10 Sniðug DIY fyrir garðinn í sumar

Nú þegar sólin er vonandi loks komin til að vera þá dettur maður ósjálfrátt í "útígarð" fílinginn. Ég á það til að missa sig yfir BYKO bæklingum og sólstólaauglýsingum frá RL vöruhúsi enda ótrúlega margt í boði alltaf sem hægt er að falla fyrir.

Þeir sem hinsvegar vilja skreyta garðinn með eigin handverki og heimagerðum lausnum þá eru hér nokkrar hugmyndir af Pinterest sem gætu komið sér vel í sumar. Það þarf ekki að vera ofurhandlaginn til að framkvæma margt af því sem þarna leynist svo um að gera að prófa. Þetta gæti líka verið skemmtilegt verkefni til að gera með fjölskyldunni.

Nr 1. Sykurpúða mini-grill.

Hér er einfalt trikk á ferðinni sem gleður eflaust litla munna. Þetta er einfaldur terracotta pottur fylltur af kolum, kveikt í og mini varðeldur kominn fyrir sykurpúðana. Mmmm 

Nr 2. Úti Mylla.

Þessi skemmtilegi leikur er alltaf vinsæll og hentar öllum aldursflokkum. Finnið 9-10 steinvölur, málið  á þær X og O og merkið svo fyrir myllunni sjálfri á plötu, spýtu eða hreinlega leggið 4 lengjur af efni, pappír á grasið. Fallegt að geyma svo steinvölurnar í strigapoka eða í fallegum potti á milli leikja. 

 

 Nr 3. Indíánatjald

Indiánatjald fyrir krakkana eða bara indíánann sem býr innra með okkur. Hér þarf aðeins að kunna á borvél og mögulega eiga handsög en að öðru leyti er þetta ekki svo flókin aðgerð. Ef saumakunnáttan er ekki til staðar er hægt að svindla með límbyssunni. Verður eflaust vinsælt hjá einhverjum börnum í góða veðrinu enda nauðsynlegt að hvíla kollana í sterkri sólinni í sumar, blikk blikk. 

 

Nr 4. Merkisteinvölur

Steinvölur til að merkja grænmetisgarðinn. Já ég veit þetta er smá fullorðins en örugglega mjög skemmtilegt verkefni. Ég er viss um að það er mjög róandi að mála svona fjörusteina og möguleikarnir óþrjótandi. Merkingarnar í grænmetisgarðinum fjúka allavega ekki út í buskann.

Nr 5. Geitungavörn

Geitungavörn úr perlum - þetta er snilld fyrir glösin okkar og örugglega smart verkefni fyrir litlu puttana. Það er fátt eins glatað og pirrandi og hafa sveimandi geitung yfir drykknum úti í sólinni. Mér finnst þetta vera flott lausn :)

Nr 6. Brettarúm

Okei hér erum við aðeins farin út í meira verkefni en vá hvað þetta er svalt. Bretti eru svo mikil snilld og það eru endalaust margar hugmyndir í boði hér þegar viðkemur að búa til sniðuga hluti úr vörubrettum. Oddi er búinn að auglýsa að þeir gefi vörubretti á bílaplaninu sínu svo nú þarf bara að skjótast upp á Höfða, smíða hengirúm og koma frúnni á óvart, eða spúsanum. 

 Nr. 7 Svampavatnsstríð

Hér þarf að útvega sér nokkra þvottasvampa sem klipptir eru í ræmur og festir saman með gúmmíteyju. Svampasprengjurnar eru settar í vatnsbala og svo má stríðið hefjast. Miklu sniðugra en vatnsblöðrurnar sem rusla út garðinn og eyðast ekki í náttúrunni. Umhverfisvænt vatnsstríð er miklu skemmtilegra.

Nr. 8 Blómahengi úr skeiðum

Gamlar skeiðar er hægt að nota í allskonar sniðuga hluti, t.d. gata þær og nota fyrir maísbaunir eins og Skeiðin hans afa hihi en einnig er hægt að gera þessi fallegu blómapottahengi úr einmana matskeiðum. Það þarf væntanlega smá átak í þetta verk en smart engu að síður. 

 

Nr. 9 Fóðurstaurar fyrir heimilisdýrin

Hér er á ferðinni algjör snilld fyrir þá sem eiga t.d. hænur í garðinum eða þá sem eiga útikisur sem þurfa að komast í mat og vatn meðan heimilisfólkið er fjarverandi.

Við hjá Villiköttum bjuggum til álíka staura fyrir villingana okkar sem við köllum Matargatið og eru staurarnir að slá í gegn hjá sísvöngum kisunum.

 

Nr.10 Lóðréttur grænmetisgarður

Nú eru ekki allir svo heppnir að eiga heilan garð út af fyrir sig og fyrir þá sem eru með græna fingur en búa t.d. í fjölbýli þá er hægt að útbúa svona lóðrétta grænmetisgarða fyrir t.d. kryddplöntur, jarðaber og jafnvel kartöflur. 

Endilega kíkið á Pinterestið okkar og fáið fleiri hugmyndir. Það er nóg af þeim :) Eigið yndislegt sumar elskurnar.

https://www.pinterest.com/systurogmakar/hugmyndir-fyrir-gar%C3%B0inn-diy/

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

María Krista – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

 

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm