Skemmtilegur bíltúr með fjölskyldunni!

Við systur og makar fórum í bíltúra um daginn, þeir áttu sér báðir stað suðurlandi en í sitthvoru lagi þó. Þetta var jú "æfing" fyrir komandi ferðalag til suður Frakklands sem mun vara í heila 11 daga þar sem við munum keyra mikið um svæðið!!

Okkur langar til að segja ykkur frá þessum ferðalögum þar sem þetta gæti vonandi nýst ykkur sem svolítill hugmyndabanki fyrir rómantískt ferðalag eða sem skemmtun fyrir fjölskylduna! 

Ég og maðurinn minn erum líklega vinnualkar

enda þrífumst við best í vinnu og ef glittir í mögulegt frí þá eigum við til að leggjast í flensu eins og týpískir Íslendingar á sumrin, já eða öxlin fer hjá gamla eða ég fæ ofnæmiskast um leið og frjóin mæta á klakann. Við ákváðum þó að æfa okkur í að vera í fríi og taka einn "off" dag síðustu helgi og skreppa í ferðalag austur fyrir fjall.

Það gekk ótrúlega vel að draga örverpið úr tölvunni

en kostaði reyndar smá mútur eins og sundlaugarloforð og mögulega heitan kakóbolla með rjóma en hann er alveg sérstakur að þessu leyti og drekkur heitt kakó meira að segja á sólarströndum í 30 stiga hita.

Fyrsta stopp var ekki langt undan eða í Metró í Smáranum, enda enginn búinn að borða morgunmat. Við sáum fram á að það borgaði sig að næra unglinginn svo hann myndi ekki pína yngri bróður sinn alla leið til Selfoss.

Eftir mishollar máltíðir var brunað af stað og ákveðið að stoppa í Fákaseli og skoða smá enda hef ég heyrt góðar sögur af þessum sniðuga hestabúgarði. Fákasel er þekktast fyrir leiksýningar sínar þar sem íslenski hesturinn leikur aðalhlutverkið og eru haldnar sýningar á hverju kvöldi kl 19.00. Við náðum því miður ekki á sýningu að þessu sinni en munum pottþétt panta okkur við gott tækifæri og þá borða á veitingastaðnum í leiðinni. Við sáum strax eftir Metróborgaranum þegar við sáum kræsingarnar sem bornar voru á borð fyrir gesti staðarins. Aular sem við vorum eða kannski bara græðgi !!

Það er hægt að fá leiðsögn um hesthúsið á 30 mín fresti svo það er tilvalið að fara í sunnudagsrúnt með krakkana og koma við á Fákaseli sem er mitt á milli Hveragerði og Selfoss. Smart staður, góð þjónusta og hlýlegt andrúmsloft sem vert er að mæla með.

Með feitt samviskubit yfir að hafa ekki fengið okkur eitthvað gott í gogginn í Fákaseli urðum við að stoppa á Selfossi í Kaffi krús og fá okkur köku og hugga okkur. Það er eitthvað rugl í gangi í þessu kökuborði og ég hef heyrt að kökurnar séu allar „hjemmalavet“. Það er allavega ekkert bakarísbragð af þessum hnallþórum og deildum við sitthvorri sneiðinni enda svo agalega matgrönn fjölskylda.. EINMITT!!

Náðist ekki einu sinni á mynd í heilu lagi, græðgin var það mikil.

Jæja brunað var áfram og nú lá leiðin á Flúðir en við höfðum ætlað í Gömlu laugina með starfsfólkinu okkar í óvissuferðinni sem við blogguðum um hér fyrir stuttu. Sökum tímaleysis þá þurftum við að geyma þá ferð til betri tíma svo nú var tilvalið að prufukeyra pollinn. Við héldum reyndar að þetta væri eitthvað húmbúkk og lítið varið í enda gerðum við okkur enga grein fyrir hvernig þessi staður væri.

"Feis" á okkur því þetta er auðvitað ótrúlega smart laug sem mikið hefur verið lagt í en þó á látlausan og snyrtilegan máta. Það kostaði 3000 kr á fullorðinn að fara ofan í en frítt fyrir drengina svo í raun var þetta 1500 kr á mann ef maður lítur á það þannig.

Við máttum rölta um uppsprettusvæðið áður en við skiptum um föt og það var gaman að skoða heitu pollana bubblast upp úr jörðinni og renna út í steinlaugina, ótrúlegt þetta land okkar !! Þarna birtist bara  þessi flotta sundlaug mitt á milli gróðurhúsanna með tómataplöntum, gúrkum og öðru góðgæti.

 

Laugin var hreint út sagt æðisleg, heit og góð. Enginn kísill og vesen eins og í Bláa lóninu og töluvert færri ferðamenn!! Það er sandur í botninum og nokkrir slímugir steinar sem Nói minn hryllti sig yfir en hann fær nú klígju yfir hljóðinu í blýant skrifa á blað svo það er ekkert að marka hann þessa elsku.

Eftir klukkutíma svaml í lauginni í sól og sumaryl var stefnan tekin á að næra sig. Einhversstaðar hafði ég lesið um Gamla fjósið en á þessum slóðum en boy o boy það var aðeins lengra en  mig minnti eða undir Eyjafjöllum takk fyrir svo eftir rúma klukkutíma keyrslu komumst við loksins á leiðarenda orðin vel hungruð.

Hér erum við að tala um algjört krúttfjós sem er búið að gera að huggulegum steikarstað og er hráefnið beint frá býli og grænmetið ræktað í garðinum.

Það var ekki hægt annað en að panta sér steik þótt hún væri kannski í dýrari kantinum en góð var hún úff. Strákarnir fengu sér súpu og hamborgara og smakkaðist allt mjög vel. Það er alveg merkilegt hvað við erum að gera góða hluti um allar koppagrundir og get ég alveg mælt með stoppi á svona stað frekar en enn einni bensínstöðinni.

Á bakaleiðinni kíktum við á Seljalandsfoss með öllum hinum erlendu vinum okkar á ferð um landið og nældum okkur í kaffibolla í mjög svo huggulegum veitingavagni.

Strákarnir létu vaða bak við fossinn og nokkrum myndum smellt af svona í takt við ferðamannaandann.

Dagurinn var yndislegur og nærandi og mæli ég með því að fólk geri sér dagamun og ferðist um landið eins og allir hinir.... það er eitthvað við þetta land okkar, svei mér þá.

Fontana, humar og súkkulaðiterta eins og amma gerði hana!

Ég og Tóta keyrðum í yndislegu veðri til að skella okkur í sund einhversstaðar út fyrir borgarmörkin. Þetta byrjaði ósköp sakleysislega þar sem við ætluðum einfaldlega að sleikja sólina í einhverjum gömlum potti í nágrenni Reykjavíkur. 

Þegar geislarnir voru farnir að hita mælaborðið og við byrjaðar að öskursyngja með Adele í botni var einhvernveginn ekkert annað í boði en að tríta okkur svolítið og fagna veðurguðunum sem bókstaflega sögðu okkur að njóta þess!

Fontana var það heillin, staður sem við höfum ætlað okkur að heimsækja lengi en aldrei gefið okkur tíma til að gera! (Munið að taka fram stéttarfélagið ykkar og þið fáið helmings afslátt!! SNILLD!)

Ef þú hefur aldrei farið.. farðu þá!

Fyrir utan það að vera óstjórnlega heppnar með veður (sundbolafar og allt), þá er laugin algjör dásemdardemantur! Arkitektúrinn, hönnunin á móttökunni, búningsklefunum og svo umhverfi sundlaugarinnar er í hæsta gæðaflokki. Þá er ég ekki einu sinni að minnast á útsýnið yfir vatnið sem er geggjað!

Það er boðið uppá að synda í vatninu og lítil "bryggja" sem auðveldar manni aðgengið.. nautnabelgirnir við nutum þess þó að svampla í heita vatninu bara! Það var frekar rólegt í lauginni þennan dag sem við vorum ánægðar með og gátum því mátað alla pottana á okkar tíma. 

Við skildum það þó einstaklega vel á þessari stundu hvers vegna ferðamennirnir elska þetta magnaða land okkar! Í alvöru, hversu heppin erum við?!

Eftir sund er maður alltaf svangur, það er bara einhvernveginn þannig, þið kannist við þetta!

Höldum áfram með sakleysið.. "hvað eigum við að fá okkur í gogginn elskan?"

"-Æi, veit það ekki.. hefurðu lyst á humri?.."

Sólgleraugun upp, Hellooo hækkað í botn og brunað af stað á Stokkseyri!

Eins og þið sjáið var útsýnið alveg glaaaatað bara! einmitt! :)

Á Fjöruborðinu pöntuðum við okkur þriggja rétta seðilinn.. æi bara svona eitthvað létt í magann..

Fyrst kom humarsúpan með heimabökuðu brauði og tveimur tegundum af sósum! Ohhhh alveg bara himnesk súpa skal ég ykkur segja, og í rauninni alveg feykinóg.. en látum sedduna nú ekki stöðva okkur elskurnar...

Þá var það humarinn, pönnusteiktur með smjöri, hvítlauk og smælki ásamt úrvali af salötum. Tóta mín lét salatið eiginlega alveg eiga sig, en ég réðst á það með bestu lyst! Humarinn var æðislega góður, ég er reyndar hrifnari af því að láta hreinsa hann og gamla mín pjattast nú í því fyrir mig þegar við eldum svona heima, kannski bara dilla í manni..?

Að lokum fylgdu seðlinum tvær sneiðar af hnallþórum, ég er miklu meira fyrir sætindin en Tóta svo ég fékk að velja.. eina marengs og eina súkkulaðitertu! Já þarna var ég algjörlega komin til himnaríkis!

Það er langt síðan ég hef fengið svona svaaaaakalega góða súkkulaðitertu, holy moly bara! Ég var löngu orðin södd en ég vissi að ef ég myndi skilja bita eftir myndi ég sjá svo ææægilega eftir því að það var bara ekki annað hægt en að klára! Hefur enginn lent í því eða??!

Dagurinn var æði og jú, við fórum soldið "gourmet" leiðina og þetta kostaði smá en stundum á maður bara að "live a little" og njóta þess! Það er þó klárlega hægt að fara í yndislegan bíltúr sem þarf ekki að íþyngja seðlaveskinu mjög og þetta svæði er svo skemmtilegt að skoða!

Við fórum náttúrulega með starfsfólkið okkar í óvissuferð á þessum slóðum og ég mæli hiklaust með því að kíkja á hugmyndirnar úr þeim pósti líka, hann má sjá hér:

Næst á dagskrá er að tilkynna þær 12 sem verða valdar úr Hamingjuleiknum svo fylgist endilega vel með næsta pósti! 

Sköpum okkar eigin hamingju og verum góð við hvort annað kæru vinir!

Ef þér líkaði þessi póstur væri dásamlegt ef þú vilt vera yndi og deila!

María Krista og Katla – Systur & Makar –

Hægt er að fylgja okkur á InstagramFacebookPinterest og Twitter

Einnig bendum við á póstlistann okkar hér.

Veljum íslenska hönnun og íslenska framleiðslu!

María Krista Hreidarsdóttir
Left Versla áfram
Þín pöntun

Karfan þín er tóm