma ef að ég hefði tekið þetta af fullum krafti með iðnaðarmenn í 100% vinnu, en þegar svona er gert meðfram almennri vinnu þá sýnir maður óstjórnlega ró og þolinmæði :)

Við kláruðum fyrir ca viku.

Var þetta mikil vinna?

Já, aðallega ryk út um allt og ég er ekki mjög hrifin af því, til lengri tíma getur það orðið þreytandi. En þetta var líka skemmtilegt verkefni sem mér þótti gaman að gera með sonum mínum.

Gastu græjað eitthvað af verkefnunum sjálf?

Jah, ég gat svona hjálpað aðeins til, aðallega verið handlangari. Svo hannaði ég auðvitað allt sjálf með aðstoð yngri sonarins, arkitektsins og ákváðum við þetta svona í sameiningu. 

Þurftirðu marga fagaðila við verkið?

Við fengum inn pípara í kannski 4 klst og rafvirkja sem kom nokkrum sinnum eftir því sem verkið þróaðist. Synir mínir eru þó algjörir snillingar og græjuðu bæði niðurrif og smíðar fyrir mömmu sína!

Það er þó gaman að benda á það að innréttingin átti hellings tíma eftir og endaði í bílsskúr í Hveragerði þar sem hún fær að lifa í einhver ár í viðbót.

Hér má einnig taka það fram að það var heljarinnar vinna við að flytja alla slökkvara og tengla sem voru í veggnum sem við fjarlægðum. Þá settum við á útvegginn svo við þurftum að fræsa úr veggnum fyrir leiðslum og snúrum, þetta var svona verkefni sem tók soldinn tíma, það má ekki gleyma tæknilegu atriðunum þó svo val á innréttingum og efnisvali séu skemmtilegust, þetta skiptir allt máli!

Kertakerin fékk ég hjá Systrum&Mökum.

Hvaðan er nýja eldhúsinnréttingin?

IKEA, klæðningin/frontarnir heita BODBYN og höldurnar eru einnig úr IKEA ásamt ljósunum fyrir ofan vaskinn.

(Þessi dásemd er eftir Pálu vinkonu Röggu en hún er alltaf að dúllast í svona skemmtilegum verkefnum, óframfærin listakona þessi elska!)

Takið hér eftir klæðningunum sem eru notaðar framan á eyjuna, skemmtileg og rómantísk lausn!

Hvaðan er borðplatan?

Hún er úr Fanntófell.

Hvaðan eru flísarnar?

Þær eru úr Álfaborg.

(Brettin og krukkurnar fékk Ragga á sínum tíma í Rúmfatalagernum).

(Stóra stundaglasið fékk hún í London og karfan þar hægra megin við er frá Systrum&Mökum).

Hvar fékkstu hillurnar?

Já það er saga að segja frá því! Ég keypti borðstofuborðið í ILVU á sínum tíma og það var alltof langt svo ég lét saga af sitthvorum endanum og nýtti þá sem hillur. Hilluberana fékk ég í IKEA og þetta smellpassaði svona líka vel þarna á vegginn!

Hver fannst þér vera mesta breytingin?

Það að opna eldhúsið, það birti svakalega yfir öllu og stækkaði hreinlega íbúðina! Mér þykir þetta líka mun þægilegra í umgengni og ég get nú rabbað við gestina mína, fylgst með barnabörnunum og heyrt/séð á sjónvarpið! Allt annað líf!

Finnst þér ekkert vöntun á meira skápaplássi þar sem efri skáparnir fóru?

Nei, nú er ég í raun með meira skápapláss. Þeir efriskápar sem eftir eru ná alla leið upp í loft og þar sem borðkrókurinn var er ég komin með stóran búrskáp fyrir alla matvöru og svo er ég með mun meira skúffupláss í eyjunni eftir að ísskápurinn færðist yfir á hinn vegginn. Ég græddi því heilmikið og rýmið nýtist allt mun betur!

Nú veit ég að lýsing skiptir þig miklu máli, hvernig leystirðu þau mál?

Þegar veggurinn fór var sár í loftinu, svo Hjalti, yngri sonurinn, smíðaði stokk eða ljósakappa í loftið sem að rafvirkinn notaði svo fyrir innfelld halogen ljós. 

Þetta varð heljarinnar vinnuljós og þau eru svo auðvitað á dimmer, eins og ljósin yfir vaskinum svo ég get gert ofsalega notalega birtu í skammdeginu og leyft kertaljósunum að njóta sín.

(Þessi dásamlegi kassi er af götumarkaði Portobello Road í London.. svona gerir Ragga.. kaupir sér allskonar dót erlendis og burðast svo með þetta heim!)

(Beljuna fann hún á flóamarkaði í Amsterdam fyrir mörgum árum!)

Ef þú værir að fara í þetta verkefni aftur á morgun, myndir þú gera eitthvað öðruvísi?

Nei, ég vissi í raun nákvæmlega hvað ég væri að fara útí og vissi hvað þyrfti að gera. Það eina sem ég þurfti í raun að læra var að hafa góða þolinmæði þegar maður er háður vinnu annarra. En ég er auðvitað á sama tíma mjög þakklát sonum mínum og þá sérstaklega honum Hjalta mínum sem var mest í þessu með mér. Hann sýndi mér einstaka þolinmæði og mikinn skilning!

Ég er svakalega ánægð með útkomuna og gæti ekki verið sáttari!

(Stjakarnir eru eftir Maríu Ólafsdóttur leirlistakonu).

Er eitthvað annað sem þú mælir með?

Ég get allavega óhrædd mælt með því að opna svona lítil rými, það stækkar allt! Ég ákvað að hafa fúguna koxgráa til að tóna við borðplötuna og það þykir mér hafa komið einstaklega vel út. Ég er mikill aðdáandi Fixer Upper þáttanna og það kom klárlega innblástur þaðan, svona Magnolia - subway flísa - viðar - country - hlýtt!

Svo ég mæli með þeim þáttum til að fá innblástur og hugmyndir fyrir þá sem eru hrifnir af svona looki.

Við óskum Röggu innilega til lukku með nýja eldhúsið sitt en okkur þykir útkoman frábær og bíðum eftir boði í hvítvínssull við nýja eldhúsborðið! (bara veist af því frænka! ;)

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

sem og á SNAPCHAT: "systurogmakar".

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

Katla Hreidarsdottir

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm