Villti Villi og Matargatið.

Hún María mín hefur áður skrifað um Villiketti og starfið þeirra. Þau hafa staðið í ýmiskonar söfnunarátökum með mörkuðum, jólamerkimiðasölu ofl. Þetta er algjörlega magnað umhverfis og dýraverndunarverkefni sem þau sinna með miklum móð og metnaði.

Ég bendi á bloggið hennar Maríu hér sem lesa má nánar um Dýraverndunarfélagið Villiketti:

Mig langar aðeins að monta mig og segja ykkur svolítið af óbilandi dugnaði systur minnar gagnvart einum kisugorminum sem kom nýlega inn í búr til þeirra.

Ég tel að þolinmæðina geti hún að miklu leiti þakkað mér, fiðrildinu systur sinni.. (ekki mjög lúmskt sjálfshól kannski en ég þarf nú ekki mikið...) ;)

Allavega... hér er sagan af honum litla tryllta Villa.

Villi litli kom í búr í Kópavoginum en þau höfðu fengið fregnir af þessum ofurhuga frá starfsmönnum í nokkrum fyrirtækjum í hluta bæjarins sem höfðu séð til þessa rauðhærða prakkara gæða sér á mat ætluðum hröfnum og smáfuglum. Hann var sársvangur og illa farinn enda með frostbitin eyru og skítugur. Hann var ekki allskostar sáttur við búrið og stangaði og lét öllum illum látum fyrst um sinn.

Þau í Villiköttum fóru með hann í geldingu og í leiðinni kom í ljós sár sem hann hafði fengið í vörina, hann var saumaður greyið og átti nú að jafna sig í viku til tíu daga. Það var nú ekki skemmtilegt að hugsa til þess að þurfa að skipta á sandi og gefa þessum kjána að borða því hann hvæsti og stappaði á alla sem dirfðust að ganga framhjá honum.

Daginn eftir aðgerðina tóku þau eftir kúlu á kinninni hans sem var við það að springa hreinlega sem hún svo gerði og var enn og aftur farið með kappann til læknis sem var ekki að nokkru leiti vinsælla en áður. Aftur þurfti að sauma og skermur var settur á kjánaprikið sem og sýklalyf gefin enda sýking í kinn sem hefur líklega komið eftir slagsmál.

Sjúkravistin lengdist og nú sáu þau fram á "skemmtilega" tíma framundan.

María talaði oft um það hversu stressuð hún væri að skipta um sandinn í búrinu hans þar sem hann var til alls vís. Villi er sumsé í húsinu hjá Maríu núna en hún notar Kristu-húsið gamla í garðinum hjá sér sem millibilsheimili handa þessum blessuðu krúttum. Við erum að tala um að þeir eru það fyrsta sem hún hugsar um þegar hún vaknar, gefur þeim að borða, knúsar og kjassar, skiptir um sand og mat og SVO fer hún úr náttfötunum!

Dag einn þegar verið var að sinna kisum í næsta búri heyrist óvænt mal í rauðhærða prinsinum sem allt í einu sá að það var nú ekki svo slæmt að vera kominn inn úr frostinu í 3 máltíðir á dag og í hlýtt rúm. Með dálítilli þolinmæði og þori var lagt í að snerta kappann sem malaði þá bara enn hærra, fyrst með priki með mjúkum enda, því næst rafsuðuhanska og að lokum berum höndum! 

Þetta voru stórir sigrar í hvert skipti sem hún deildi reglulega með mér á snappinu, ég gat því vel fylgst með framförum Villa. Hún heldur nú á honum óhrædd og kjassar í spað, yndislegur appelsínumoli!

Þetta krútt er eftir allt algjör nautnabelgur og er nú farinn að mala áður en búrið er opnað. Hann er enn hvekktur ef ókunnugir ganga fram hjá en um leið og hann fær klappið sitt byrjar malið hátt og snjallt.

Hann óskar þess heitast að fá heimili þar sem hann getur tekið sín fyrstu skref í mannaheimum. (Ég veit þó að María vill helst ekki missa hann en það er held ég ekki í boði að hafa fleiri gorma á heimilinu!) Hann þarf rólegt umhverfi, líklega hentar ekki að hafa ung börn á heimilinu og jafnvel sérherbergi til að byrja með.

Ef einhver er áhugasamur um þennan misskilda strák þá má sá hinn sami hafa samband við okkur hjá Villiköttum. Hann er líklega 5-6 mánaða gamall. 

Fylgist endilega með starfinu þeirra á Facebook síðunni þeirra hér:

Einnig eru þau með heimasíðuna www.villikettir.is

Annað verkefni þessara dugnaðarforka er Matargatið!

Hér má lesa meira til um þessa frábæru hönnun sem þið getið nú rétt getið ykkur til um að er að miklu leiti eftir Maríu og Börk. 

Þessa dagana erum við í VILLIKÖTTUM að vinna í að koma upp matarpóstum fyrir villikisurnar víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Hóparnir og svæðin sem kisurnar halda sig á eru ansi mörg og erfitt er að komast í gjafir á hverjum degi. Fæðið kostar okkur líka heilmikið og biðlum við því til dýravina um aflögu fóður, eða styrk til félagsins í matarkaup sem og í framkvæmd verkefnisins.

Við hönnuðum í sameiningu gjafastaura sem við köllum "MATARGATIÐ" og með aðstoð frá velviljuðum fyrirtækjum þá höfum við safnað efni í 10 staura sem við ætlum að útbúa til byrja með.

Hönnun og framkvæmd frumgerðar var í höndum harðduglegs maka einnar okkar og stakk hann einnig upp á nafninu "MATARGATIÐ". Nefna má að sá hinn sami er með töluvert kattaofnæmi en þó dvelja 5 villingar á heimilinu. Þetta kallar maður að fórna sér fyrir málsstaðinn.

Við þökkum eftirtöldum fyrirtækjum innilega fyrir hjálpina og velviljann. BYKO gaf okkur pípulagnarör í smíðina, Gúmmívinnslan á Akureyri sá okkur fyrir gúmmímottum og Líflandi þökkum við fyrir fóður.

Matargatið tekur um 5 kg af fóðri og er það úr viðhaldsfríum efnum svo líftíminn verði sem lengstur. Gúmmímotta úr hjólbörðum er í undirlagi, plaströr skammtar fóðrið og plasthlífarþak heldur matnum þurrum í rigningunni.

Við minnum alla sem vilja hjálpa kisulingunum á reikningsnúmerið okkar: 0111-26-73030 kt 710314-1790 en betur má ef duga skal.

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

Katla Hreidarsdottir

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm