Eldhúsbreyting eftir örlitlar samningaviðræður !!

Þegar breytipúkinn kemur í mann og makinn er ekki  haldinn sama púkanum,hvað gera bændur þá ?

Jú það er til góð lausn við þessu, þegar ég ákveð að BREYTA þá þarf það að gerast í GÆR og þar sem makinn minn er ekki alveg jafn duglegur við að sjá hlutina fyrir sér þá þarf oft að nota sannfæringarkraftinn. EF það gengur ekki þá luma ég á einu ráði í viðbót og það er að tína niður úr herberginu sem á að græja, í mínu tilfelli eldhúsinu, og rífa allt niður af veggjum helst áður en viðkomandi maki kemur heim úr vinnu. Þegar sá hinn sami maki þarf svo að klífa heilt fjall af leirtaui, bókum, eldhúsáhöldum eða núðlupökkum þá er ekkert aftur snúið ef hann ætlar að fá heitan mat á næstunni.

Þetta hef ég gert oftar en einu sinni og aldrei lærir makinn á þessu, heppin ég enda var hann ótrúlega viljugur í verkið , eða mögulega svangur.

Eldhúsið okkar fyrir breytingu, alls ekki ljótt eða neitt slíkt en nýttist okkur ekki nógu vel og orðið smekkfullt af glingri og smáhlutum.

Allavega ég er mikill hlutasafnari, ekki reyndar eins slæm og Katla systir og mamma sem henda engu en ég vil hafa fallega hluti í kringum mig og er ekki beint minimal í nokkrum sköpuðum hlut. Helgin síðasta byrjaði sem sagt á því að ég fékk að gista í nýjum íbúðum sem eru að fara á leigumarkað fyrir ferðamenn og vorum við hjónin svo heppin að fá að prufukeyra eina nótt með eigendum og hinum helming Systra&Maka, verður örugglega skrifað um það síðar. Þar var allt málað í svo fallegum gráum tónum og lítið um skápa og óþarfa svo minns fór heim í þynnkunni og reif niður eldhúsið í heilu lagi nánast, eða helminginn.

Það þurfti jú að byrja á að selflytja hálfa búslóðina yfir í stofuna svo ég notaði samningatæknina við manninn og sannfærði hann um að ef við myndum losna við efri skápana þá yrði eldhúsið svo miklu þægilegra.

Kannski ekki tómlegra, það verður það aldrei en það var komin þörf á endurskipulagningu. Við vorum með hornskápa í efri skápum sem gleyptu gjörsamlega allt sem þangað rataði inn og eftir að hafa tínt út 2 makkarónupakka útrunna 2011 og fundið 3 glös af túrmerík þá var sigur unninn og eiginmaðurinn féllst á að gera þetta með mér.

Eftir niðurrif og spartsl þá var skundað í Slippfélagið og valinn litur frá Rut Kára. Ég tók með mér bakka frá henni Sveinbjörgu sem ég elska og átti því auðveldara með að finna lit sem tónaði við og var ekki of kaldur.

Liturinn heitir SKÝGRÁR og er hlýr og góður. Hann passar vel við steinaflísarnar í glugganum sem ég einmitt dreif í að leggja áður en maðurinn kom heim einn daginn, passlega til að fúga allt heila klabbið, en við sjáum ekki eftir því, mjög sniðug lausn í steinhúsum með þreyttar gluggakistur, mæli með þessu en þetta eru steinvölumottur sem eru ætlaðar á baðherbergisgólf og fást í versluninni www.sturta.is

 

Sonurinn var líka nýttur í öll verk

Hann er svo mikill snillingur þetta barn, sjáið hvað hann færði mér einn daginn úr skólanum og hafði soðið sjálfur í járnsmíði

Jæja eldhúsveggir og loft fengu nýjan lit og allt varð miklu hreinna og bjartara, ég er að segja ykkur það að það er ekki búið að mála eldhúsið síðan við fluttum inn fyrir 12 árum enda fáránlega mikið af smádóti og skrauti upp á hillum sem þyrfti að færa og höfum ekki haft nennuna í það þar til núna.

Á milli þess að skeina villiköttum og vinna aðeins í fyrirtækinu  þá náðum við að klára eldhúsið á 3 dögum og geri aðrir betur, grín. Það vantar reyndar einn hlut í viðbót sem mun bætast við á næstu dögum og verður kynntur sérstaklega í framhaldspósti.

Hér er svo smá lýsing á ferlinu ef þið eruð ekki búin að tapa þræðinum nú þegar.

Okkur langaði að setja einfaldar hillur yfir allan eldhúsvegginn þar sem hægt væri að raða upp smá skrauti jú og svo borðbúnaðinum sem er notaður oftast, þá rykfellur ekkert, alltaf allt í uppþvottavélinni, er það ekki bara. Ok jú soldið af aukapunti líka en það fylgir, mér allavega.

  

Við ætluðum að búa til hillubera úr pípulagningarefni en blöskraði eiginlega verðið á þessu því við hefðum þurft 12 hillubera á vegginn. Því fórum við í IKEA og fundum passlega grófa hillubera og nokkuð ódýra eða um 650 kr. Hilluefnið fengum við í Bauhaus, og bæsið sem við elskum hreinlega er frá Lady og nú völdum við Kulsort lit sem er aðeins dekkri en í bústaðnum okkar.

Hilluefnið mátti ekki vera of þungt til svo það þyrfti ekki múrbolta hreinlega í vegginn og fórum við þá leið að setja grennri lista framan á til að búa til svona falska þykkingu. Þetta heppnaðist vel og svo var allt bæsað hátt og lágt.

Næst var byrjað að mæla og finna út rétta staðsetningu og borvélin tekin fram. Mögulega var makinn pínu þreyttur á einum tímapunkti þegar hann sneri hilluberanum vitlaust og boraði gat í steinvegginn með höggvél á kolvitlausum stað, en það reddaðist með smá blettun og spartli.

 

Hillurnar flugu upp og við náðum að færa örbylgjuofninn af borðinu enda vantaði okkur sárlega borðpláss.

Næst var farið í að endurlakka eldhússkápahurðirnar sem eru heimasmíðaðar, setja nýjar höldur og raða svo aftur öllu dótinu aftur inn í eldhús.

 

 

Það fóru nokkrir kassar í góða hirðinn með miklum létti, eitthvað endaði í safnhaugnum enda úrelt fyrir nokkrum árum og enn annað í geymslu. Það er ágætis regla að setja allt eldhúsdótið sitt í kassa öðru hverju, sækja svo það sem vantar í kassann og eftir mánuð þegar ætti að vera búið að nota í flest öll eldhússtörfin þá kíkir maður og sér hvað situr eftir og mögulega er því ofaukið. Gefum, setjum í geymslu og léttum á umhverfinu það er hollt. Ef ég gat það þá geta það fleiri.

Við erum hæstánægð með breytinguna, bættum við lýsingu í loftið með sömu kösturum og við notuðum í bústaðinn okkar, fæst í IKEA hvar annars staðar. Nú er eldhúsið svo fínt að meira að segja kisurnar voru færðar fram í forstofu með matarskálarnar ;)

Fylgist svo með hvað endar á veggnum fyrir ofan eldavélahelluna það verður eitthvað spennandi.

Hér sést vel liturinn, grár á daginn, hlýlegri á kvöldin.

  

Uppskriftastandurinn góði frá Kristu Design

Elska að hafa hnífapörin í þessum krukkum

 Fallegu glösin úr IKEA fengu að koma með heim,stóðst þau ekki....

 

Krukkuljósin eru alltaf jafn skemmtileg að okkar mati

 

Þessi hilla var gerð úr rusltimbri eitt árið og hefur verið brún, hvít og nú kölkuð

Já ég er ekkert hætt að raða upp samt sko þótt sumt fari í skúffur

Morgunkornið geymt í krukkum enda mikið borðað! 

En svona fór þessi helgi, afslöppun sem breyttist í algjöra martröð fyrir eiginmanninn eða hvað ?? Samt vel af sér vikið Börkur minn.

Fyrir breytingu

  

Eftir breytingu

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

María Krista – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm