Erlu perlur fara hamförum í Barcelona!

(Þessi póstur er óttarlega langur enda hef ég frá svo mörgu að segja, ég hvet ykkur því bara til að skoða þetta í nokkrum pörtum, taka pásur inn á milli og láta ykkur dreyma um borgina sem ég elska svo heitt!

Ef þið eruð aftur á móti á leið til Barcelona í nánustu framtíð gæti þessi pistill reyndar komið ykkur mjög vel við ferðaskipulag, en hér má finna linka á hina ýmsu veitingastaði og merka staði til að heimsækja!)

Þá byrjum við þetta..

Amma Erla, mamma mömmu, varð áttræð 10. nóvember 2013 og í september sama ár ákváðum við nokkrar úr kvenlegg fjölskyldunnar að fara í ferð saman til Barcelona til að fagna stóráfanganum! Hópurinn varð í framhaldi af þessari ferð kallaður "Erlu perlur"!

Það getur nú verið meira en að segja það að finna tíma sem að hentar öllum, en það tókst og út var haldið! Ég lærði innanhúshönnun í Barcelona í nokkur ár svo ég tók það að mér að plana ferðina og var hálfgerður fararstjóri fyrir hópinn enda verður að stýra svona skvettum - trúið mér! :)

Hópurinn samanstóð af ömmu Erlu auðvitað, Fríðu (mömmu), Lísu (yngri systir mömmu), og Röggu (yngstu systir mömmu), svo mættum við Tóta, María og Mekkín dóttir Maríu og þar með var hópurinn kominn... að við héldum!

Við bókuðum íbúð fyrir okkur saman í Grácia hverfinu með svolitlum garði og nóg af herbergjum fyrir okkur 8 saman. Við hittumst svo heima hjá ömmu í Hafnarfirði fyrir brottför þar sem var skálað í svolitlu kampavíni, nartað í ber, osta og kex, og ferðin almennt undirbúin. Nú, við vorum búnar að græja skutl á völlinn og á leiðinni fæ ég símtal þar sem Elín, dóttir Lísu segir:

"hérna.. heldurðu að það sé of seint fyrir mig að koma?..ég er búin að hringja og það er laust í vélinni.. má ég koma með!?"

(Þetta er Elín! :)

"Já!!!!".. var svarið enda algjör snilld náttúrulega, svo við drifum í að redda gistingu fyrir hana úti sem reyndist ekkert mál í íbúðinni okkar!

Amma vissi ekkert um leynigestinn og á flugvellinum mætti skottan rétt fyrir flug við mikil fagnaðarlæti svo þetta byrjaði aldeilis vel alltsaman!

Við lentum frekar seint svo fyrst á dagskrá var einfaldlega að finna íbúðina og koma okkur fyrir.

Daginn eftir var aftur á móti planið komið í "action"! Það var byrjað á því að fara á markaðinn til að versla morgunmat og hér var ég "komin heim"!

Þetta er eitt af því sem ég sakna hvað mest við Barcelona, að versla í matinn á mörkuðunum. Það er svo geggjað að rölta um og hitta framleiðendur og sölumenn, kaupa niðurskornar skinkur í úrvali eins þykkar eða þunnar og okkur hentaði, brauð í úrvali og egg af eggjabóndanum. Ávaxtabændurnir eru sér á báti og keppast um við að eiga flottasta básinn! Það sem er í boði er það sem er fullþroskað hverju sinni, á sinni árstíð svo gæðin voru í samræmi við það! 

Caprese salat með alvöru mosarella di Bufala! ahhhhh ég var búin að bíða lengi eftir þessu!

Þetta leystist náttúrulega upp í vitleysu og hlaðborðið varð drekkhlaðið af kræsingum sem var eiginlega ekki hægt að klikka á svo þetta breyttist "med det samme" í hefð sem við héldum alla morgnana! Ég var vægast sagt mjög ánægð með það!

(Þetta kallast "pan con tomate" sem er samsetning af hvítlauk, tómötum (frekar ljótum og vel þroskuðum), ólívuolíu og salti. Hér er smá uppskrift að þessu til að gera heima, ekki réttir tómatar reyndar en nokkuð nálægt því :)

Þar sem að hnén á ömmu eru ekki alveg í toppstandi, tókum við hjólastólinn með og skutluðumst með hana um alla borgina, þetta var lítið mál þar sem virðing við hjólastólana er mikil og við græddum aldeilis á því þar sem okkur var svoleiðis skutlað fremst í allar raðir og biðtíminn eftir öllu fór frá því að vera kannski 40-50 mínútur í ekkert! Kom svona líka skemmtilega á óvart!

Eftir morgunmatinn var því tilvalið að hefja gönguna um Grácia hverfið, gamla hverfið mitt, þar sem við fundum litlu göturnar með föndurbúðunum og einn af uppáhaldsbörunum mínum þar sem við skáluðum í Clöru. (Clara con Limón er blanda af Fanta Lemon og bjór, ofsalega frískandi og góður drykkur sérstaklega í miklum hita!)

Því næst röltum við niður Passeig de Grácia þar sem við tókum myndir af húsunum eftir Gaudi, ótrúlegur listamaður sem er auðvitað algjör skylda að kynna sér ef þið eigið leið um þessa mögnuðu borg!

Við enduðum á því að borða á svolítið skemmtilegum veitingarstað sem heitir Mar de Cava. (Hér er hann á Trip-Advisor). Þetta er í raun sambland af veitingastað og hönnunarverslun, mjög flippaður staður, bjartur og fallegur! Í bland við marga merka listamenn og hönnuði man ég að ég sá td hálsmen frá Júniform í sölu hér, það kítlaði vissulega Íslandsstoltið!

Kaktusagarður eða grasagarður.. er mikill munur?

kl: 15:00 hittum við Matthew, vin minn frá Barcelona. Hann hefur oft unnið sem guide í Barcelona og við tókum kláf upp á Montjuic til að fara í Grasagarðinn, (Jardí Botanic de Barcelona). Þetta var soldið fyndið en Matthew ruglaðist greinilega aðeins og fór með okkur í kaktusagarðinn í staðinn sem var alls ekki verra þar sem við mynduðum allt hátt og lágt!

Matthew sagði okkur einnig aðeins frá sögu Barcelona, gamla tímanum og hvernig borgin sameinaðist úr mörgum smáum bæjum í eina stórborg. Hverfin (gömlu bæirnir) eiga sínar hefðir frá gamla tímanum svo borgin er iðurlega með einhverjar hátíðir út um allt sem fara fram í sínu hverfi, alveg eins og það var, hver í sínum bæ í gamla daga! Þetta er merkileg saga sem ég mæli hiklaust með að ferðalangar kynni sér! 

Um kvöldið fórum við að borða á Mexikönskum veitingarstað í Grácia hverfinu sem heitir Chido One. Þetta var einn af mínum uppáhalds stöðum sem lifði því miður á fornri frægð en gæðin voru ekki í sama kaliber og þegar ég naut þess að heimsækja hann. Það kom ekki að sök, þar sem við eyddum restinni af ferðinni í át af ýmsu tagi og eitt svolítið feilspor skemmdi ekki neitt.

Næsta dag lá leiðin í Gaudí garðinn eftir veisluborðið um morguninn. Garðurinn er algjörlega magnað meistaraverk, stútfullt af lífi, tónlistar og sölumönnum á hverju horni og veðrið var auðvitað dásamlegt svo hér var allt pakkað af ferðalöngum enda ómissandi heimsóknarstaður! 

Þá var ákveðið að taka bíla niður í miðbæ þar sem við röltum um gömlu hverfin, hliðargötur Römblunnar. Hverfið kallast Barri Gótic og er eitt elsta hverfi borgarinnar sem og eitt af mínum uppáhalds svæðum. Þar er maður endalaust að finna nýja og nýja dásamlega staði og hliðargötur sem maður hafði aldrei séð áður þrátt fyrir óteljandi gönguferðir!

Hér fórum við í Happy Pills, ferlega skemmtilega sælgætisverslun þar sem hægt er að versla "gleðipillur".

 

"..og hver á svo að þurrka af þessu öllu saman?!"

Einnig skoðuðum við Barcelona Cathedral og við fórum á safnasafnið þar fyrir aftan sem heitir Museu Frederic Marès. Ég hef farið á þetta safn nokkrum sinnum og algjörlega elska það enda mikill safnari sjálf.

Þetta er ss. samansafn af höggmyndum eftir myndhöggvarann Frederic Marés sem og safni hans á ýmsum furðulegum munum. Hann eyddi aleigunni og rúmlega það í vægast sagt ýkta söfnunaráráttu sína. Hann endaði svo á því að gefa borginni safnið sitt sem er nú með það til sýnis í þessu dásamlega húsi.

Þar má finna pappabrúðuhús, heilt herbergi með glerkúplum af þurrkuðum plöntum og skeljaskúlptúrum, heilan helling af lyklum, dúkkum, vasaklútum, postulínsvösum, eldspýtustokkum, vindlabréfum osfrv. osfrv. osfrv. Þetta er rosalegt magn og það fyrsta sem praktísku dömurnar í hópnum hugsuðu auðvitað var: "og hver á svo að þurrka af þessu öllu saman?!"

Í bakgarðinum er einnig bar sem heitir Café d'Estiu og þangað fórum við til að fá okkur Mojito undir sólhlífunum!

Við drifum okkur svo bráðlega heim eftir þetta í sturtur og fíniseringar þar sem planið var að fara flott út að borða um kvöldið! Eftir mikla leit að hinum fullkomna stað við aðstoð Trip Advisor fundum við vinsælan tapas stað sem heitir Sensi bistro.

+Eg man ekki eftir þessum stað þegar ég bjó úti en hann er ææææðislegur! Geggjaður matur, líflegt og hresst andrúmsloft og hér voru tapasréttirnir hver öðrum betri og ekki skemmdi rauðvínið fyrir. Amma átti að sjálfsögðu afmæli á hverjum einasta stað sem við fórum á, enda afmælisferðin hennar, svo hún fékk extra mikið trít, stjörnuljós og vesen á hvaða stað sem við fórum á. Þetta fannst okkur alltaf jafn skemmtilegt og klöppuðum svolleiðis og hlógum og hrósuðum veitingarhúsaeigendunum fyrir yndislegheitin í hvert skipti! (kvikindi getur maður verið.. ;)

Þetta var svona mesta tjúttkvöldið okkar og leyfi ég myndunum að tala sínu máli hreinlega! Þetta er vissulega skrautlegur hópur og þær eru allar alveg sjúklega skemmtilegar svo þið getið rétt ímyndað ykkur hláturrokurnar og fíflaskapinn!

(Þetta var þjónninn okkar.. svolítið sætur svona, hann varð bara að fá að vera með á mynd!)

Daginn eftir var komið að óvissudeginum sem að allir vissu af nema amma: "ferðin til Sigtes".

Við vorum neflinlega búnar að ákveða að halda einn alveg sérstakan svona "afmælisdag" þar sem við fórum snemma á markaðinn að versla í morgunmatinn (það var áður en hún vaknaði og svolítið erfitt eftir stuðið kvöldið áður). Svo klæddum við okkur allar í eitthvað bleikt og gengum í halarófu inn til hennar þar sem hún var vakin með látum, skrauti, kökum og kertum, kampavíni og vitleysu (ætli vínið hafi ekki samt bjargað tilvonandi hausverk sem lét ekkert á sér kræla, þökk sé áframhaldandi stuði..)

Hér var þetta eiginlega bara farið að vera svona "beisik" og það var mjög asnalegt að koma heim og vakna í súrmjólk og Cheerios eða eitthvað álíka leiðinlegt! ;)

Mekkín fann þetta epíska kökuskraut heima áður en við fórum út, svo sjúklega ýkt eitthvað að það passaði fullkomnlega!

(Hér er verið að skoða video frá kvöldinu áður.. shhhh það var svooo gaman!)

Eftir hátíðlegan morgunmat héldum við út í leigubílana og á lestarstöðina þar sem amma vissi ekkert! Við vorum eins gæsahópur með eina áttræða gæs í skreyttum hjólastól, kolruglaða og svolítið ringlaða á öllu þessu veseni í okkur, enn sjokkeruð yfir uppvakningunni sem kom henni svo innilega á óvart með sólheimaglott allan hringinn!

Farið var með lest frá Estacio Sants og lestin stoppaði á Vilanova i la Geltru eða St. Vincenç de Calders (Horfa eftir þessum merkingum til að stoppa). Við fórum sumsé í ferð í nágrannabæ Barcelona sem heitir Sitges. 

 

Sitges er oft kallaður "hommabærinn" en þar býr mikill fjöldi homma, ég veit þetta hljómar fáranlega en þetta er í alvöru svona. Hann er sérstaklega snyrtilegur og ströndin er dásamleg með allt öðruvísi sandi en í Barcelona.

Eins og beljur að vori þegar þær sáu sjóinn!

Eins er Sitges þekkt fyrir kvikmyndahátíð sem haldin er snemma í október og Carnival hátíð sem og Gay Pride hátíð sem er sérstaklega stór í þessum bæ. Þar má einnig finna æðislega kirkju og sérstaklega fallegan kirkjugarð sem að "ferðastjórinn ég" var búin að plana að taka hópinn til að skoða. 

Það var þó ekki á dagskránni hjá þeim þar sem þær voru eins og beljur að vori þegar þær sáu sjóinn og óðu útí á fullri ferð, systurnar dönsuðu og fífluðust í sandinum og í staðinn fyrir ferðina í kirkjugarðinn (sem leiðinlega ég var viss um að myndi hitta í mark), leigðum við tvo hjólabáta með rennibrautum á toppnum og út var haldið! (Ég mun ekki finna mér nýjan feril í ferðaþjónustu held ég og mun því halda mig við dagvinnuna mína, svei mér þá!) hahahaha!

Þetta var náttúrulega bara alveg klikkað skemmtilegur dagur! 

Við enduðum svo á ströndinni eftir sullið á hjólabátunum og þar fann mamma mann sem var með svona teygju, trampolín eitthvað og skellti sér með barnabarninu Mekkín og Elínu hennar Lísu. Þær skoppuðu því þarna um, unglömbin þrjú en eigandi trampolínsins bað mömmu sérstaklega um leyfi til að fá að birta myndir af henni á Facebook síðunni sinni, enda líklega elsti sem og klikkaðasti viðskiptavinurinn hans fyrr og síðar! Þetta er alveg lýsandi fyrir mömmu og kom okkur svosem ekki beint á óvart, hún er svo skemmtilega klikkuð þessi elska!

Við héldum aftur í borgina þegar sólin fór að setjast og borðuðum steikur á Gaucho'S.

Þar fékk amma að sjálfsögðu afmælisköku og stjörnuljós, eins og í öll hin skiptin og mér tókst á dapurlegri spænsku minni að bulla í þjónunum og sagði þeim dónabrandara við mikinn hlátur hópsins! Þetta var ógleymanlegur dagur og ég mæli eindregið með því ef að þið eigið leið til Barcelona að taka einn dag frá í Sitges. Það er svo gott að komast aðeins út úr ysinu og þysinu í borginni og sleikja sólina á ströndinni í rólegheitunum.

Þetta er einn af þjónunum á Gaucho'S sem okkur fannst svo svakalega líkur Messi að hann varð að vera með á mynd! 

Síðasta deginum var eytt í verslun og svolítið rölt á Römblunni. Litlu básarnir og matarmarkaðurinn: La Bogueria, er eiginlega nauðsynlegt að skoða.

 

Mér tókst líka að draga þær með mér á La Pallaresa sem er einn elsti staðurinn sem býður upp á Chocolate con Churros. Ohhh... þetta þykir mér alveg sjúklega gott! Þykkt, heitt dökkt og beiskt súkkulaði, eiginlega eins og búðingur með þeyttum rjóma og Churros, sem eru í raun djúpsteiktar deiglengjur, frekar stökkar með sykri sem maður dýfir í súkkulaðið. Jöhöööömmm!!!

 

Þetta hljómar kannski ekki mjög vel svona í hitanum í Barce en þetta er bara svo mikið "orginal" sem er svo skemmtilegt að smakka!

Þessi ferð er algjörlega ógleymanleg og ástæðan fyrir því að ég er að segja ykkur frá þessu öllu núna er að við ákváðum að skella okkur í bústaðarferð núna um helgina, sumsé Erlu perlurnar.

Þar rifjuðum við upp ferðina með viðeigandi myndasýningu og hlátri og morgunmatarhlaðborðið var að sjálfsögðu á sínum stað!

Þær eru allar með alveg ofsalega græna fingur og tóku til hendinni í garðinum þar sem ég var meðal annars tekin á hraðnámskeið í garðyrkjufræðum! Mikið magn upplýsinga vall úr þeirra viskubrunni og ég sé eftir því að hafa ekki verið með diktafón stilltan á upptöku allan tímann.. eða allavega glósubók.. en ég hringi bara reglulega elskurnar! Mamma tók líka jarðaberjaplönturnar í gegn og það er allt annað að sjá gróðurhúsið núna.. svo er bara að halda því við!

 

Ég held ég kalli þetta gott, ef þið hafið frekari spurningar um staði í Barcelona þá er velkomið að hafa samband og ég reyni að ráðleggja að fremsta megni! systurogmakar@gmail.com

Annars þakka ég kærlega fyrir lesturinn, þú ert hetja að hafa náð í gegnum þetta allt saman.. þegar maður er að skrifa um svona ótrúlega skemmtilega tíma með allt þetta frábæra myndefni er erfitt að velja úr! 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar -

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

 

Katla Hreidarsdottir

Skilaboð

Katla Hreidarsdottir

Hello Everyone! If you are involved in trading in the financial markets I have something of interest to you. Even if you haven�t been involved in the financial markets and are interested in earning some more money with your free time I have something which may be of interest to you. it�s called AutoBinarySignals!. This is a software system which will help you trade on the Binary Options Market. This is a �Plug-And-Play� system which you can easily set up and have operating in just a few moments.
With the AutoBinarySignals system there are no difficult to understand charts, no baffling analysis, or no complex methods. This is an easy to learn system and you can have it running to earn extra money.

Katla Hreidarsdottir

Frábær lesning (eins og svo oft áður). Var svona að pæla hvort ykkur vantaði ekki stjúpsystur!
Hlakka til næsta lesturs!

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm