Breskir gamanþættir- þeir tala sama húmorinn og Íslendingar!

Í alvöru, það er soldið svolleiðis.. eða mér finnst það allavega!

Ég er frekar veik fyrir sjónvarpi og á það til, ókei geri það kannski bara nokkuð reglulega, að liggja eins og klessa og horfa á imbakassann tímunum saman.

Þegar ég ætti þá sjálfsagt að vera að gera eitthvað mun gáfulegra eins og lesa gefandi og þroskandi bók, græja hollt nesti skv Pinterst fyrir vikuna, klifra eitthvað fjall eða álíka "hollt fyrir mann"!

(María systir er líka sjónvarpssjúk og mér líður einhvernveginn betur með að henda henni fyrir gagnrýnisbílinn með mér...)

Ég er eiginlega alæta á sjónvarpsþætti og nú fussa líklega margir og sveia, en já ég hreinlega ELSKA raunveruleikaþætti! 

Survivor trónir þar á toppi, Project Runway, RuPaul's Drag race, Bachelor, Bachelorette og vissulega Bachelor in Paradise. Algjörlega.. við erum að tala um gæða stöff hérna! Förðunarþættir eins og Face Off, Skin Wars og Skin Wars- Fresh Paint. Matreiðsluþættir flestir fyrir utan Hell's Kitchen því mér finnst hann Ramsey bara aðeins of reiður út í lífið, Bake off og Ástralskir kokkaþættir eru bestir. Hönnunarþættir: Já vinkona og þá helst Fixer Upper, sakna reyndar ægilega bresku "Changing rooms" því það var alltaf jafn magnað að sjá þá velja saman liti eins lillablátt og pissugult og skreyta svo allt með álpappírshúðuðum ljósakrónum og hjólbörðum og allir æjuðu og óuðu: BEST Í HEIMI!

Storage Wars: já klárt mál: ég horfi á klikkhausa eins og mig með "fetish" fyrir drasli, bjóða í það pening og henda svo öllu á sorpu nema einum hlut og græða svo kannski á því 100$ það er MASSA gott efni! 

Ég átti líka mitt tímabil með The Bad Girls Club og Kardashian systrum en það er farið út fyrir öll velsæmismörk.. (fylgist samt alveg með þeim á insta og svona.. ég er ekkert alveg "out of it"!)

Leiknir þættir, algjörlega og reyni ég nú að gefa þeim flestum séns.. nema hrylling, hann get ég ekki.. 

Og það besta er: breskt efni!

Nú erum við gamla komnar í nútímann loksins og búnar að græja AppleTV, komnar með Netflix og Hulu og ég veit ekki hvað og hvað félagi!

Þar má sumsé finna nokkra dásamlega góða þætti og langar mig að nefna nokkra góða sem ég held að ef þið eruð ekki búin að sjá, gefið þeim þá séns. Þeir eru kannski ekki allir á Netflix eða Hulu.. en það á alveg að vera hægt að finna þá einhversstaðar ;)

Miðað við upptalninguna hér að ofan sjáið þið það líka sjálf að ég er með klassasmekk og þið getið því algjörlega treyst mér í þessum efnum:

Smellið á myndirnar til að lesa meira á IMDB.

Miranda Hart

Ég hafði greinilega bara algjörlega misst af þessum þáttum og byrjuðum við Tóta því á þeim bara núna um daginn. Þetta var eins og að finna óopnaðan pakka af bláum ópal, já ég legg ekki meira á ykkur!

Þvílík gargandi snilld. Hún Miranda er alveg sérstaklega óheppinn einstaklingur, brussuleg, ægilega hávaxin, klaufsk og létt geggjuð og svo hrikalega fyndin að við Tóta liggjum reglulega í kasti! Mæli eindregið með þessari snilld!

Coupling

Þessa þætti sá ég fyrir löngu síðan og horfði á þá aftur og aftur. Það var svo gerð amerísk útgáfa af þeim og ég ákvað að reyna ekki einu sinni við þá. Mér finnst leikararnir frábærir og húmorinn skemmtilega klikkaður. Soldið svona breska útgáfan af "Friends", sama uppistaða í raun.. 3 konur, 3 karlmenn, allir vinir, sumir að slá sér upp, hittast á pubbnum þar sem þau eiga sinn sófa, spjalla, pæla og lenda í veseni saman. 

Plebs

Þessir þættir eru svona þvæla, þetta eru 3 bjánalegir vinir sem að eru að klifra metorðastigann og reyna að halda vinnunni, íbúðinni og finna sér kærustur... allt í Róm til forna. Mér finnst þeir mjög skemmtilegir og mesti bjáninn er þessi lengst til hægri sem er bara algjörlega dásamlegur!

Secret Diary of a Call Girl

Þessir þættir voru gerðir eftir frægu dagbókinni "Belle de Jour". Hún var bloggari og gaf svo út bók og í framhaldinu voru þessir þættir gerðir. Belle de Jour fjallar um reynslusögur ungrar konu sem vann fyrir sér sem vændiskona í London.

Ég elska þessa þætti og hef horft á hvert season nokkrum sinnum í gegnum tíðina og ef ég get lýst þessu einhvernveginn er þetta soldið svona klúr, bresk útgáfa af "Sex & the city". Ég elska líka Billie Piper sem að leikur aðalhlutverkið og finnst hún alveg brjálæðislega sjarmerandi og skemmtileg!

Bad girls

Það hlýtur bara að vera að "Orange is the new black" hafi fengið slatta af innblæstri héðan!

Ferlega góðir þættir sem fjalla um kvennafangelsi, þeir urðu mjög svo vinsælir í Bretlandi og út komu 8 season hvorki meira né minna.

Við kynnumst bæði sögum fanganna og fangavarðanna sem að leika þetta alveg stórvel! Horfði á þessa fyrir ansi löngu síðan og þarf endilega að fara að rifja þá upp. 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

sem og á SNAPCHAT!

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

 

Katla Hreidarsdottir

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm