Öðruvísi salat með reyktum laxi

Við Tóta erum svo heppnar að eiga stóran vinahóp bæði hér í Reykjavík sem og úti á landi. Í hvert skipti sem þær kíkja í bæinn reynum við að hittast og þannig var raunin núna síðastliðinn laugardag. Halldóra æskuvinkona Tótu hafði samband við okkur og spurði hvort við gætum ekki hist í einn kaffibolla. Við hringdum í restina af suðurdeildinni og enduðum 5 í óvæntum "lunch"!

Það var nú sjálfsagt mál en ég var aðeins svangari en það sem að "einn kaffibolli" hefði nokkurntíman mett.

Svo er ég líka búin að vera að horfa á svo mikið kokkaþætti upp á síðkastið svo mig langaði að prufa eitthvað alveg spes. Við Tóta tökum svona tímabil nokkrum sinnum á ári og missum okkur í matargerð og svo nennum við engu um tíma og svo missum við okkur aftur... "millivegur" er eitthvað sem er bara ekki til í mínum orðaforða.

Ég var með einhverja óslökkvandi löngun í reyktan lax og ákvað að leita til vina minna á Pinterest að salat hugmyndum með reyktum.

Það var ýmislegt að finna svo ég blandaði saman nokkrum salat uppskriftum úr því sem var fáanlegt í búðinni og bjó til mitt eigið.

Innihald:

(Þetta er einfaldlega slump af öllu, eins og hverjum munni hentar).

 • - Lambhagasalat (Það má nota hvað sem er)
 • - bleikt salat, ég notaði það til að fá smá beiskleika (þarf ekki)
 • - agúrka, skorin með ostaskera í löng blöð og krullað niður í salatið (eða nota svona "mandolin slicer")
 • - avocado þroskað og flott, skorið í þunnar sneiðar
 • - sellerí skorið í litla bita
 • - radísur skornar í þunnar sneiðar
 • - ferskt dill til að skreyta
 • - reyktur lax í sneiðum (ég notaði 3-4 sneiðar á hvern disk)
 • - fetaostur (kubbur, ekki í olíu)
 • - sítrónubörkur
 • - sítrónusafi
 • - capers
 • - heimagerð piparrótarsósa

Piparrótarsósa:

Ég vann útfrá uppskriftinni héðan:

 • 1 dós sýrður rjómi
 • 3 msk majónes
 • 1 pakki piparrótarmauk (Ég raspaði niður ferska rót og frekar mikið af henni þar sem mér fannst hún ansi dauf)
 • 1 msk sítrónusafi (ég raspaði líka niður sítrónubörkinn af heilli sítrónu)
 • 1 msk hunang
 • 1 tsk salt (og ég bætti við svolítið af svörtum pipar)

Ég blandaði salatið á hverjum diski fyrir sig og byggði það einfaldlega upp frá því að vera salatið neðst og svo agúrkan, þá kreysti ég svolítið af sítrónusafa yfir og hélt svo áfram að byggja upp: avocadoið, selleríið, radísurnar og laxinn. Að lokum stráði ég nokkrum capers yfir, stakk dill stönglum inní hér og þar, braut fetaostinn yfir milli fingranna og raspaði svo að lokum sítrónubörkinn yfir. Nokkrar slettur af sósu og restin í skál á borðið til að bæta á. Sem þær allar gerðu, sósan var algjört möst með!

Það má náttúrulega bjóða upp á þetta salat með góðu brauði og ég sé það þá helst fyrir mér ristað, en þetta er líka virkilega gott eitt og sér svona létt í magann.

Það var alveg dúkað með kertum og svona.. ég fékk líka að vígja nýju skálarnar sem ég fékk hjá Sveitabúðinni Sóley í óvissuferðinni um daginn!

Þetta var mjög ferskt og skemmtilega öðruvísi salat. Ég held að maður festist oft svo í kjúklingasalati eða túnfisk svo þetta var ágætis tilbreyting!

Tóta mín stökk svo út í Kjötbúðina á Grensásveginum og splæsti þar í eina franska súkkulaðiköku sem er algjört nammigott. Sótti svo smá ís í ísbúðina við hliðina og við velgdum kökuna aðeins upp og bárum fram með frosnum hindberjum. 

Við búum þarna við hliðina og það er nú ekki oft sem að maður getur bara rölt út í búð og græjað allt sem græja þarf, en þegar það er hægt nýtum við svo sannarlega tækifærið!

Þetta var ofsalega notalegur laugardagur með stelpunum og allt var þetta frekar létt og gott í maga. Ég mæli klárlega með þessu salati. Það má einnig nota keypta piparrótarsósu en mér finnst sósan frá Kokkunum best en ég hef fundið hana td. í Nóatúni.

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm