Ferðalagið til Frakklands -planið!

Eins og við kynntum í póstinum okkar hér fyrir stuttu eru 3 ný ævintýri að fara í gang hjá okkur hjá Systrum&Mökum.

3. ævintýrið get ég ekki uppljóstrað um alveg strax.. en það verður spennandi að fylgjast með því, svolitlar breytingar og málningarvinna.. ég veit að þið munið hafa gaman að því stússi..;)

2. ævintýrið er Hamingjudagurinn okkar sem er í fullum gangi. Við erum búin að velja 12 dömur í "undanúrslit" og liggur valið nú hjá ykkur, en það er hægt að kjósa eina heppna hér: #hamingjudagur

1. ævintýrið er Ferðalagið okkar til Frakklands sem við erum að leggja í á morgun!!!! #systurogmakarifrakklandi

Ég er búin að liggja svolítið yfir dagskrárgerð, plani og lestri um Provence héraðið og elskurnar okkar á saumastofunni eru búnar að vera sveittar að græja á okkur dress.. er það ekki bara eðlilegt þegar maður fer í 11 nátta útlandaferð.. þá þarf maður alltaf að hafa glænýjan fataskáp með sér ekki satt?!! 

Síðustu kvöld höfum við Tóta líka hellt okkur í að horfa á kvikmyndir með frönsku ívafi, Julie & Julia, Sabrina og The French Kiss sem minnti mig á ógleymanlega klippingu Meg Ryan sem ég skartaði að sjálfsögðu eins og allir hinar á unglingsárunum. Það er á hreinu að klippingin klæddi Meg Ryan vissulega betur en búttaðan unglinginn mig.. ahh elskulegu minningar!!

Planið er svo sannarlega ekki grafið í stein en mig langar til að segja ykkur svolítið frá því sem við allavega "stefnum" á að gera.. Við verðum svo með Snapchattið lifandi úti sem og Instagram reikninginn okkar: "systurogmakar", og eitthvað langar okkur systrum að halda blogginu lifandi svo lengi sem að rauðvínsdrykkja og slökun flækist ekki fyrir því. Nú í versta falli fáið þið ferðasöguna alla í heild þegar við komum heim. Þið getið þá allavega fylgst með því hvaða áhrif rauðvín hefur á vinnuþreyttar systur og maka þeirra í "live feed" á snappinu... þetta verður eitthvað!

Ferðaplanið í Provence

Áður en þið hefjið lestur mæli ég með því að spila þetta í bakrunninum til að fá fulla tilfinningu fyrir þessu! Nei ég segi bara svona.. ;)

Provence er sumsé landfræðilegt svæði og var sögulega hérað. Það er staðsett í suðaustur horni Frakklands við Miðjarðarhafið.

Svæðið spannar um 30.000. ferkílómetra og íbúafjöldi er um 4,9 milljónir.

Provence er þekkt fyrir lavenderakra, ólívuræktun og olíugerð, vín og matargerðin er hjartað og garðarnir eru fullir af grænmeti, ávöxtum, jurtum og blómum. Miðjarðarhafið og sjávarfangið hefur áhrif á matarmenninguna sem einkennir landsvæðið. 

Í Provence má meðal annars finna frönsku ríveríuna þar sem borgirnar Cannes, Nice og Antibes eru hvað stærstar. Smáríkið Monaco er þar rétt hjá og St. Tropez er þekkt fyrir glamúr og glitur ríka og fræga fólksins.

Eins er hér að finna ógrynni smábæja með gömlum húsum, rústum og ójöfnum götusteinum, leynilegum stígum, ponkulitlum listabúðum, mörkuðum með matvöru og ilmi sem fyllir vitin og það eru þessi svæði sem að heilla mig hvað mest!

Ég sagði ykkur svolítið frá bænum okkar í síðasta pósti en við erum búin að leigja okkur dásamlegt hús í gegnum Airbnb í Saumane de Vaucluse.

Í miðri ferð ætlum við að keyra til Nice og gistum á hóteli þar í tvær nætur. Þá náum við að skoða okkur aðeins um Riveríuna og borgirnar þar.

Við förum út á morgun, laugardag frá Keflavík og fljúgum með Wow air til Lyon. Við munum þurfa að borða eitthvað þegar við lendum þar sem keyrslan í húsið okkar er um 3 klst. 

Strax á sunnudeginum langar okkur að kíkja á markaðinn í  L'Isle-sur-la-Sorgue. Hann er víst algjörlega dásamlegur með fullt af allskonar matvöru og dúlli.. ég er hrædd um að fríka út hér!

Í öðrum nágrannabæ við okkur Fontaine-de-Vauclause langar okkur að fara í kanó ferð. Þar er að finna ofsalega fallega og frekar rólega á sem rennur inní fullt af gróðri.. æi glatað örugglega!! ;)

Þennan dag væri líka hægt að fara til Gordes sem er rétt um 30 mín frá Vauclause. Þar er skemmtileg gönguleið um Ocrafjöllin sem eru okkurgul, svolítið hike! Hér er einnig að finna Senanque Abbey en hér er talinn vera einn besti staðurinn til að skoða Lavenderakrana. Við erum ekki alveg á réttum tíma þar sem við erum svolítið snemmsumars, en það er þó smá séns að sjá eitthvað.. krossa fingur..

Svo væri hægt að keyra bara heim í bæinn okkar og borða td fyrsta kvöldið á veitingarstaðnum rétt hjá okkur og skála  á „Le Bistrot de Saumane“. Þessi staður er bókstaflega 3 mínútum að heiman.. bara aðeins of puuuurrrrrfect eitthvað.. OG hann fær mjög góða dóma!

Á mánudeginum væri kannski hægt að fara í dagsferð til Avignon og St- Rémý de Provence. Þær eru rétt hjá okkur og ansi margt að sjá í hvorri borg!

Á þriðjudeginum langar mig að fara til Aix En Provence. Hér er ég búin að finna matartúr sem heitir: „Tastes of Provence – Tours“, það er hægt að fara í svona afternoon delights túr sem er með macaroons og allskonar sætu, örugglega mjög skemmtilegt, fræðandi og fær frábæra dóma! (Ca. klst frá Isle).

Fara svo til Salon de Provence, þar er td rosa flottur mosa gosbrunnur og einhver geggjuð sápubúð. (Við gætum líka farið í þennan bæ á fimmtudeginum eftir Nice ferðalagið..)

Á miðvikudeginum er ferðinni heitið til Nice, en við fundum geggjað hótel sem heitir Villa Bougainville. Nei ég meinaða, myndirnar eru klikk!!!! Sjáiði alla þessa liti! Ég tjúllast!

Þessum tveimur dögum langar okkur að eyða í Nice, kíkja til Monte Carlo, Monaco og Cannes. Svo þegar við tékkum okkur út af hótelinu benti frænka mín okkur á að fara til St-Paul-de-Vence. Þetta er víst svona listamannabær sem er algjört krútt og maður treystir ávallt frænkum sínum!

Á fimmtudeginum þar á eftir væri nú bara hægt að taka smá slökun í bænum okkar eða í garðinum. Eins væri hægt að fara í ferð til Salon de Provence sem er ca 50 mínútur frá okkur. Bærinn er þekktur fyrir ólívur, ólívu olíur og sápugerð! (Ef við náum þessum ekki á þriðjudeginum).

Þið munið nú örugglega eftir honum Mána frænda mínum, hann er snillingurinn sem sauð saman öll borðin og hillurnar í bústaðnum okkar forðum. Þessi drengur er líka hjólafrík og hefur m.a. unnið í hjólabúð OG unnið í hjólakeppnum.. naujh sáuð þið þennan snilldar leik minn að orðum, badabing! 

Aaaallavega, á sunnudeginum er sumsé Kirsuberjahátíð í Venasque (ca 30 mín frá Isle) og þann sama dag væri hægt að fara á hjólahátíð í Gorges de la Nesque (44 mín frá Venasque). Mána þætti það nú ekki leiðinlegt held ég!

Mánudagurinn 6. júní er planaður í stranddag til Marseille og Cassis.

Í Cassis gætum við farið í bátsferð til Calanques (frá Isle – Cassis 1klst 22min.) Ferðirnar fara af stað á tveimur tímum svo hér þyrftum við að leggja af stað ansi snemma frá Isle eða alveg um 07:00/07:30 ca. Bátsferðin fer inn í lítinn fjörð á aflokaða strönd og hér þarf að taka með nesti. Ferðin tekur um 3,5klst í heildina. Svo væri hægt að fara til Marseille í bakaleiðinni og skoða aðeins þar og borða kannski kvöldmatinn og svona og svo heim.

Cassis – Marseille: 36 min. Marseille – Isle: rúmlega klst

Síðasta dag fyrir heimferð er aftur hægt að hafa bara svolítinn "chill" dag, kannski kíkja í seinni nágrannaborgirnar okkar tvær: Les Baux-de-Provence og Arles.

Þ.e.a.s. ef við verðum ekki þá þegar búin að fara, þá höngsum við bara heima í slökun og bloggum í garðinum ;)

8. júní er svo komið að heimferð en flugið er ekki fyrr en seint um kvöldið. Við næðum því að keyra alla leið til Lyon og eyða deginum þar hreinlega. Þar er að finna ofsalega falleg svæði m.a. gamla hverfið sem kallast Vieux Lyon.

Þetta verður örugglega æðislegt! Miðað við allar þær myndir sem við erum búin að skoða er ég viss um að við komum heim gjörsamlega litaóð svo það er spurning hvort það muni hafa áhrif á næstu vöruframleiðslu eða hvað.. en það er nú bara spennó!

Við vonum að þið fylgið okkur í ferðina á samfélagsmiðlunum og við hlökkum svo til að segja ykkur frá næsta ævintýri von bráðar!

Verslanirnar verða í fullu fjöri á meðan að sjálfsögðu enda erum við með marga meistara í vinnu hjá okkur sem að sjá um að halda virkinu við! Netverslunin er ávallt opin og búðirnar sömuleiðis!

Þær eru líka á milljón við að koma nýjum vörum í búðina. Ég náði því miður ekki að vera með myndatöku fyrir ferðina svo þar til við komum heim er um að gera að heimsækja búðina.. ég vinn þetta svo allt upp síðar :)

Au revoir mon ami!

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter... og nú á SNAPSHAT!

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm