Óvissuferð með stórskrítnu samstarfsfólki!

Við eigendur Systra & Maka erum svo endalaust þakklát fyrir allt það frábæra fólk sem vinnur hjá okkur. Við erum jú með íslenska framleiðslu þar sem fólkið okkar starfar á saumastofunni okkar, vinnustofunni, skrifstofunni og svo náttúrulega í versluninni á Akureyri og á Laugaveginum.

 

Nú fyrr í sumar réðum við inn 3 nýja starfsmenn inn í verslunarstarfið og var því ákveðið að fara með allt heila klabbið í óvissuferð 1. mai.

Við byrjuðum á því að hittast á saumastofunni klukkan 10:00 þar sem við systur og makar vorum klædd í búninga enda búningaóð og litirnir nutu sín líka svo vel á myndunum!

Allir fengu lista yfir hluti sem þau þurftu að taka með sér:

- vatnsbrúsi
- gönguskór
- sundföt og handklæði
- hlý föt (mögulega vatnshelt, úlpur etc, ekkert eitthvað massa fancy samt).
- kósýgalli er valmöguleiki.
- vegabréf
- súkkulaðistykki

Það grunaði náttúrulega alla að dagurinn yrði því þónokkuð fjölbreyttur, sem hann var en þau þurftu reyndar ekki að nota neitt af því sem þau tóku með sér.. meiri flippkisarnir! ;)

Svo var haldið af stað og leiðin lá út á Reykjavíkurvöll þar sem hópnum var skúbbað úr rútunni og þar biðum við eftir að Abba og Anna María frá Akureyri bættust í hópinn.. við ætluðum voða að gabba þau með því að við værum að fara í flug en það tókst ekki svo það skipti bara engu máli ;)

Allir inn í rútu og við héldum að stað til Keflavíkur.. aftur var spurt: "eru allir með vegabréfin sín"... niii það trúði því enginn heldur, svo við beygðum inn í iðnaðarhverfi þar sem Börkur tók á móti okkur með samlokur og screwdriver (kl 11:00, hressandi). Hann sýndi okkur vinnuaðstöðuna sína og fór yfir verkferlana sem var mjög svo athyglisvert og fræðandi!

Börkur sér sumsé um allan vatnsskurðinn sem felst í framleiðslunni á flestum vörunum frá Kristu Design. Þetta er heillangt ferli sem er að baki hverrar einustu vöru og mjög svo skemmtilegt að fræðast aðeins um það hvernig hver og ein vara verður til frá því einfaldlega að vera hugmynd!

Næst lá leiðin til Þorlákshafnar á kaffihúsið Hendur í Höfn sem er algjörlega dásamlegt!

Hún Dagný sem er eigandi, listakona, gourmet drottning og mikill meistari tók svona líka höfðinglega á móti okkur og sagði okkur frá húsinu sínu. Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt kaffihús og handverksaðstaða þar sem meðal annars eru haldin glernámskeið sem og annarskonar handverksnámskeið. Umhverfið er yndislegt, hún er yndisleg og þjónninn er náttúrulega bara sætari en allt sætt! Trúið mér, hann sló virkilega í gegn!

"Jú jú, segir Dagný, ég græja eitthvað alveg spes fyrir ykkur"...

Svo var þarna sest að borðum og María sem kannast nú aðeins við hana Dagný hafði verið í sambandi við hana áður þar sem við spurðum hvort við gætum ekki fengið svona léttan brunch fyrir hópinn. "Jú jú, segir Dagný, ég græja eitthvað alveg spes fyrir ykkur"...

Fyrst var byrjað á grafinni bleikju með heimagerðri hunangs og sinnepssósu á heimabökuðu brauði! NAMM!

Þá báru þau fram hlaðborðabakka með kalkún, naut með bernaise, súrsaðan rauðlauk, kartöflugratín, eggjakökur með parmaskinku, djúpsteiktan ost, meira heimabakað brauð með lakkríssmjöri sem var ekki úr þessum heimi! Heimagert pestó, eitthvað það besta eplasalat sem fyrirfinnst með kanil og vanillu, klikkun! Lífrænan bjór, rauðvín, hvítvín og allt það sem hópurinn gat látið sig dreyma um!

Við erum líka með tvo í hópnum sem ekki borða kjöt svo þau fengu sérlagaða diska með couscous og salati, eggjabökum án kjöts og ég veit ekki hvað! Þetta var listaverk!

Þá endaði þessi stórfenglega máltíð á eftirréttadiskum á hæðum, þeyttu skyri með karamellusósu, marengs doppum með þeyttum rjóma, súkkulaði konfektmolum á tveimur hæðum. Allt var þetta borið fram á gamaldags postulíni og við vorum mætt í "tea-time" til Bretlands beint frá Þorlákshöfn á núll einni! Ótrúlegur staður!

Aftur upp í rútu og brunað var í Draugasetrið á Stokkseyri. Þeir sem að vildu fóru með hringinn og ég öskraði svolleiðis úr mér líftóruna og blótaði strákgreyinu sem var að hræða okkur, kræst, merarhjarta er algjört "understatement"!

Hér vorum við aðeins búin að rústa planinu þar sem ég vildi ná alveg tveimur stöðum í viðbót áður en haldið var á endastöð.

Við vorum búin að heyra í Sveitabúðinni Sóley sem er rétt fyrir utan Stokkseyri, í Tungu réttara sagt og láta hana vita af komu okkar. Ég vissi ekki alveg útí hvað við vorum að fara nema það að ég hafði heyrt þvílíkar dásemdarsögur af þessari krúttverslun þarna útí sveit. Versta var að þar sem við reiknuðum ekki með alveg nógu löngum tíma í allt þá gaf ég þeim aðeins nokkrar mínútur til að stökkva inn.

Það breyttist þó þegar inn var komið enda þvílíkur gullmoli þessi verslun!

Við hreinlega misstum okkur öll og þónokkuð var verslað. Hópnum var boðið inn í garðskála í notalegheit, ólívur og kex. Við sóttum bjórinn í bílinn og ákváðum þá að fresta síðasta stoppinu þar sem við einfaldlega sáum að við myndum ekki ná að njóta beggja staða nógu vel. Ekki var umhverfið heldur síðra inni svo ég myndaði allt fram og til baka og þótti mér baðherbergið sérstaklega dásamlegt!

Allt svo smart!!

Sóley og maðurinn hennar eru algjörir demantar! Þau voru svo hugguleg við okkur, buðu okkur inn um allt og spjölluðu við hópinn eins og við værum frændfólk sem var að kíkja í heimsókn eftir langan aðskilnað! Það var náttúrulega eins og við hefðum þekkst til fjölda ára og allir knúsuðust og kjössuðust, þökkuðu fyrir fram og til baka og dýrkuðum umhverfið enda eru þau þvílíkt smekkfólk!

Ingunn og Linda fengu að skjótast í fjósið þar sem þær fundu sig með dýrunum!

Þetta er svo einfalt og svo hrikalega sniðugt!!!

Að lokum enduðu þau á því að skella okkur í leik sem var fyrir aftan hús. Þarna hefði mátt halda að ég væri að plana þetta, enda leikjaóð. Nei, ég hafði þarna fundið sálufélaga minn sem að skipti hópnum í 3 jafnstóra flokka sem að tróðu sér saman í risavaxna poka.. og svo var keppt!

Við erum að tala um margra manna pokahlaup, svo einfalt, svo mikil snilld og SVOOOO mikið hlegið!!! 

Eftir ástarþakkir og kveðjur var aftur haldið í bílinn og síðasta stoppið var nú næst á dagskrá. Að þessu sinni var bílferðin svolítið löng svo bjórþambið var nú tekið á annað stig og ansi klúrir brandarar voru sagðir í míkrófóninn...

Endað í Eilífsdal..

Það var að sjálfsögðu ekki annað hægt en að enda ferðina í sumarbústaðnum okkar í Eilífsdalnum fagra. Þar voru grillaðir borgarar, fíflast, hlegið, drukkið svolítið meira og skemmt sér þar til rútan sótti okkur aftur og skutlaði öllum heim!

 

Júlli, sníðadrengurinn okkar til margra ára var kvaddur þar sem hann er nú að læra orgelsmíði af pabba sínum. Fyrirtækið og samstarfsmenn gáfu honum kveðjugjöf sem hann þakkaði fyrir með svolítilli ræðu. Hans verður sárt saknað enda búinn að starfa hjá okkur hvað lengst! 

Í bústaðnum fékk ég svo að halda lokaleikinn enda leikjaóð eins og fyrr sagði. Þennan sá ég á Facebook fyrir einhverju síðan og hann er ofsalega einfaldur. Hann hentar mjög vel fyrir krakka... sem og kolruglað starfsfólk...

Það þarf einfaldlega að skipta hópnum í tvennt og strika myllu á miðjan völl (ef þetta er inni er hægt að nota td. málningarteip) og vera svo með 4 grjónapoka í sitthvorum litnum. Við notuðum reyndar bara svolitla efnisafganga enda nóg af þeim á saumastofunni.

Einn tveir og gó og hóparnir hlaupa fram og til baka til að ná að klára mylluna og því liði sem tekst það fyrst, vinnur! Einfalt og gott!

Þetta var dásamlegur dagur í alla staði og þökkum við samstarfsmönnum okkar kærlega fyrir samveruna! Eins viljum við náttúrulega þakka öllum þeim meisturum sem tóku svo höfðinglega á móti okkur og gerðu þennan dag ógleymanlegan!

Það þarf ekki endilega að kosta heilan handlegg að fara með fyrirtækið eða fjölskylduna í dagsferð og líklega öllum svo hollt að missa sig stundum aðeins og láta eins og barn í einn dag!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

Katla Hreidarsdottir

Skildu eftir skilaboð

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm